Reykjavíkurbréf LBERT GUÐMUNDSson varð þjóðsagnapersóna ungur að árum. Af honum og snilld hans á knattspyrnuvellinum fóru sögur hér heima, ekki sízt á meðal ungs fólks. Þær lifðu lengi.

Reykjavíkurbréf LBERT GUÐMUNDSson varð þjóðsagnapersóna ungur að árum. Af honum og snilld hans á knattspyrnuvellinum fóru sögur hér heima, ekki sízt á meðal ungs fólks. Þær lifðu lengi. Ekki eru mörg ár síðan íslenzkur menntamálaráðherra hafði orð á því við viðmælendur sína, að hann hefði nánast agndofa fylgzt með því á alþjóðlegum fundi í París, hvílíka virðingu hinir æðstu frönsku embættis- og stjórnmálamenn sýndu sendiherra Íslands í París á þeim fundi. Þeir höfðu á æskuárum fylgzt með þessum snjalla knattspyrnumanni í Frakklandi.

Í aldarfjórðung var Albert Guðmundsson umdeildur stjórnmálamaður. Um hann spunnust líka þjóðsögur á þeim vettvangi. Almúgamanninum þótti gott að leita til hans. Hann brauzt í gegnum Kerfið og ýtti viðteknum venjum og reglum til hliðar, ef honum þótti ástæða til og hann hafði aðstöðu til. Hann hlaut vinsældir almennings fyrir en embættismenn og aðrir stjórnmálamenn spurðu, hvers konar fordæmi væri verið að skapa og hvort réttmætt væri, að einn fengi það, sem öðrum hefði verið neitað um.

Albert Guðmundsson naut sín bezt í borgarstjórn Reykjavíkur og líklega hefur honum liðið bezt á þeim vettvangi. Það var áreiðanlega engin tilviljun, að þegar hann sneri heim á ný eftir síðari starfsferil sinn í Frakklandi beindist áhugi hans ekki sízt að málefnum höfuðborgarinnar.

Albert Guðmundsson var einn af þremur höfuðþátttakendum í þeim átökum, sem stóðu í forystusveit Sjálfstæðisflokksins seinni hluta áttunda áratugarins og í byrjun þess níunda. Hann braut áratuga gamlar hefðir með því að bjóða sig fram á landsfundi Sjálfstæðisflokksins 1979 gegn þáverandi formanni, Geir Hallgrímssyni. Hann náði takmörkuðum árangri.

Nokkrum mánuðum síðar og í kjölfar þessara átaka áttu þeir mörg trúnaðarsamtöl, Geir Hallgrímsson og Albert Guðmundsson. Þau spönnuðu allmarga mánuði og snerust um málefni Sjálfstæðisflokksins og stjórnmálaátök líðandi stundar. Í kjölfar þessara samtala lét Albert Guðmundsson kyrrt liggja á landsfundi Sjálfstæðisflokksins tveimur árum síðar, þótt átökin innan Sjálfstæðisflokksins væru harðari en nokkru sinni fyrr vegna stjórnarmyndunar Gunnars Thoroddsens.

Albert Guðmundsson átti lykilþátt í því, að sú ríkisstjórn varð til, en hann tók ekki þátt í henni. Hann tók skrefið til hálfs en ekki til fulls.

Þegar Sjálfstæðisflokkurinn tók þátt í ríkisstjórn á nýjan leik vorið 1983 varð Albert Guðmundsson ráðherra. Hann hafði ekki fylgi til ráðherradóms innan þingflokks Sjálfstæðismanna eftir það sem á undan var gengið en naut nú stuðnings Geirs Hallgrímssonar, sem beitti sér fyrir því að Albert yrði ráðherra. Með því og raunar mörgu öðru stuðlaði Geir Hallgrímsson að einingu innan Sjálfstæðisflokksins og skilaði sameinuðum flokki í hendur nýjum formanni haustið 1983.

Leiðir Alberts Guðmundssonar og Sjálfstæðisflokksins skildu veturinn 1987. Orð eru dýr. Sennilega hefði ekki komið til klofnings Sjálfstæðisflokksins og stofnunar Borgaraflokksins, ef þáverandi formaður Sjálfstæðisflokksins hefði ekki látið þau orð falla á opinberum vettvangi, að Albert Guðmundsson gæti aldrei orðið ráðherra á ný.

Þótt þessi vinslit yrðu á milli Sjálfstæðisflokksins og Alberts Guðmundssonar mátti glöggt finna það í samtölum við hann á undanförnum árum að hann leit á sig sem Sjálfstæðismann. Þar sem hann sat í París og horfði til Íslands fór ekki á milli mála, að hugur hans stóð til starfa á vettvangi Sjálfstæðisflokksins, þegar heim kæmi.

Morgunblaðið og Albert Guðmundsson deildu hart um tíma. Blaðið taldi afstöðu hans í deilum innan Sjálfstæðisflokksins um nokkurra ára skeið hvorki flokki né þjóð til framdráttar og lét þá skoðun í ljósi. Albert Guðmundsson dró ekkert af sér í gagnrýni á Morgunblaðið, ef honum sýndist svo. Þrátt fyrir harkalegan ágreining á köflum var alltaf talsamband á milli Alberts Guðmundssonar og forráðamanna Morgunblaðsins. Hann var þeim kostum búinn, að geta átt skoðanaskipti við dagblað, hvort sem var opinberlega eða í einkasamtölum, þótt sjónarmið væru um margt ólík. Slíkum stjórnmálamönnum fer fækkandi.

Eftir að Albert Guðmundsson hætti afskiptum af stjórnmálum hélzt vináttusamlegt samband á milli hans og forráðamanna Morgunblaðsins. Að leiðarlokum er hann kvaddur með virðingu.

Skipaflutningar og verð dagblaða

Í MORGUNBLAÐinu í dag, laugardag, birtist athyglisverð grein eftir Þórð Sverrisson, framkvæmdastjóra flutningasviðs Eimskipafélags Íslands. Greinin er athyglisverð fyrir þá sök, að forráðamenn fyrirtækisins hafa bersýnilega lagt mikla vinnu í að kynna sér lausasöluverð og áskriftarverð dagblaða í nokkrum löndum! Hvað skyldi nú valda þessum skyndilega áhuga stjórnenda Eimskipafélagsins á lausasöluverði og áskriftarverði dagblaða? Áhuginn virðist hafa vaknað við svohljóðandi ummæli í forystugrein Morgunblaðsins 25. marz sl.:

"Hver svo sem niðurstaðan er um nákvæmni í skýrslugerð Drewry fer tæpast á milli mála, að sá kostnaðarliður atvinnuveganna, sem snýr að flutningum og uppskipun og útskipun, er hár miðað við það, sem tíðkast annars staðar. Í ljósi þess, að kostnaður af þessu tagi skiptir miklu máli og á drjúgan þátt í að skapa þann verðgrunn, sem þjóðin býr við og með hliðsjón af tilvitnuðum ummælum framkvæmdastjóra Sæfangs í Grundarfirði er full ástæða til að frekari umræður fari fram um þetta mál og að skipafélögin geri ítarlegri grein fyrir sínum sjónarmiðum í þessu máli, en þau hafa gert fram að þessu."

Nú hafa forráðamenn Eimskipafélagsins orðið við þessari áskorun um ítarlegri greinargerð fyrir sínum sjónarmiðum, með tveimur greinum Þórðar Sverrissonar, sem birzt hafa hér í blaðinu að undanförnu. Sú fyrri fjallaði um efnisþætti Drewry-skýrslunnar svonefndu, hin seinni um verð dagblaða á Íslandi og í öðrum löndum! Full ástæða er til að fagna þátttöku Eimskipafélagsmanna í þessum umræðum. Hún verður áreiðanlega til þess, að líflegar umræður geta skapazt um flutningskostnað til og frá Íslandi á næstu vikum og mánuðum!

Framkvæmdastjóri flutningasviðs Eimskipafélagsins setur í grein sinni í Morgunblaðinu í dag, laugardag, fram nokkuð óvenjuleg sjónarmið um vinnubrögð blaðamanna. Síðari hluta marzmánaðar sneri Morgunblaðið sér til útgerðarmanna á Snæfellsnesi og leitaði umsagnar þeirra um stöðu sjávarútvegsfyrirtækja í þeim landshluta í kjölfar upplýsinga um, að hún væri jafnvel verri en sjávarútvegsfyrirtækja á Vestfjörðum. Einn þeirra útgerðarmanna, sem Morgunblaðið talaði við, var Guðmundur Smári Guðmundsson, framkvæmdastjóri Sæfangs í Grundarfirði. Í umsögn um stöðu sjávarútvegsins sagði hann m.a.: "Mitt litla fyrirtæki, sem var með 350 milljóna króna veltu á síðasta ári, þurfti að borga yfir 20 milljónir í flutninga. Það hlýtur að vera hægt að lækka þennan lið, því á meðan við höfum verið að skera niður alla kostnaðarliði, þá hefur þetta setið eftir. Gjaldþrot Hafskips var geysilega dýrt en þá hækkuðu reikningarnir mínir um 25% sama dag og Hafskip fór á hausinn, en ég flutti mikið með Hafskip."

Um þá staðreynd, að þessar skoðanir framkvæmdastjóra Sæfangs voru birtar í Morgunblaðinu undir hans nafni, innan tilvitnunarmerkja, segir Þórður Sverrisson í grein sinni: "Í lýðræðisríkjum telst það sjálfsagt að birta viðhorf og skoðanir manna. Í fréttaskrifum sem þessum er hins vegar mikil ábyrgð lögð á hendur blaðamanna og fjölmiðla um að birta ekki gagnrýnislaust ummæli manna, sem aðgengilegt er að sannreyna. Eðlilegt er að leita staðfestingar á þeim, einkum ef ætla má, að þær skipti máli í umfjöllun um einstök málefni og ályktanir af þeim dregnar í frekari umfjöllun eins og t.d. leiðaraskrifum. Það flokkast því undir "þjóðarsálarblaðamennsku", ef blaðamenn sannreyna ekki staðhæfingar eins og gerðist með fullyrðingar framkvæmdastjórans á Grundarfirði, heldur birta þær eins og um staðreyndir væri að ræða."

Þetta er óvenjulegt en um leið umhugsunarvert sjónarmið. Í því felst, að Morgunblaðið hefði ekki átt að birta ummæli Guðmundar Smára undir hans nafni og innan tilvitnunarmerkja, nema hafa fyrst gengið úr skugga um, að þau ættu við rök að styðjast. Í þessum sjónarmiðum felst þá væntanlega, að hvorki Morgunblaðið né aðrir fjölmiðlar eigi að birta nokkur ummæli eftir nokkra einstaklinga, sem umdeilanleg geta verið, án þess að kanna fyrst sannleiksgildi staðhæfinga. Væntanlega hefði Morgunblaðið þá ekki átt að birta grein Þórðar Sverrissonar í dag, fyrr en blaðið hefði kannað, hvort upplýsingar hans um verð dagblaða í öðrum löndum væru réttar, eða hvað? Eða skiptir máli, hver í hlut á? Eiga önnur lögmál að gilda um framkvæmdastjóra lítils fyrirtækis í Grundarfirði en stórfyrirtækis í Reykjavík?

Nú skal það tekið fram, að framkvæmdastjóri flutningasviðs Eimskipafélagsins er ekki eini maðurinn, sem lýst hefur þessari skoðun um vinnubrögð fjölmiðla. Hún hefur komið fram áður. En hún er auðvitað fráleit. Skoðanaskipti af því tagi, sem daglega fara fram í fjölmiðlum um einstök málefni eiga fullan rétt á sér. Þeir sem taka þátt í þeim skoðanaskiptum gera það undir fullu nafni og á sína ábyrgð. Svo lengi, sem menn nota ekki tækifæri til þess að tjá sig í fjölmiðlum, að fjalla með ærumeiðandi hætti um nafngreinda einstaklinga, eiga þeir fullan rétt á sinni skoðun. Það er svo mál framkvæmdastjóra Sæfangs í Grundarfirði, hvort hann getur staðið við orð sín um hækkun flutningsgjalda í kjölfar gjaldþrots Hafskips. Raunar hafa þeir Eimskipafélagsmenn lýst því hér í blaðinu, að þetta fyrirtæki hafi ekki verið í viðskiptum við þá, svo að orð hans hljóta að beinast að einhverjum öðrum skipafélögum.

Í tilefni af þessum ummælum Guðmundar Smára, segir Þórður Sverrisson í grein sinni: "Ef Morgunblaðsmenn telja trúlegt nú, að 25% hækkun flutningsgjalda hafi orðið á þessum tíma er mér spurn, hvað rannsóknarblaðamenn Morgunblaðsins voru að hugsa á þessum árum. Hefðu þeir ekki átt að finna þetta út þá, í ljósi þess, hversu umræðan um flutningsgjöld var mikil á þeim tíma."

Þetta er auðvitað alveg rétt. Og betra er seint en aldrei. Það er auðvitað full ástæða til í þessum umræðum, sem þeir Eimskipafélagsmenn hafa nú gefið nýtt líf, að kanna þau umskipti, sem urðu í rekstri og afkomu skipafélaga á Íslandi með gjaldþroti Hafskips.

Fákeppni og samkeppni

MORGUNBLAÐIÐ starfar á markaði, þar sem samkeppni er mjög hörð. Fjölmiðlamarkaðurinn á Íslandi hefur gjörbreytzt á síðasta aldarfjórðungi. Hér er barizt um hvern áskrifanda og áhorfanda, að ekki sé talað um auglýsingamarkaðinn. Fjölmiðlun á Íslandi hefur gjörbreytzt. Dagblöðum hefur fækkað. Ljósvakamiðlum hefur fjölgað. Samkeppni frá erlendum fjölmiðlum hefur margfaldast. Erlend dagblöð koma nú samdægurs til Íslands. Landsmenn eiga kost á erlendu sjónvarpi. Lausasöluverð og áskriftarverð Morgunblaðsins, sem hefur orðið framkvæmdastjóra flutningasviðs Eimskipafélagsins sérstakt rannsóknarefni, verður ekki til í skjóli fákeppni, heldur verður blaðið í verðlagningu að taka mið af harðri og frjálsri samkeppni og standa sig í þeirri samkeppni. Enginn er knúinn til að kaupa Morgunblaðið. Það gera menn af fúsum og frjálsum vilja, ef þeim sýnist svo og telja blaðið áhugavert. Morgunblaðið hefur haldið sínum hlut á fjölmiðlamarkaðnum og vel það. En sérhver Íslendingur getur keypt Berlingske Tidene, The Times, Le Figaro, svo að nefnd séu nokkur þeirra blaða, sem Þórður Sverrisson fjallar um í grein sinni en að vísu tæpast New York Times, sem lítið er flutt inn af vegna þess að flutningskostnaður á því blaði til landsins er svo óheyrilega hár. Í þessum efnum eru óneitanlega fleiri kostir fyrir hendi en ef landsmenn þurfa að flytja vörur til eða frá landinu.

Sum fyrirtæki, sem hafa sterka stöðu á sínu markaðssviði, hafa haft tilhneigingu til að ýta keppinautum til hliðar eða kaupa þá upp. Morgunblaðið hefur ekki ástundað slík vinnubrögð, þótt útgáfufyrirtæki blaðsins hafi átt kost á því. Tvisvar sinnum á undanförnum áratugum átti útgáfufyrirtæki Morgunblaðsins kost á því, að kaupa síðdegisblaðið Vísi, sem þá var eina síðdegisblaðið á markaðnum, en gerði ekki. Fyrir nokkrum árum átti útgáfufyrirtæki Morgunblaðsins kost á því, að kaupa stóran hlut í Stöð 2 en gerði ekki. Nokkru eftir að Dagblaðið hóf göngu sína var því úthýst úr sameiginlegri prentsmiðju nokkurra dagblaða, Blaðaprenti, með svo skömmum fyrirvara, að þess var tæpast nokkur kostur að afla nýrra tækja til þeirrar prentunar á svo skömmum tíma. Útgáfufélag Morgunblaðsins tók að sér prentun Dagblaðsins, sem nú er eftir sameiningu við Vísi harðasti keppinautur Morgunblaðsins á dagblaðamarkaðnum.

Þannig hefur útgáfufyrirtæki Morgunblaðsins í verki staðið við þau baráttumál Morgunblaðsins í 80 ár, að frjáls samkeppni skuli ríkja. Við svipaðar aðstæður hafa önnur fyrirtæki kosið að notfæra sér aðstöðu sína til að tryggja fákeppni á sínum markaði. Um það verður ekki fjallað nú, en um það má nefna nokkur merkileg dæmi, sem Þórður Sverrisson þekkir áreiðanlega til.

Framkvæmdastjóri flutningasviðs Eimskipafélagsins hefur áhyggjur af því, hvort framleiðniaukning hafi ekki orðið við gerð Morgunblaðsins á undanförnum árum og hvort hún hafi ekki skilað sér til viðskiptavina blaðsins. Vissulega hefur orðið mikil framleiðniaukning í gerð dagblaða vegna tæknibyltinga á síðustu tveimur áratugum. Þórður Sverrisson hefur áhrif hennar fyrir augum sér sex daga vikunnar! Morgunblaðið hefur stóraukið útgáfu sína á mörgum undanförnum árum án þess að taka viðbótargjald fyrir. Þegar Morgunblaðið hóf útgáfu viðskiptablaðs einu sinni í viku kostaði það kaupendur blaðsins ekki eina krónu til viðbótar í áskrift eða lausasölu. Þegar Morgunblaðið hóf útgáfu vikublaðs um sjávarútvegsmál kostaði það kaupendur blaðsins ekki eina krónu til viðbótar. Þegar Morgunblaðið hóf útgáfu menningarblaðs einu sinni í viku kostaði það ekki eina krónu til viðbótar. Þegar Morgunblaðið jók sunnudagsútgáfu sína kostaði það ekki krónu til viðbótar. Þannig mætti áfram telja nýjungar og viðbætur í útgáfu Morgunblaðsins, sem kaupendur þess hafa fengið án aukinna útgjalda af sinni hálfu.

Þeir sem starfa að fjölmiðlun á Íslandi fagna samkeppni eins og dæmin sanna. Íslenzkum dagblöðum hefur ekki komið til hugar að amast við þeim erlendu "Bifröstum" og "Jöklum", sem sækja inn á fjölmiðlamarkaðinn hér. Á þeim markaði gilda lögmál framboðs og eftirspurnar og þar verður það markaðsverð til, sem gildir á fjölmiðlamarkaðnum hér.

"Þeir sem starfa að fjölmiðlun á Íslandi fagna samkeppni eins og dæmin sanna. Íslenzkum dagblöðum hefur ekki komið til hugar að amast við þeim erlendu "Bifröstum" og "Jöklum", sem sækja inn á fjölmiðlamarkaðinn hér. Á þeim markaði gilda lögmál framboðs og eftirspurnar og þar verður það markaðsverð til, sem gildir á fjölmiðlamarkaðnum hér."