Samningur Flugleiða og Flugfélags Norðurlands um flug til Sauðárkróks Fullkomlega eðlilegur segja Flugleiðamenn Stjórnvöld hindra nútíma viðskiptamáta, segir Íslandsflug Egilsstöðum. MÓTMÆLI hafa komið fram af hálfu Íslandsflugs hf. vegna samnings er...

Samningur Flugleiða og Flugfélags Norðurlands um flug til Sauðárkróks Fullkomlega eðlilegur segja Flugleiðamenn Stjórnvöld hindra nútíma viðskiptamáta, segir Íslandsflug Egilsstöðum.

MÓTMÆLI hafa komið fram af hálfu Íslandsflugs hf. vegna samnings er Flugleiðir hafa gert við Flugfélag Norðurlands. Samningurinn gerir ráð fyrir, að Flugfélag Norðurlands fari fjórar ferðir á viku í sumar á milli Sauðárkróks og Reykjavíkur. Íslandsflugsmenn telja þetta óeðlilega ráðstöfun á sérleyfi því sem Flugleiðir hafi á leiðinni.

Íslandsflug hefur ekki leyfi til þess að fljúga til Sauðárkróks vegna sérleyfis Flugleiða. Þeir fljúga hins vegar til Siglufjarðar og fara fimm sinnum í viku yfir Sauðárkrók, en mega ekki taka þaðan farþega, nema ófært sé á Siglufjörð. Talsmaður Íslandsflugs segir, að flugleiðamenn hafi ekki haft neinn áhuga á samningum við þá, þó þeir flygju þarna yfir fimm sinnum í viku. Ekki væri hægt að skilja það öðruvísi en svo að Flugleiðir vildu Íslandsflug út af markaðnum. Forstöðumaður innanlandsdeildar Flugleiða telur slíkt af og frá.

Ekki fullnægjandi vélar

Að sögn talsmanns Flugleiða var ástæða þess að ekki var samið við Íslandsflug vegna flugs til Sauðárkróks einfaldlega sú, að vélar Íslandsflugs fullnægðu ekki skilyrðum þeim sem Flugleiðir setja varðandi flug innanlands. Flugleiðir hafi alltaf haft það sem keppikefli að bjóða upp á vélar sem væru búnar jafnþrýstiklefa, en vélar Íslandsflugs eru ekki með slíkum búnaði. Jafnvel þó að Íslandsflug hefði sambærilegar vélar og Flugfélag Norðurlands gætu þeir ekki lent á Siglufirði. Því sé tómt mál að tala um það að Flugleiðir vilji Íslandsflug út af markaðnum.

Haftastefna stjórnvalda

Talsmaður Íslandsflugs telur stjórn flugmála á Íslandi í óheppilegum farvegi þar sem séu afskipti stjórnvalda. Þau torveldi eðlilega samkeppni sem verði að ríkja í nútíma viðskiptum. Hann benti t.d. á, að með tilkomu aukinnar samkeppni á flugi til Vestmannaeyja hefðu Flugleiðir fjölgað ferðum þangað og lækkað fargjöld. Nákvæmlega sama hefði gerst á Sauðárkróki. Auk þess væri ýmislegt sem benti til þess að fargjöld væru óeðlilega há vegna lélegrar sætanýtingar. Talsmaður Flugleiða sagði að Flugleiðir myndu hætta öllu flugi til Sauðárkróks ef um það ríkti óheft samkeppni. Hann benti á að hugsunin með sérleyfum væri fyrst og fremst öryggið og þjónustan, sem fælist í því fyrir íbúa viðkomandi héraðs.

Óánægja á Sauðárkróki

Fram kom hjá báðum aðilum að óánægja væri á Sauðárkróki með tíðni flugs Flugleiða þangað. Talsmaður Flugleiða sagði samninginn meðal annars vera tilkominn vegna þessa, auk þess sem Flugleiðir væru hluthafar í Flugfélagi Norðurlands og því væri ekkert óeðlilegt að beina viðskiptum þangað.

­ Ben.S

Morgunblaðið/Benedikt Sigurðsson