TÓNLIST Kabarett, rokk og Skógarlíf í Söngsmiðjunni emendur Söngsmiðjunnar eru um þessar mundir að taka lokasprett skólaársins með sýningum og tónleikum.

TÓNLIST Kabarett, rokk og Skógarlíf í Söngsmiðjunni emendur Söngsmiðjunnar eru um þessar mundir að taka lokasprett skólaársins með sýningum og tónleikum. Frá því á fimmtudag hafa staðið yfir í Tjarnarbíói sýningar nemenda þessa nýjasta söngskóla borgarinnar, sem tók til starfa þegar Esther Guðmundsdóttir auglýsti að hún tæki að sér að kenna laglausum að syngja. Nemendur streymdu að, laglausir jafnt og lagvissir. Nú á þriðja starfsári eru þeir rúmlega 300 talsins, á aldrinum 4-60 ára gamlir og stunda nám í hinum ýmsu deildum þar sem þeir vinna með söngraddir sínar auk þess að læra dans og leiklist.

Afrakstur vetrarins er nú til sýnis í Tjarnarbíói þar sem fram koma um 50 nemendur og mest mæðir á söngleikjadeild. Á sýningunni eru m.a. flutt atriði úr úr söngleiknum Cabaret, útdráttur úr sögunni um Mowgli í Skógarlífi, og atriði úr kvikmyndinni American Graffiti auk tónlistar frá hippatímabilinu.

"Ég er að mennta alls konar söngvara; fólk sem syngur í útilegum, kórum, einsöng, í popphljómsveitum eða hvar sem er," segir Esther Guðmundsdóttir. "Það eiga allir möguleika á að komast inn í þennan skóla til að byrja að vinna með röddina sína og beita henni rétt, sama á hvaða stigi þeir eru. Grunnurinn er að læra að beita röddinni rétt og kenna nemendum góða söngtækni. Svo er spurningin hvað nemandinn vill leggja á sig og hver geta hans er.

Það er mismunandi hvað fólk fer hratt yfir og vinnur vel og hvað það er tilbúið til að taka þetta alvarlega. Það eru fáir sem hafa raunverulega getu til að vera einsöngvarar. Markmiðið er að þau finni fyrir sjálfum sér í gegnum kennsluna og sönginn. Góð söngtækni er grunnurinn að því að manneskja geti notið sín i söng og eftir því sem nær betur tökum á þessu nær hún að hrífa fleiri."

Eitthvað fyrir alla

Fyrr voru nefnd þau verk sem sýnt er úr í Tjarnarbíói. Það er barnahópurinn sem sýnir atriði úr Skógarlífi, sögu sem flestir þekkja úr sögu Rudyards Kiplings eða teiknimynd Walt Disneys, unglingahópur sýnir atriði úr rokkmyndinni American Graffiti. Byrjendur í söngleikjahóp flytja atriði sem einkennist af tónlist hippatímabilisins en lengra komnir í einsöngs- og dansnámi flytja söngleikinn Cabaret sem hefur orðið frægastur úr kvikmynd með Liza Minelli.

"Við erum komin með frábæran nemendakjarna og það er hann sem nú er að að sýna," segir Esther. "Það er búið að vera gaman hjá okkur, mikið líf og mikil gleði en líka alvara því það er á stefnuskránni að vinna með aga. Reynsla mín er sú að almennt þurfi að byrja á að kenna vinnubrögð og aga því að án þess verður ekkert til."

Eins og fyrr sagði á Söngsmiðjan rætur að rekja til þess að Esther auglýsti söngnámskeið fyrir laglausa jafnt og lagvissa. "Þetta vakti mjög mikla athygli því það hafði enginn auglýst áður að það væri hægt að kenna laglausum að syngja en það hefur komið ótrúlega mikið út úr því. Það hefur komið til mín fólk sem aldrei hefur getað sungið og hefur verið talið laglaust allt sitt líf en það geta allir unnið með röddina sína og eftir 1-2 námskeið eru flestir í þessum hópi farnir að geta sungið fallega," segir Esther.

Vill virkja bæði sál og líkama

"Út úr þessum námskeiðum hafa til dæmis komið nokkrir nemendur sem hafa frábærar raddir og frábæra hæfileika. Ég hef haft geysilega mikla ánægju af því að gefa fólki kost á að syngja og njóta sín í söng og ég hef líka lagt áherslu á að vinna með mannlega þáttinn, virkja bæði líkama og sál og láta fólk hreyfa orkuna sína. Fólki líður oft eins og eftir líkamsrækt eftir tíma og æfingar," segir Esther sem nú vinnur að því að taka upp stigakerfi í skólanum til að hann falli að hinu almenna tónlistarskólakerfi.

Uppselt var á sýningarnar í Tjarnarbíói fyrstu sýningarhelgina en áfram verður haldið um næstu helgi.

Nemendur sem eru lengra komnir í einsöngs- og dansnámi flytja söngleikinn Cabaret, sem leikkonan Liza Minelli er einna helst tengd við í hugum fólks.

Morgunblaðið/Kristinn

Byrjendur í söngleikjadeild Söngsmiðjunnar tekur fyrir hippatímabilið.

Barnahópur Söngsmiðjunnar flytur útdrátt úr sögunni Skógarlífi, sem margir þekkja úr sögu Rudyards Kiplings eða teiknimynd eftir Walt Disney.

Tónlist rokkáranna og myndin American Graffiti eru verkefni unglingahópsins.