Á 203 km hraða á Reykjanesbraut TVEIR ungir bifhjólaökumenn óku um Reykjanesbraut með 203 km hraða á klukkustund í fyrrinótt þegar lögregla mældi hraða þeirra. Á eftir fylgdi þriðja bifhjólið á 166 km hraða.

Á 203 km hraða á Reykjanesbraut

TVEIR ungir bifhjólaökumenn óku um Reykjanesbraut með 203 km hraða á klukkustund í fyrrinótt þegar lögregla mældi hraða þeirra. Á eftir fylgdi þriðja bifhjólið á 166 km hraða. Sá sem hægast fór stöðvaði strax og lögregla gaf merki, en hinir tveir reyndu að stinga lögreglu af.

Mennirnir voru á leið á Suðurnes. Annar þeirra komst heim til sín í Garðinn áður en hann var handtekinn en hinn hafði skilið hjól sitt eftir í hesthúsahverfi Keflvíkinga og látið sig hverfa þaðan. Talið er vitað um hvern er að ræða. Bifhjólamennirnir tveir, sem lögregla náði til, voru sviptir ökuréttindum til bráðabirgða í fyrrinótt.

Það er afar fátítt, samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins, og nánast einsdæmi, að mældur sé hér á landi ökuhraði yfir 200 km/klst.