Loftárásir NATO á Bosníu-Serba BANDARÍSKAR þotur úr liði Atlantshafsbandalagsins (NATO) gerðu á sunnudag og mánudag loftárásir á Bosníu-Serba við, sem höfðu náð mikilvægum hæðum við borgina Goradze í Bosníu.

Loftárásir NATO á Bosníu-Serba

BANDARÍSKAR þotur úr liði Atlantshafsbandalagsins (NATO) gerðu á sunnudag og mánudag loftárásir á Bosníu-Serba við, sem höfðu náð mikilvægum hæðum við borgina Goradze í Bosníu. Voru árásirnar gerðar að beiðni Sameinuðu þjóðanna (SÞ) og urðu þær til þess að Serbar stöðvuðu að mestu skothríð á borgina. Þeir hófu árásir á griðasvæði múslima á fimmtudag og ögruðu friðargæsluliðum SÞ. Borís Jeltsín, Rússlandsforseti, mótmælti árásunum og sagði hervald aðeins leiða til eilífs stríðs.

Grönduðu eigin þyrlum

TUTTUGU og sex manns fórust þegar tvær bandarískar F-15 herþotur skutu niður tvær bandarískar þyrlur yfir Norður-Írak á fimmtudag. Sagði Bill Clinton, Bandaríkjaforseti að slysið væri hörmulegt en flugmenn þotnanna töldu að þyrlurnar væru íraskar en þær voru á svæði þar sem umferð íraskra flugvéla er bönnuð.

Skálmöld í Rúanda

TALIÐ er að tugir þúsunda hafi fallið í skálmöldinni í Rúanda á rúmri viku. Flestir útlendingar í landinu hafa verið fluttir á brott, svo og hersveitir þær sem aðstoðuðu við brottflutninginn. Stjórn landsins flúði frá Kigali á þriðjudag og börðust uppreisnarsveitir Tútsa við stjórnarherinn.

Engin málamiðlun í Suður-Afríku

HÓPUR alþjóðlegra sáttasemjara, undir forystu þeirra Henrys Kissingers, fyrrum utanríkisráðherra Bandaríkjanna, og Carrington lávarðar, fyrrum utanríkisráðherra Bretlands, gáfust á fimmutdag upp á að reyna að miðla málum milli deiluaðila í Suður-Afríku; ríkisstjórn landsins, Afríska þjóðarráðsins og Inkatha-hreyfingarinnar.

Sex biðu bana í sprengjutilræði

AÐ minnsta kosti sex manns biðu bana og um 30 særðust þegar sprengja sprakk í rútu í ísraelska bænum Hadera. Lýstu múslimsku öfgasamtökin Hamas ábyrgðinni á hendur sér.

Zhírínovskíj illur

RÚSSNESKI þjóðernissinninn Vladimír Zhírínovskíj brást ókvæða við námsmönnum af gyðingaættum sem gerðu hróp að honum á þriðjudag. Hrækti hann á fólkið, reif um gras og steina sem hann kastaði að því og æpti að hann myndi drepa það með "kjarnorkuskambyssunni sinni".