Ólafsfjörður Þrír listar boðnir fram Ólafsfirði.

Ólafsfjörður Þrír listar boðnir fram Ólafsfirði.

FRAM eru komnir þrír framboðslistar vegna bæjarstjórnarkosninganna í Ólafsfirði en það eru listar Sjálfstæðisflokks, H-listans, vinstri manna og óháðra, og S-listi, Samtaka um betri bæ, en þau hafa ekki boðið fram áður.

Þorsteinn Ásgeirsson bæjarfulltrúi er í 1. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins, í 2. sæti er Kristín Trampe bæjarfulltrúi, Karl Guðmundsson framkvæmdastjóri í 3. sæti, Anna María Elíasdóttir húsmóðir í 4. sæti, Gunnlaugur J. Magnússon rafvirkjameistari í 5. sæti, Arnbjörn Arason bakari í 6. sæti og Haukur Sigurðsson trésmiður í 7. sæti.

Guðbjörn Arngrímsson bæjarfulltrúi verður í 1. sæti á lista vinstri manna og óháðra, Sigurbjörg Ingvadóttir kennari í 2. sæti, Björn Valur Gíslason, bæjarfulltrúi í 3. sæti, Gunnlaugur Kr. Jónsson formaður Sjómannafélags Ólafsfjarðar í 4. sæti, Sigurjón Magnússon bifvélavirki í 5. sæti, Svanfríður Halldórsdóttir móttökuritari í 6. sæti og Helga Jónsdóttir verslunarmaður í 7. sæti.

Þriðji listinn

Þriðji listinn sem Jónína Óskarsdóttir bæjarfulltrúi vinstri manna og óháðra er í forsvari fyrir kom fram í kjölfar ágreinings sem varð innan raða vinstri manna og óháðra eftir skoðanakönnun sem þar var viðhöfð. Jónína var í einu af fjórum efstu sætum listans fyrir síðustu bæjarstjórnarkosningar var færð neðar á listann í tillögu uppstillinganefndar en hún hafnaði því sæti og býður fram sér. Jónína var fulltrúi Alþýðuflokksins í vinstra samstarfinu en á lista hennar nú eru einnig óháðir frambjóðendur. Jónína verður í fyrsta sæti, í 2. sæti er Ríkharður Sigurðsson bifreiðastjóri, Kristín Adolfsdóttir húsmóðir í 3. sæti, Birgir Stefánsson stýrimaður í 4. sæti, Ásta Sigurfinnsdóttir bréfberi í 5. sæti, Halldór Guðmundsson bifvélavirki í 6. sæti og Auður Traustadóttir tryggingafulltrúi í 7. sæti. Þessi nýju samtök bjóða fram undir kjörorðinu Samtök um betri bæ".

SB