Deilt um orsök árásarinnar á þyrlurnar í Írak Kveikt var á viðvörunarbúnaði sem átti að sýna að um vinaþyrlur var að ræða Washington, London. Reuter.

Deilt um orsök árásarinnar á þyrlurnar í Írak Kveikt var á viðvörunarbúnaði sem átti að sýna að um vinaþyrlur var að ræða Washington, London. Reuter.

TALSMAÐUR stjórnar Bills Clintons Bandaríkjaforseta gagnrýndi harðlega þingmenn Repúblikanaflokksins fyrir að halda því fram að árásin á bandarísku herþyrlurnar í norðurhluta Íraks á fimmtudag væri afleiðing niðurskurðar stjórnarinnar á útgjöldum til varnarmála.

Öldungadeildarmaðurinn John McCain og fulltrúadeildarmaðurinn Newt Gingrich höfðu sagt að það gæti skýrt atvikið að einhverju leyti að bandaríski heraflinn héngi nánast á horriminni vegna niðurskurðar stjórnarinnar í varnarmálum. Dee Dee Myers, talsmaður Bandaríkjaforseta, sagði á föstudag að þessi fullyrðing væri afar óviðeigandi og með öllu ótæk.

Undir forystu Bandaríkjamanna hafa sveitir á vegum Sameinuðu þjóðanna framfylgt flugbanni í norðurhluta Íraks frá lokum Persaflóastríðsins 1991, til þess að vernda byggðir Kúrda fyrir aðgerðum af hálfu hersveita stjórnar Saddams Husseins Íraksforseta. Bandarískar F-15C orrustuþotur töldu sig vera að skjóta á íraskar árásarþyrlur er þær skutu niður tvær bandarískar UH-60 Blackhawk-þyrlur með 26 manns innanborðs á flugbannssvæðinu.

Sérfræðingum þykir atvikið með ólíkindum þar sem áhöfn AWACS-ratsjárvélar sem stýrði aðgerðunum gegn þyrlunum hafði upplýsingar um ferðir þeirra og um borð bæði í AWACS-þotunni og F-15-þotunni er búnaður sem auðveldlega hefði átt að greina að þarna voru ekki óvinir á ferð. Þess utan voru þyrlurnar í sjónfæri er flugmenn orrustuþotnanna skutu flugskeytum sínum á þær. Embættismenn í bandaríska varnarmálaráðuneytinu sögðu í fyrrinótt frá því að kveikt hefði verið á viðvörunarbúnaði í þyrlunum sem átt hefði að sýna öðrum bandarískum herflugvélum hverjir þar voru á ferð.

William Perry, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, hét því að starfsháttum yrði breytt til þess að koma í veg fyrir að atburðir af þessu tagi endurtækju sig.