Börn að borða
Börn að borða
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Börn í Reykjavík fá ekki mat heldur upphitað fóður, segja þrjár mæður sem hafa farið ofan í saumana á mötuneytismálum grunnskólanna. Tvær þeirra eru kokkar og sú þriðja mikil áhugamanneskja um mat og næringu. Bergþóra Njála Guðmundsdóttir ben@mbl.is
Við erum eiginlega rannsóknarnefnd mötuneytismála,“ segja þær og skella þykkri möppu með gögnum á borðið. „Svona Jamie Oliver Íslands!“ Sá fáklæddi kokkur gerði víðreist um Bretland til að fara ofan í saumana á mataræði skólabarna þar í landi og líkt og hann hafa þær Margrét Gylfadóttir, Sigurrós Pálsdóttir og Sigurveig Káradóttir fundið út að víða er pottur brotinn í því efni. Nema í þeirra tilfelli eru börnin íslensk og mötuneytin staðsett í grunnskólum Reykjavíkur.

Leiðir þeirra þriggja lágu saman í gegnum skóla barna þeirra; Sigurrós og Sigurveig eru kokkar – sú fyrrnefnda yfirkokkur á Manni lifandi en sú síðarnefnda rekur framleiðslufyrirtækið Matarkistuna og er einnig í stjórn Slow Food-samtakanna á Íslandi. Margrét hefur hins vegar lengi haft áhuga á næringu og mataræði og viðað að sér ýmsum fróðleik í þeim efnum. Þessi sameiginlegi mataráhugi varð til þess að þær fóru að ræða saman um matinn í skólamötuneytinu og fundu út að þær deildu sömu áhyggjum af matseðlinum. „Okkur þótti unnar kjötvörur spila of stórt hlutverk á honum og ákváðum að gera eitthvað í málunum,“ segir Margrét.

Þær létu þó ekki nægja að fara yfir matseðlana í eigin skóla. „Við skoðuðum matseðla hvers einasta skóla í Reykjavík og sáum að aðeins nokkrir skólar eru með mat í lagi. Hjá öðrum er þetta bara sláandi. Auðvitað eru fínir réttir inni á milli en matur á borð við bjúgu, kjötbollur, kjúklinganagga, medisterpylsu, saltfiskstrimla, svikinn héra, vorrúllur og krepinettur er allt of algengur. Niðurstöður okkar voru að unnin matvæli voru á boðstólum skólanna allt frá sjö og upp í tólf sinnum í mánuði. Ráðleggingar og viðmið Lýðheilsustöðvar gera ráð fyrir að unnar kjötvörur séu ekki oftar en einu sinni til tvisvar í mánuði.“

Þar fyrir utan eru súpurnar. „Maður getur ekki gengið að því vísu að þær séu búnar til frá grunni heldur eru þær oft pakkasúpur, unnar úr kjúklingapúðri og kjúklingafitu. Kakósúpurnar eru alveg kafli út af fyrir sig því í raun eru þær bara uppskrift af skúffuköku, fyrir utan eggin.“

Matseðlarnir sjálfir gefa þó takmarkaðar upplýsingar eins og Sigurveig útskýrir. „Nöfnin á réttum matseðlanna segja svo lítið – fólk áttar sig ekki á því að þetta er ekki matur eins og það eldar hann heima, þó svo hann heiti sömu nöfnum. Nöfn rétta á borð við lasagne gefa allt eins til kynna að þeir séu búnir til frá grunni.“

Iðulega er raunin þó önnur eins og þær komust að með því að kanna innihaldslýsingar réttanna. „Skólunum er gert skylt að versla bara við ákveðna birgja. Við fengum upplýsingar um hverjir þeir væru og hringdum svo í þá,“ segir Margrét og Sigurrós heldur áfram. „Það gekk reyndar illa að fá upplýsingar í byrjun. Vinkona okkar á barn með fæðuofnæmi, þannig að við öfluðum okkur upplýsinga á þeim forsendum og kröfðumst þess að fá mun ítarlegri upplýsingar um innihald en við höfðum áður fengið.“

Kartöflur í dularfullum legi

Þær upplýsingar voru mjög upplýsandi. „Við komumst t.d. að því að kjötbollur á matseðli skóla eru í flestum tilfellum farsbollur og uppistaðan í farsinu er reykt trippakjöt og kindakjöt. Það getur verið hvað sem er af skepnunni; fita, sinar, brjósk og annað ruslkjöt sem færi í tunnuna á flestum heimilum. Í sumum tilfellum er prótíninnihaldið komið niður fyrir kolvetnamagnið sem sýnir að það er afar lítið kjöt í matnum, heldur er hann aðallega uppfyllingarefni.“

Margrét tekur dæmi af öðrum algengum rétti á matseðlum skóla, sviknum héra. „Hann kemur í skólana foreldaður og tilbúinn til hitunar og inniheldur m.a. kindakjöt, nautakjöt og trippakjöt fyrir utan vatn, uppfyllingarefni og ýmiskonar E-efni.“ Sigurrós heldur áfram: „Þegar kjöttegundirnar eru orðnar þrjár segir það sig sjálft að ekki er um gæðavöru að ræða. Einnig er engin trygging fyrir því að kjöt hverrar tegundar sé allt af sömu skepnunni. Í Bandaríkjunum hafa menn komist að því að í einum kjöthakkbakka getur verið kjöt úr þúsundum kúa.“

„Við viljum kalla þetta fóður,“ segir Margrét. „Ég kaupi aldrei svona mat. Og þegar kemur að fiskinum er ástandið engu skárra. Lýðheilsustöð miðar við að hann sé tvisvar í viku og á matseðlum sjáum við að oft er soðin ýsa einu sinni í viku en hin fiskmáltíðin er t.d. saltfiskstrimlar, fiskinaggar, fiskur í Orly-deigi eða fiskibollur sem allt kemur foreldað í mötuneytin.“ Og þar er síður en svo hreinn fiskur á ferð að þeirra sögn.

T.a.m. fundu þær út að saltfiskstrimlar innihalda hátt í tuttugu innihaldsefni. „Fiskafurðir, oft á tíðum dulbúnar í þykku lagi af raspi, geta verið hingað komnar frá jafn fjarlægum löndum og Alaska og Kína. Þetta kom fram á fundi sem við áttum með nefnd um hagræðingu mötuneytanna og virtist engum þykja það neitt tiltökumál. Við eigum að heita stolt fiskveiðiþjóð, en á sama tíma bjóðum við börnunum okkar upp á innfluttan fisk. Því er haldið fram að í fiskbollum sé hrein ýsa en samkvæmt upplýsingum frá fyrstu hendi er það ekki svo. Ýsan er einfaldlega of dýrt hráefni til að hún sé hökkuð í fiskbollur. Í staðinn er notaður svokallaður fiskmarningur. Ekki það að fiskmarningur sé óhollur en ég efast um að við fullorðna fólkið færum út í búð og keyptum okkur eitt kíló af marningi. Þetta dæmi sýnir að eitthvað vantar upp á vitneskju og þekkingu hjá þeim sem með þessi mál fara í umboði okkar foreldra,“ segir Margrét og Sigurrós kinkar kolli. „Við fundum líka út að prótínmagnið í bollunum var 13 grömm og kolvetnismagnið 11-12 grömm. Það þýðir að hveiti, sojaprótein og önnur uppfyllingarefni eru í mjög miklu magni.“

Það er þó ekki bara fiskurinn sem er innfluttur um langan veg, eins og Sigurveig bendir á. „Það má líka velta því fyrir sér hvaðan kartöflurnar sem börnin fá í matinn eru komnar. Þær koma oftast inn forskrældar og forsoðnar í dularfullum legi og það er engin næring eftir í þeim þegar þær eru jafnvel búnar að ferðast um hálfan hnöttinn. Og það eru fleiri svona dæmi.“ Hún gagnrýnir líka hversu stuttan tíma börnin fá til að borða í mörgum skólum. „Þau fá kannski 10-15 mínútur til að skófla í sig matnum og sum börn ná hreinlega ekki að borða á þessum stutta tíma. Þau sem eru óframfærnari en önnur og troða sér ekki fremst í röðina eru kannski nýkomin með á diskana þegar matartíminn er búinn.“

Þá segja þær mikið vanta upp á að börnin fái nægju sína af ávöxtum og grænmeti í skólunum. „Á matseðli margra skóla segir að grænmeti og ávextir fylgi með, eins og Lýðheilsustöð leggur áherslu á. Ég hef hins vegar heyrt frá kennara í einum skólanum að þegar hún er að vinna í mötuneytinu segi kokkurinn henni fyrir matinn hversu mikið grænmeti hún megi gefa hverju barni og það geta t.d. verið tveir paprikustrimlar á barn. Ef barnið vill meira á að gefa því meiri bjúgu,“ segir Sigurrós.

Liggja í vatnskrönunum

Að þeirra mati er fullkomlega óviðunandi að börnin fái slíkt magn unninna kjöt- og fiskvara í skólanum „á sama tíma og rannsóknir sanna að þær eru skaðlegar,“ segir Margrét og rifjar upp nýlegar fréttir af rannsókn vísindamanna við Harvard-háskóla. Hún sýndi að unnar kjötvörur valda aukinni hættu á hjartasjúkdómum og sykursýki en fimmtíu grömm af slíkum kosti á dag auka líkurnar á hjartasjúkdómum um 42 prósent og á sykursýki um 19 prósent. Þá beini Alþjóðakrabbameinsrannsóknarsjóðurinn því til foreldra að halda börnum sínum frá unnum kjötvörum, en niðurstöður rannsókna sjóðsins sýni meðal annars að hætta á krabbameini í ristli aukist um 50% ef fólk neyti 50 gramma af unnum kjötvörum daglega. „Og börnin okkar eru á þeim aldri sem þau eru móttækilegust fyrir krabbameinsvaldandi efnum,“ segir Margrét. „Ef ekkert verður gert í þessum málum núna á þetta mataræði í skólunum eftir að kosta okkur óhemjumikla peninga í framtíðinni vegna heilsufarsvandamála. Á að spara á kostnað heilsu barnanna okkar?“

„Fæðuóþol barna hefur líka aukist verulega síðustu ár og kannski má rekja það til þessara hluta,“ segir Sigurveig. „Einn birginn sagði einmitt að það væri svo skrýtið að það væru alltaf fleiri og fleiri foreldrar að hringja út af börnum með óþol – kannski ekki bráðaofnæmi heldur magaverki og vægari kvilla. Þar fyrir utan er hreinlega verið að skemma bragðskyn barnanna okkar með þessu. Þau venjast því að borða hvað sem er, bara að það sé nógu salt eða reykt, enda liggja þau í vatnskrönunum eftir þessar máltíðir.“

Margrét kinkar kolli. „Barnið mitt sagðist einu sinni hafa fengið rauðar fiskbollur í matinn. Þegar ég fór að athuga málið voru þetta ekki fiskbollur heldur saltkjötsfarsbollur. Börnin vita ekki einu sinni hvað þau eru að borða, því mörkin milli fisks og kjöts eru óskýr – þetta lítur allt eins út, er eins á bragðið og áferðin svipuð. Ein mamman orðar þetta svo í ummælum við grein sem birtist um þessi mál á netinu: „Of saltur matur getur verið hættulegur nýrnastarfsemi barnanna og matarsmekkur mótast á neikvæðan hátt. Þau fá smekk fyrir söltum og mikið unnum mat og sá smekkur er mótaður af skólayfirvöldum. Þegar þetta er gagnrýnt eru dregnir fram næringarfræðingar sem segja að þessi matur innihaldi næga næringu en það gerir kattamatur vissulega líka. Það þýðir samt ekki að hann eigi að vera boðlegur börnunum okkar.““

Frekari hagræðing í pípunum

Margrét vísar þarna til annars stjörnukokks sem hefur látið matarmál grunnskólabarna sig varða, hinn danska Melker Andersson sem staðhæfir að matur dönsku barnanna sé verri en kattamatur í dós. Það rökstuddi hann með því að taka prufu af skólamatnum, kjötbollum, kartöflumús og brúnni sósu og senda til greiningar á rannsóknarstofu. Niðurstöðurnar voru svo bornar saman við innihald dósar af kattamat. Hið síðarnefnda reyndist vera næringarríkara.

Sigurveig bendir á að ástandið sé ekki síst bagalegt vegna þess að margir foreldrar séu farnir að líta á skólamáltíðina sem aðalmáltíð barnanna yfir daginn og Margrét tekur undir það. „Á þessum tímum eru margir sem eiga engan pening og stóla á að barnið fái næringarríka máltíð í skólanum. Í staðinn fær það foreldað og upphitað fóður.“ Sigurrós heldur áfram: „Ég fæ innilokunarkennd af því að vita að börnin hafa ekkert val. Þau koma glorhungruð í hádegismat og verða að borða það sem fyrir þau er lagt, vitandi að þau eiga ekki eftir að borða neitt fyrr en í næsta skipti sem eitthvað er sett fyrir framan þau. Svo tekur dagvistunin við til klukkan fimm á daginn.“

Eftir rannsóknarvinnu sína ákváðu þær Sigurrós, Margrét og Sigurveig að koma upplýsingunum á framfæri við þar til bæra aðila. „Við komumst á snoðir um að til væri starfshópur hjá Reykjavíkurborg sem hefði það verkefni að endurskoða rekstur mötuneyta leik- og grunnskóla til ná fram hagræðingu,“ segir Sigurveig en meðal verkefna hópsins var að setja fram samræmda matseðla og samræma innkaup hráefna fyrir skólamötuneytin.

„Við sendum þessari nefnd bréf þar sem við óskuðum eftir fundi en það virtist vera mikil tregða að hitta okkur. Þegar það gekk eftir að lokum urðum við fyrir miklu áfalli því þar virtist öllum finnast maturinn í mötuneytunum vera til fyrirmyndar,“ segir Sigurveig og Margrét heldur áfram. „Það kom okkur mikið á óvart að sitja fyrir framan þessa fulltrúa, m.a. frá Lýðheilsustöð, og vera sjálfar með innihaldslýsingar matarins á hreinu en þeir virtust ekki hafa kynnt sér þær. Einn nefndarmanna sagði m.a.s. að ef hann fengi að ráða væri hann til í að hafa saltkjöt í öll mál. Og þetta er fólkið sem er að búa til matseðlana fyrir börnin okkar. Það var líka greinilegt að okkar athugasemdir komu á óheppilegum tíma því það má ekki tala um annað en niðurskurð í þessum efnum. Eins komum við að máli við Lýðheilsustöð og þar virtist lítill áhugi á því að skoða þessi mál með okkur. Fólk þar á bæ varð undrandi þegar það sá þær innihaldslýsingar sem við höfðum aflað okkur frá framleiðendum og birgjum. Við hefðum talið að þetta fólk ætti að vera okkur fróðara um þessa hluti. Þetta kom okkur verulega á óvart.“ Sigurveig kinkar kolli. „Þarna er fólk sem vill ekki opna augun fyrir því að eitthvað sé að matnum í skólunum heldur var okkur sagt að niðurskurðurinn, sem starfshópurinn á að standa fyrir, myndi ekki rýra „þau miklu gæði“ sem maturinn einkenndist af.“

Þau gæði eru þó langt fyrir neðan það sem flestir fullorðnir myndu láta bjóða sér, að þeirra mati. „Við fullorðna fólkið erum alltaf að hugsa um hvað við látum ofan í okkur en það er ekki nóg að foreldrar hugsi um mataræði sitt og sendi svo börnin sín í skólann þar sem þau nærast að miklu leyti á unnum og reyktum mat,“ segir Margrét og Sigurveig tekur undir. „Ég hef séð tölur um það að árið 2006 voru 37% skóla með sérmötuneyti fyrir kennarana þar sem þeir fengu annan mat en börnin. Af hverju eru börnin okkar allt í einu orðin annars flokks þegnar?“

Flókin einföldun

Þegar þær eru inntar eftir því hvað valdi þessu hafa þær ýmsar útskýringar á takteinum. „Þetta er ekki bara spurning um peninga heldur virðist þetta líka vera sambland af vana, tímaleysi, metnaðarleysi og einhvers konar aðstöðuleysi, t.d. hvað varðar geymslupláss í mötuneytunum,“ segir Sigurveig. „Sumir matráðar eru búnir að vera lengi í skólunum og hafa fallið í ákveðið far enda er ekki verið að ýta undir neinar breytingar.“

Sigurrós bendir á hversu fljótlegur þessi matur er í eldun. „Hann er foreldaður svo það þarf bara að hita hann upp. Síðan eru krakkarnir fljótir að borða þetta því þetta er auðmeltur matur sem tekur ekki eins langan tíma að tyggja og alvöru kjötbita.“ Margrét heldur áfram: „Við höfum líka komist að því að fæstir foreldrar kynna sér matseðlana í skólunum, heldur treysta því að verið sé að gefa börnum þeirra næringarríkan og hollan mat. Við beinum því til foreldra að skoða matseðlana gagnrýnum augum og kynna sér innihaldið og ef spurningar vakna, að beina þeim til matráða eða skólastjórnenda.“

Að þeirra mati er skortur á reglum um mötuneytin sem og eftirliti einnig stórt vandamál. „Með því að hafa engar reglur er opnað á það að fólk leiti eftir ódýrum og slæmum leiðum. Og af því að það er ekkert eftirlitskerfi missum við algerlega sjónar á því sem er gert í mötuneytunum,“ segir Sigurrós og Sigurveig tekur undir. „Við vitum að Lýðheilsustöð gefur út einhverjar viðmiðanir sem róa alla voðalega mikið en þau gagnast ákaflega lítið ef fólk fer ekki eftir þeim.“

Að þeirra mati er skortur á eftirliti stórt vandamál. Eina eftirlitið er á vegum heilbrigðiseftirlitsins og snýr að mestu að hreinlæti og réttu hitastigi á kælum. Gott og gilt. Hins vegar virðist ekkert eftirlit haft með innihaldi matarins sem á borð er borinn og engar stikkprufur teknar til rannsókna eins og ætti að gera væri rétt að málum staðið. Við vitum að Lýðheilsustöð gefur út einhverjar viðmiðanir sem róa alla voðalega mikið en þær gagnast ákaflega lítið ef fólk fer ekki eftir þeim. Lýðheilsustöð tjáði okkur einnig að þeir væru ekki eftirlitsaðili heldur ráðgefandi. Í raun er enginn eftirlitsaðili.“

Sigurveig heldur áfram. „Við erum búnar að hitta þennan starfshóp, fólk hjá Lýðheilsustöð og alls konar samtök og eftir situr að það vantar alveg heildarsýn yfir þessi mál. Það þarf að taka þetta kerfi algerlega út; hvort verið sé að vinna á réttan hátt, t.d. í sambandi við innkaupastefnuna. Við virðumst aldrei læra af öðrum þjóðum heldur gerum sömu mistökin aftur og aftur. Þetta er eins og að hringja í þjónustuver þar sem manni er sagt að ýta á einn takka og svo á annan og annan. Það er alltaf verið að reyna að einfalda hlutina svo mikið að þeir verða flóknari fyrir vikið og enginn er með yfirsýn.“

Ekki er hægt að skella skuldina á eldhúsin sjálf að þeirra sögn. „Þessi sk. upphitunareldhús hafa fullkomna ofna álíka þeim sem eru á veitingahúsum og í atvinnueldhúsum, og einhverjar eldunarhellur. Víða eru líka stórir soðpottar þannig að aðstaðan er sú sama og ég hef, þar sem ég elda fyrir 250 til 400 manns í einu. Oft er því borið við að það vanti pönnur í sumum eldhúsum. Ég nota aldrei pönnur í minni vinnu,“ segir Sigurrós.

Foreldrar þakklátir framtakinu

Þær stöllur ákváðu að ganga skrefinu lengra og bjuggu til tveggja mánaða matseðil fyrir skólamötuneyti sem uppfyllir þeirra kröfur um hollustu og næringu. „Þar sem tvær okkar eru kokkar vitum við vel hvað hægt er að gera miðað við aðstöðuna sem er í eldhúsunum, tímann sem kokkarnir hafa til að elda og kostnaðarrammann,“ útskýrir Sigurveig og Sigurrós tekur við. „Við setjum þetta upp þannig að vinnan sé auðveld fyrir kokkinn einn daginn svo hann geti notað tímann til að undirbúa aðeins erfiðari matseld daginn eftir og þannig koll af kolli. Við gerum líka ráð fyrir fleiri baunaréttum og góðum, matarmiklum súpum en hvorttveggja lækkar matarreikninginn á móti almennilegum kjöt- og fiskmáltíðum sem eru þá aðeins dýrari. Ágúst Már Garðarsson sem er kokkur í Barnaskóla Hjallastefnunnar í Reykjavík er búinn að sanna í verki að þetta er hægt því hann hefur starfað eftir svona kerfi. Með því að vera alltaf með baunarétti og súpur á mánudögum getur hann t.d. boðið upp á lambalæri einu sinni í mánuði. Hann er ekki með neinar unnar kjötvörur heldur kaupir hreinar afurðir auk þess að nota spelt, hrásykur og fleira í þeim dúr. Samt er maturinn hjá honum þúsund krónum ódýrari á barn á mánuði en maturinn sem börnum er boðinn í skólum Reykjavíkurborgar.“

En hvað skyldi þurfa til svo hægt sé að breyta matnum í þessa átt? Sigurveig er fljót að svara: „Númer eitt, tvö og þrjú þarf hugarfarsbreytingu,“ segir hún. „Það þarf að kaupa betra hráefni og mennta fólk til að elda úr því. Svo held ég að það þurfi einhverjar tengingar á milli mötuneytanna þannig að starfsfólk þeirra hafi einhvern vettvang þar sem það getur skipst á upplýsingum. Maður þekkir það sjálfur að ef maður er í vinnu og fær engin viðbrögð við því sem maður er að gera þá deyr allur metnaður. Það er alveg sama í hvaða grein það er.“ Sigurrós kinkar kolli. „Ég held að það þurfi einfaldlega að taka af skarið og setja þá reglu að ekki megi gefa börnum í skólum unna kjötvöru. Punktur. Síðan þarf eftirlitsmanneskju sem fer á milli skólanna og athugar hvað kokkarnir eru að elda og tekur stikkprufur af því hráefni sem inn í eldhúsin er borið.“

Þær telja að það yrði til bóta ef skólarnir fengju meira sjálfstæði um hvað þeir keyptu í matinn. „Það eru gríðarlega miklir peningar í húfi þarna því þetta eru tugþúsundir barna sem borða fyrir 250 krónur á dag. Skólarnir hefðu líka gott af svolítilli samkeppni og það væri t.d. frábært ef einn skóli fyndi góða leið í matarmálum sem yrði síðan hinum skólunum til eftirbreytni.“

Viðbrögð foreldra við þessari vinnu þeirra þriggja hafa ekki látið á sér standa, t.a.m. á íbúafundi með fulltrúum menntasviðs sem haldinn var í Frostaskjóli í Vesturbæ. Þar dreifðu þær bréfi á fundargesti með innihaldslýsingum á mat barnanna. „Við uppskárum mikið klapp og hvatningu, bæði frá skólastjórum, kennurum og foreldrum. Þetta var greinilega mikið hitamál,“ segir Margrét. „Mér finnst allir ótrúlega fegnir að einhver sé að vinna í málinu.“ Sigurveig heldur áfram. „Það eru allir að hugsa í sínu horni og margir hafa reynt að minnast á þetta við sína skóla og matráða en það hefur ekki breytt neinu.“

Sjálfar eygja þær þó breytingar í mötuneyti skóla eigin barna, Vesturbæjarskóla, eftir að hafa rætt við skólastjórnendur og matráðinn þar. „Niðurstaðan af því var að næsta haust verður unnið markvisst að því að taka út unnar kjötvörur í Vesturbæjarskóla. Síðan á að vinna í því að bæta matseðilinn þannig að hann verði góður og næringarríkur. Við vonum að það verði öðrum skólum til hvatningar og eftirbreytni.“

Rabarbari á skólalóðinni

Hvort það gengur eftir verður að koma í ljós, ekki síst þar sem starfshópurinn sem áður er vitnað til hefur komist að þeirri niðurstöðu að fara af stað með 14 vikna tilraunaverkefni í Vesturbænum í haust þar sem allir leik- og grunnskólar hverfisins munu vinna eftir fyrirfram ákveðnum hráefnismatseðli. Í minnisblaði starfshópsins kemur fram að þannig verði fest niður grunnhráefni fyrir hádegismat ákveðna daga í öllum skólum hverfisins, en matreiðslumenn munu síðan ákveða hvernig þeir elda úr því. Með þessu er vonast til að hægt verði að lækka kostnað við pantanir og dreifingu hráefnisins.

Það er að heyra á þeim Sigurrós, Margréti og Sigurveigu að þær hafi ákveðnar efasemdir um að þetta sé rétta leiðin og eiga erfitt með að skilja hvernig eigi að vera mögulegt að lækka kostnaðinn við matarinnkaupin enn frekar. „Matarverð hefur hækkað um 50% undanfarin misseri þannig að allt tal um að lækka kostnaðinn er alveg út úr kortinu, að minnsta kosti meðan fólk er ekki opið fyrir nýjungum á borð við baunir, sem eru ódýrt hráefni og næringarríkt,“ segir Sigurveig. „Á þá bara að minnka bjúgnaskammtinn eða setja ennþá meira drasl í þau? Það er eins og ekki mega hugsa hlutina upp á nýtt.“

Sjálfar eru þær meira en tilbúnar til slíkrar hugmyndavinnu. „Við viljum til dæmis árstíðarbinda matseðla skólanna þannig að við getum nýtt uppskeruna sem við fáum á Íslandi. Á haustin gætum við því notað kartöflur, rófur, ber og annað í þeim dúr en aukið svo við grænmeti á borð við paprikur og tómata á vorin,“ segir Margrét og Sigurveig tekur við: „Það mætti til dæmis koma upp grænum svæðum við skólana þar sem hægt væri að rækta rótargrænmeti eða rabarbara.“

Margrét grípur boltann. „Börnin gætu þá náð í rabarbara fyrir utan og búið svo til sultu í heimilisfræðitíma sem yrði síðan á boðstólum í mötuneytinu. Skólarnir eru ekki bara menntastofnanir heldur líka uppeldisstofnanir og það er þar sem börnin læra að borða nagga og bjúgu og annan saltan mat. Þau þurfa hins vegar að læra að meta góðan og hollan mat og þess vegna þarf maturinn að verða hluti af menntastefnu skólanna.“

Hvað inniheldur maturinn?

Kjötbollur: Kindakjöt, trippakjöt, vatn, hveiti, kartöflumjöl, undanrennulíki, salt, laukur, sojaprótein, krydd, rotvarnarefni E250, bindiefni E450/451.

Svikinn héri, foreldaður: Kindakjöt, nautakjöt, trippakjöt, vatn, hveiti, laukur, blandað grænmeti (grænar baunir, gulrætur) kartöflumjöl, sojaprótein, salt, þrúgusykur, krydd, rotvarnarefni E-250, bindiefni E-450/451.

Forsteiktir saltfiskstrimlar í orlydeigi: Léttsaltaður þorskur, brauðmylsna, jurtaolía, vatn, hveiti, salt, maísmjöl, hveitisterkja, lyftiefni (E450, E500, E503), sinnepsduft, undanrennuduft, dextrósi, bragðefni.

Bjúgu: Lambakjöt, vatn, nautakjöt, trippakjöt, hveiti, kartöflumjöl, sojaprótein, salt, krydd, rotvarnarefni E250, bindiefni E450/451.

Kjúklinganaggar: Kjúklingakjöt, vatn, sojaprótein, hveiti, ger, salt, kartöflutrefjar, jurtaolía, krydd.

Allar innihaldslýsingar eru fengnar frá birgjum sem skólamötuneyti Reykjavíkur versla við. Innihaldsefni eru tilgreind í röð eftir magni.

Blekkingar í búðinni

Ekki er allt sem sýnist þegar kemur að matvælum almennt eins og þær stöllur hafa komist að með því að viða að sér ýmiss konar fróðleik um efnið. Margrét nefnir kjötlím sem nýjasta dæmið um hvernig hægt er að blekkja neytendur á löglegan hátt. „Þetta efni finnst í blóði dýra og bindur saman kjöt og á að vera skaðlaust fólki. Hins vegar má nota það til að umbreyta vinnslukjöti í næsta vel útlítandi steikur. Þannig að maður veit ekki nema hægt verði að líma saman ruslkjöt á borð við eyru, húð, sinar og kalla það lund. Þetta er í öllu falli ágætis leið til að blekkja auga neytandans.“

Annað dæmi eru náttúruleg bragðefni eins og Sigurveig útskýrir. „Ég hef lesið töluvert um þetta og komist að því að það má merkja vöru með náttúrulegu bragðefni svo lengi sem hún hefur bragð af einhverju sem er til staðar í náttúrunni. Hún þarf samt ekki að innihalda viðkomandi hráefni. Vara með náttúrulegu jarðarberjabragði inniheldur þannig ekki endilega jarðarber, og alls konar dropafyrirtæki blómstra á þessu.“ Raunar segir hún hugtakið „náttúrulegt“ vera blekkingu í sjálfu sér. „Það þýðir ekki neitt. Þú getur haft mynd af kú á smjördollu og kallað vöruna náttúrulegt smjör, en það þýðir ekkert, ekki frekar en hamingjusamt smjör.“

Og talandi um hamingju. Hamingjusamar hænur eru eitt og frjálsar hænur eru annað. „Fólk ruglar þessum skilgreiningum oft saman. Ef það er opinn gluggi á hænsnahúsinu vissan tíma á dag og þær hafa aðgang að útisvæði má segja á merkingum að hænurnar séu hamingjusamar. Þá skiptir engu hvort þær séu svo margar inni í húsinu að þær geti ekki hreyft sig eða séu of þungar til að troða sér framhjá öllum hinum hænunum og koma sér út um gluggann. Hins vegar gildir annað ef tekið er fram að hænurnar séu í lausagöngu eða frjálsar.“ Þær taka þó fram að þær viti ekki nákvæmlega hvernig málum sé háttað á hænsnabúum hérlendis. „En við þessar skilgreiningar er stuðst í þeim löndum sem við tökum reglugerðir okkar frá og berum okkur saman við og má því ætla að það sama sé uppi á teningnum hér.“