Nýir bankastjórar Seðlabanka Íslands Steingrímur og Eiríkur skipaðir STEINGRÍMUR Hermannsson, alþingismaður og formaður Framsóknarflokksins, og Eiríkur Guðnason aðstoðarseðlabankastjóri, voru skipaðir seðlabankastjórar í gær kl. 18.30, af Sighvati...

Nýir bankastjórar Seðlabanka Íslands Steingrímur og Eiríkur skipaðir

STEINGRÍMUR Hermannsson, alþingismaður og formaður Framsóknarflokksins, og Eiríkur Guðnason aðstoðarseðlabankastjóri, voru skipaðir seðlabankastjórar í gær kl. 18.30, af Sighvati Björgvinssyni bankamálaráðherra. Eiríkur fékk þrú atkvæði í atkvæðagreiðslu bankaráðs Seðlabankans í fyrradag og Steingrímur tvö. Sighvatur Björgvinsson sagði í samtali við Morgunblaðið í gær, að hann hefði kosið að reynsla þeirra er hann skipaði, væri fjölbreytileg.

Guðmundur Magnússon, prófessor við Háskóla Íslands fékk þrjú atkvæði eins og Eiríkur. Viðskiptaráðherra var spurður hverju það sætti, að hann gengi framhjá Guðmundi: "Ég er að skipa, ekki einn seðlabankastjóra, heldur þriggja manna hóp. Þar þurfa, að mínu áliti, að vera menn með misjafna reynslu. Ég skipa annan af þeim tveimur hagfræðingum, sem fá flest atkvæði. Það er skýringin á því að ég vel Eirík. Ég vildi fremur velja mann með reynslu úr bankanum, en utan hans. Guðmundur Magnússon er afskaplega hæfur maður, mjög vel menntaður og hefði mætavel ráðið við þetta starf, en mín niðurstaða varð sú að velja hagfræðinginn úr bankanum," sagði Sighvatur.

Vel valin forystusveit

Sighvatur sagði jafnframt: "Síðan vel ég Steingrím Hermannsson. Hann er með góða háskólamenntun, mastersgráðu í rafmagnsverkfærði, þó svo að hann sé ekki hagfræðimenntaður. Hann hefur mikla og langa reynslu af stjórnmálum, verið forsætisráðherra í sjö ár og er vel þekktur erlendis. Hann kemur með reynslu sína og þekkingu inn í Seðlabanka Íslands til viðbótar þeirri sem aðrir hafa. Þannig tel ég, að forystusveit bankans sé vel samvalin."

Sighvatur kvaðst ekki telja rétt, að bankastjórn Seðlabankans væri skipuð mönnum "úr sömu skúffu", eða þremur mönnum með samskonar reynslu að baki. Því hefði hann valið í stóla seðlabankastjóra með þessum hætti. "Sá á kvölina, sem á völina," sagði ráðherra og kvað það alveg ljóst, að ef stjórnmálamaður hlyti starf, sama hvað það væri, yrði slíkt alltaf vaki ákveðinnar gagnrýni.

"Ég tel ekki, að það eigi að vera hæfum mönnum fjötur um fót, þó að þeir hafi gegnt æðstu forystustörfum, sem þjóðkjörnir fulltrúar geta gegnt fyrir Íslendinga. Maður sem hefur gegnt ráðherraembætti á annan áratug og verið forsætisráðherra í sjö ár og verið oftlega valinn vinsælasti og virtasti stjórnmálamaður þjóðarinnar, ef hann telst ekki hæfur til þess að gegna svona starfi, þá er eitthvað athugavert, ekki endilega við hann, heldur fyrst og fremst við þjóðina, sem valdi hann," sagði Sighvatur Björgvinsson.