Fyrsta tímabil foreldragreiðslna vegna dagvistar í Reykjavík 538 umsóknir bárust UMSÓKNARFRESTUR fyrsta greiðslutímabils vegna greiðslna Reykjavíkurborgar til foreldra rann út 7. apríl. 538 umsóknir bárust Dagvist barna.

Fyrsta tímabil foreldragreiðslna vegna dagvistar í Reykjavík 538 umsóknir bárust

UMSÓKNARFRESTUR fyrsta greiðslutímabils vegna greiðslna Reykjavíkurborgar til foreldra rann út 7. apríl. 538 umsóknir bárust Dagvist barna. Greiðslutímabil er þrír mánuðir og greitt er út mánuði eftir að því lýkur, í fyrsta skipti í byrjun maí.

Rétt til að sækja um greiðslur höfðu foreldrar barna á aldrinum tveggja og hálfs árs til fjögurra og hálfs árs. Það eitt skilyrði var sett fyrir að barnið væri ekki í vistun sem niðurgreidd er af Reykjavíkurborg.

Árni Sigfússon borgarstjóri sagði að af þessum 538 börnum, sem sótt hefði verið um fyrir, væru 383 á biðlista eftir leikskóla í borginni. Greiðslurnar hafa engin áhrif á stöðu barnanna á biðlistum eða rétt þeirra til að fá inni á leikskólum.

Greiðslurnar verða skattskyldar en undanþegnar staðgreiðslu. Það þýðir að þeir sem þiggja greiðslurnar verða að gera grein fyrir þeim á skattframtali og skattur af þeim er gerður upp eftir á. Árni Sigfússon sagði áfram yrði reynt að herja á að fá skatt af þessum greiðslum felldan niður. "Það gefur augaleið að það verður reynt. Þegar sambærileg upphæð er greidd til einkarekinna leikskóla er hún ekki skattskyld en þegar hún rennur beint til foreldra þá er hún það," sagði Árni.