Haraldur Haraldsson í Andra um gjaldþrot Ísmjöls hf. Beiðnin um gjaldþrot tengist sölu SR-mjöls HARALDUR Haraldsson í Andra, framkvæmdastjóri Ísmjöls hf., segir að ástæða fyrir beiðni fulltrúa SR-mjöls um gjaldþrot, sé fram komin vegna málaferla sem hann...

Haraldur Haraldsson í Andra um gjaldþrot Ísmjöls hf. Beiðnin um gjaldþrot tengist sölu SR-mjöls

HARALDUR Haraldsson í Andra, framkvæmdastjóri Ísmjöls hf., segir að ástæða fyrir beiðni fulltrúa SR-mjöls um gjaldþrot, sé fram komin vegna málaferla sem hann eigi í vegna sölu á SR-mjöli. Sigurður Einarsson, framkvæmdastjóri Ísfélags Vestmannaeyja hf., lagði fram tillögu um að gengið yrði til viðræðna við þýska samstarfsaðilann Kurt A. Becher, sem er eini kröfuhafinn, en sú tillaga var felld með 43% atkvæða SR-mjöls og 11% atkvæða Faxamjöls hf. gegn 28% atkvæða Ísfélagsins og 18% atkvæða Vinnslustöðvarinnar hf. í Vestmannaeyjum.

Haraldur segir, að eini kröfuhafinn í búið sé Kurt A. Becher og að hann hafi ekki óskað eftir að fyrirtækið færi í þrot. Þvert á móti hafi verið óskað eftir, að reynt yrði að semja um kröfur fyrirtækisins. "Það var bara ekki hægt að koma tauti við menn þegar ekki er hugsað um að leysa málin heldur að flækja þau til þess eins að geta komið höggstað á mig af því að ég er í málaferlum vegna sölu á SR-mjöli," sagði Haraldur. "Þetta á sjálfsagt að verða til þess að kasta rýrð á persónu mína, en við spyrjum að leikslokum."

Sigurður Einarsson sagði, að fyrirtækið hafi upphaflega verið stofnað til þess að auðvelda aðgang að mörkuðum erlendis. Eigendur voru hluti af helstu mjölframleiðendum, sem lögðu til hluta af mjölframleiðslu sinni, og réðu þeir Harald Haraldsson í Andra framkvæmdastjóra Ísmjöls hf. Samið var við þýska fyrirtækið um að selja vöruna, en lægð var á markaði erlendis og gekk illa að selja.

Að sögn Sigurðar hafa deilur staðið við Þjóðverjana um kröfur þeirra, sem eru um 95 millj. Þar af er óumdeilt að hluthafar eigi að greiða 60 millj. "Mismunurinn er 30 millj. og á fundinum lá fyrir yfirlýsing frá þessu þýska félagi, um að það væri tilbúið til viðræðu um þessar skuldir," sagði Sigurður. "Þá flutti ég sem fulltrúi Ísfélagsins tillögu um að gengið yrði til samninga við Þjóðverjana. Á fundinum lá einnig frammi beiðni frá fulltrúum SR-mjöls um að fara í gjaldþrot, en ég var með tillögu um að fresta því í fimmtán daga og ganga til viðræðna við Þjóðverjana. Ef lækkun fengist á skuldum þá, þyrfti ekki að fara í gjaldþrot, en sú tillaga var felld með atkvæðum SR-mjöls og Faxamjöls. Vinnslustöðin og Ísfélagið greiddu atkvæði með tillögunni um viðræður við Þjóðverja til að fá skuldina lækkaða. Eftir það kom fram tillaga um að félagið yrði sett í gjaldþrot og það var samþykkt með 54% atkvæða gegn 46%, sem voru á móti því gjaldþroti. Ég hef aldrei áður verið í stjórn í félagi sem tekið er til gjaldþrotaskipta og fannst miður að þetta skyldi fara svona, að ekki skyldi reynt að semja við stærsta kröfuhafann, af því að mér fannst forsendur vera fyrir því, að það tækist. Mér fannst engar viðskiptalegar forsendur vera að baki þessari gjaldþrotabeiðni og Haraldur átti ekkert í Ísmjöli."