Leiðari Verkfallsaðgerðir Morgunblaðinu í gær var frá því skýrt, að flugvirkjar hefðu boðað verkfall frá 25. apríl til 30. apríl. Augljóst er, að vinnustöðvun flugvirkja hlýtur að hafa mjög truflandi áhrif á starfsemi Flugleiða og verða fyrirtækinu dýr.

Leiðari Verkfallsaðgerðir Morgunblaðinu í gær var frá því skýrt, að flugvirkjar hefðu boðað verkfall frá 25. apríl til 30. apríl. Augljóst er, að vinnustöðvun flugvirkja hlýtur að hafa mjög truflandi áhrif á starfsemi Flugleiða og verða fyrirtækinu dýr. Einar Sigurðsson, blaðafulltrúi Flugleiða, sagði í samtali við Morgunblaðið í gær, að allt flug á vegum félagsins mundi stöðvast mjög fljótlega ef til verkfalls kæmi. Rekstur flugfélaga er viðkvæmari nú á tímum en rekstur vel flestra annarra atvinnufyrirtækja, eins og dæmin sanna. Flugfélög leggja í gífurlega fjárfestingu í tækjabúnaði og ekkert má út af bera til þess að reksturinn standi undir fjárfestingunni.

Staða Flugleiða hefur veikzt. Fyrirtækið hefur ekki skilað nægilega góðri afkomu og eiginfjárstaða þess hefur heldur versnað á undanförnum árum. Hvarvetna í nálægum löndum hafa flugfélög átt við mikla erfiðleika að stríða á síðustu árum og sum þeirra orðið gjaldþrota og hætt starfsemi. Að stöðva rekstur Flugleiða með verkfallsaðgerðum eins og málum er háttað er glapræði. Flugvirkjarnir, sem verkfallið boða, eru með slíkum aðgerðum að grafa undan sjálfum sér og sinni lífsafkomu um leið og þeir stofna afkomu annarra starfsmanna fyrirtækisins í stórhættu.

Flugleiðir hafa lagt út í gífurlega fjárfestingu á undanförnum árum í nýjum flugvélum. Sennilega hefur félagið gengið heldur langt í þeim fjárfestingum. Af þeim sökum er full ástæða til að hafa nokkrar áhyggjur af stöðu þess. Ef rekstrarstöðvun bætist við vegna verkfallsaðgerða er alveg augljóst, að stefnt getur í enn erfiðari stöðu fyrirtækisins.

Sú tíð er liðin að fámennir starfshópar í fyrirtækjum geti leyft sér að stöðva umfangsmikinn atvinnurekstur með þessum hætti. Raunar er löngu tímabært að taka til umræðu breytingar á löggjöf, sem koma í veg fyrir að fámennir hópar geti stofnað lífsafkomu og atvinnuöryggi fjölmennra starfshópa á sama starfssviði í stórhættu. Þess vegna ættu flugvirkjar að hugsa sinn gang og endurskoða þessa verkfallsboðun.

Raunar eru flugvirkjar ekki einir um að meta ranglega möguleika á kjarabótum um þessar mundir. Meinatæknar hafa verið í verkfalli í u.þ.b. hálfan mánuð og hefur það verkfall valdið umtalsverðri truflun á rekstri sjúkrahúsa. Ekki skal dregið í efa, að fjölmargir starfshópar í landinu geta fært efnisleg rök fyrir því, að þeir eigi rétt á kjarabótum. Kjarni málsins er hins vegar sá, að það hafa engar breytingar, sem orð er á gerandi, orðið á kjarasamningum misserum saman. Og það er engin forsenda fyrir kjarabótum eins og ástatt er í atvinnumálum landsmanna. Hvernig geta menn búizt við kjarabótum, þegar þúsundir ganga um atvinnulausar?

Samningar um kjarabætur til einstakra starfshópa hafa óhjákvæmilega í för með sér keðjuverkanir, sem enginn sér fyrir endann á. Í nágrenni við okkur búa Færeyingar, sem hafa í fullkomnu óraunsæi reist sér hurðarrás um öxl. Viljum við fara sömu leið?

Landsmenn verða að sætta sig við það enn um sinn, að bætt kjör eru ekki í augsýn. Raunar má þakka fyrir ef ekki verður um viðbótar kjaraskerðingu að ræða. Þess vegna er það rangt mat á stöðunni hjá einstökum fámennum starfshópum á borð við meinatækna og flugvirkja, að nú sé hægt að sækja bætt kjör til vinnuveitenda. Svo er ekki.

Til þess að landsmenn geti búizt við bættum kjörum þarf eitthvað af þrennu að gerast: Fiskistofnarnir þurfa að ná sér á strik og þorskveiðar að aukast. Almenn uppsveifla þarf að verða í efnahagslífi Vesturlanda. Hún er komin af stað í Bandaríkjunum en tæpast að nokkru marki í Evrópu, þótt fyrstu merki hennar sjáist að vísu í Bretlandi og að einhverju leyti í Þýzkalandi. Loks yrðu samningar um nýtt álver mikil búbót. Á meðan ekkert af þessu er orðið að veruleika verða kjör landsmanna í bezta falli óbreytt en gætu átt eftir að versna enn.

Í

Í