Dagljósabúnaður valfrjáls DAGLJÓSABÚNAÐUR er ekki lengur skylda í bílum samkvæmt nýrri reglugerð um gerð og búnað bíla. Engin breyting hefur þó orðið á reglum um bílljósanotkun.

Dagljósabúnaður valfrjáls

DAGLJÓSABÚNAÐUR er ekki lengur skylda í bílum samkvæmt nýrri reglugerð um gerð og búnað bíla. Engin breyting hefur þó orðið á reglum um bílljósanotkun.

Skylda var að tengja dagljósabúnað við alla bíla nýja eða notaða sem voru nýskráðir hér á landi eftir 1. janúar 1989 en með reglugerðinni er þessi skylda afnumin frá 1. mars sl. "Ástæðan fyrir breytingunni er sú að þetta var í ósamræmi við Evrópureglur og vegna samnings Íslands við EES kallast það tæknilegar viðskiptahindranir að hafa strangari kröfur hér heldur en þekkist í löndum EES," sagði Birgir Hákonarson hjá tæknideild Bifreiðaskoðunar Íslands.

Reglugerðir um gerð og búnað ökutækja hefur verið löguð að þeim reglum sem gilda í Evrópulöndunum og t.a.m. er nú ekki lengur krafa um útispegla hægra megin á bílnum nema um tengibúnað eða sendibíl er að ræða og þá er ekki lengur krafa um að bílar hafi sólskyggni. Einnig er nú gerð krafa um árekstrarvörn á breytta bíla sem eru hærri en 80 sm, þ.e. varnarbita bæði að framan og aftan.