Skagafjörður Grásleppuvertíð fer sæmilega af stað Hofsósi. GRÁSLEPPUVERTÍÐ virðist ætla að fara sæmilega af stað á Skagafirði í ár.

Skagafjörður Grásleppuvertíð fer sæmilega af stað Hofsósi.

GRÁSLEPPUVERTÍÐ virðist ætla að fara sæmilega af stað á Skagafirði í ár. Frá Hofsósi eru tveir bátar gerðir út á grásleppu og hefur aflast nokkuð vel þegar gefið hefur á sjó, en gæftir hafa verið með eindæmum stirðar í vor.

Fréttaritari átti samtal við Þorbjörn Jónsson, en hann er eigandi annars bátsins sem gerður er út á grásleppu héðan. Hann sagði, að það væri allt annað útlit nú en í fyrra. Þó sagði hann að þorskur væri svo mikill þar sem þeir væru með grásleppunetin, að hann lokaði hreinlega netunum á köflum svo engin grásleppa kæmist þar í.

Ekki þýðir fyrir þessa báta að hirða þorskinn þar sem þeir hafa engan kvóta og sagði Þorbjörn, að þeir mættu koma með þorskinn í land en þeir yrðu að skila andvirði hans til ríkisins ef þeir seldu hann og kvaðst hann ekki nenna að koma með þorskinn í land upp á þessa kosti. Er álit manna að þetta stuðli að því að þorski sé hent engum til gagns, en svona eru nú lögin í okkar landi.

Tveir smábátar hafa róið með línu og hefur afli þeirra verið góður þegar gefið hefur á sjó, en algengt er, að ekki hafi verið hægt að róa nema einu sinni í viku og stundum ekki það.

Einn bátur er gerður út á rækju frá Hofsósi og hefur afli hjá honum verið mjög góður, eins og öðrum rækjubátum á Skagafirði. Í upphafi rækjuvertíðar sl. haust var úthlutað 200 tonna veiði á Skagafirði á fjóra báta, en þrír þeirra eru gerðir út frá Sauðárkróki. Síðar á vertíðinni var svo bætt við 200 tonnum og nú fyrir skömmu var enn bætt við 100 tonnum, enda segja sjómenn á rækjubátunum að nóg sé af rækju í firðinum. Rækjan er unnin í rækjuvinnslunni Dögun á Sauðárkróki.

­ Einar