Fyrrum landsliðsmarkvörður í handknattleik, Hjalti Einarsson á við hrakandi heilsu að etja, en uppvíst hefur orðið að hann hefur hlotið heilaskaða af líku tagi og vel er þekktur úr heimi hnefaleika Skjóttu í hausinn á honum eftir Guðmundur Guðjónsson egar...

Fyrrum landsliðsmarkvörður í handknattleik, Hjalti Einarsson á við hrakandi heilsu að etja, en uppvíst hefur orðið að hann hefur hlotið heilaskaða af líku tagi og vel er þekktur úr heimi hnefaleika Skjóttu í hausinn

á honum

eftir Guðmundur Guðjónsson

egar ég var smápeyi í Eyjum fór ég að reyna fyrir mér í fótbolta eins og allir strákarnir. Einhverra hluta vegna gat ég ekki æft eins og hinir, varð alltaf og fljótt þreyttur og því varla gjaldgengur. En til þess að geta verið með var ég settur í markið. Þá hét ég því að úr markinu færi ég ekki aftur. Og ég ætlaði að ná langt. Alla leið á toppinn. Ferillinn var síðan langur og ég afrekaði fyrir utan alla titlana og bikarana að verða talinn einn þriggja bestu handknattleiksmarkvarða í heimi. Hærra verður varla náð. En þetta hefur verið dýru verði keypt. Hér sit ég í dag nánast lifandi lík. Heilsan farin og lífið heldur tilgangslítið og fjárhagur okkar hjónanna hruninn. Ég myndi glaður skila aftur öllum verðlaunapeningunum og framanum fyrir þrjú ár við fulla heilsu. Það myndi duga mér til þess að vinna mig upp andlega og koma fjárhagnum á græna grein. En ég fæ ekki slíkt val og verð að lifa við það sem orðið er."

SJÁ NÆSTU SÍÐU

á sem þetta mælir er Hjalti Einarsson, einn af fræknustu íþróttahetjum Íslands hér á árum áður. Á sjötta og sjöunda áratugnum varði hann mark FH og íslenska landsliðsins í handknattleik og þótti óhemjusterkur leikmaður. Á heimsmælikvarða. Íþróttamaður ársins var hann kjörinn árið 1972, en hápunkturinn þá var frammistaðan í frægum jafnteflislandsleik gegn Rúmenum, 14-14, sem þá voru heimsmeistarar og gríðarlega sterkir. Hjalti telur sig hafa verið útnefndan sem fulltrúa landsliðsins.

En erfið og dularfull veikindi hafa herjað á Hjalta síðan snemma á níunda áratugnum. Raunar telur hann að hann hafi fyrst kennt sér meins á Olympíuleikunum 1972, en þegar komið var fram á árið 1986 var ástandið orðið alvarlegt. Það hefur tekið mörg ár að komast til botns í því hvað veldur, en nú virðist niðurstaða vera fengin. Hjalti vísar í samtöl og rannsóknir Kristins Tómassonar geðlæknis, sem að sögn Hjalta, telur sýnt að hann hrjái það sem stundum er nefnt "boxaraheili". Kristinn sagði í samtali við Morgunblaðið að sér þætti ótímabært að gefa út yfirlýsingar um málið í blöðum, þetta væri bæði viðkvæmt mál og alvarlegt hvernig sem á það væri litið. Því vildi hann ljúka athugunum sínum til fullnustu áður en hann tjáði sig. Meiðsl af þessu tagi eru vel þekkt í íþróttagreinum á borð við hnefaleika þar sem keppandinn fær mörg og þung og fyrst og fremst óvænt högg á höfuðið. Hnefaleikakappi vissi reyndar að hann fengi högg, en væri ekki viðbúinn þeim og því hristist höfuðið til í hvert sinn. Þetta fyrirbæri væri til samanburðar ekki fyrir hendi í knattspyrnu þar sem leikmenn skalla knöttinn mikið. Í knattspyrnu miðuðu menn út snertinguna við knöttinn og væru því viðbúnir. Höfuðið hristist því ekki til við slík högg, að minnsta kosti ekki þannig að hætta væri á skaða af því tagi sem hnefaleikarinn getur vænst. Þar sem hnefaleikar eru bannaðir með lögum hér á landi hefur fyrirbærið verið óþekkt og þetta mun vera í fyrsta skipti sem dæmi um slíkt finnst hér.

Kvillar á kvilla ofan...

Hjalti segir að í fyrstu hafi verið álitið að gigt væri meinið, "psoriasisgigt" segir hann sjálfur og dregur ekki úr því að það hafi verið hluti af vandanum. En er frá leið ágerðust verkir í höfði og útlimum, fylgikvillar tóku sig upp, skeifugarnasár, magasár, jafnvægi og minni skertust og hreyfingar urðu riðukenndar og skjálfandi. Ef hann gætir sín ekki þegar hann rís á fætur er hætta á að hann steypist í gólfið. Að ýmsu leyti segist hann vera með mörg af helstu einkennum Alzheimersjúkdómsins, enda hafi hann m.a. verið rannsakaður með slíkt í huga. En ekki kom það á daginn. "Ég hef gengið fyrir verkjalyfjum um árabil og oft verið að því kominn að gefast hreinlega upp. Ég tel að ég hafi komist mjög nærri því að vera beinlínis eitraður, svo margs konar lyf tók ég um tíma. Þrátt fyrir það finn ég alltaf til. Ég gæti tekið sterkari lyf en ég geri, en vil heldur finna til en að vera í stöðugum rús. Þá væri ég kominn í enn verri vítahring," segir Hjalti.

Eiginkona Hjalta er Jóhanna Helgadóttir og reka þau prjónaverslunina Hof á Skólavörðustíg. Verslun sú var fyrrum neðst í Ingólfsstræti, niður undir Hverfisgötu og þau hjónin eru gleðin uppmáluð með flutninginn. "Þetta er næstum eins og að vakna til lífsins. Allir nágrannar okkar hafa gert sér far um að heilsa upp á okkur og bjóða okkur velkomin þessar fáu vikur sem verslunin hefur verið opin hérna. Bara að það sé talað við mann af hlýhug lyftir manni upp," segir Hjalti og skírskotar þar til erfiðrar píslargöngu vina og kunningja á milli og um kerfið í öllu sínu veldi. Jóhanna tekur undir það, segir þau hafa barist lengi í bökkum og vandann megi að meira og minna leyti rekja til þess að heilsa Hjalta hefur dæmt hann úr leik sem virks einstaklings í atvinnulífinu. Tími og þrek hafi farið í að leita eftir aðstoð, læknisfræðilegri, andlegri, fjárhagslegri. Skilningur hafi verið enginn, veggir til að reka sig á verið hvarvetna. Hjalti hefði verið álitinn vesalingur og drykkjusjúklingur. Síðar meir einfaldlega geðveikur.

Dæmi um ofanskráð...

Dæmi um harkið í kring um þetta er sú staðreynd að Hjalti var ekki lengur vinnufær árið 1987, en var ekki metinn til örorku fyrr en árið 1990. Það var því komið á fjórða ár frá því hann hætti að vinna og þá fékk hann um 12.000 krónur á mánuði. Þetta voru umskipti, því þrátt fyrir slæma heilsu var Hjalti í góðri vinnu og verslunina Hof höfðu þau keypt árið 1985. Á meðan Hjalti beið eftir örorkumatinu misstu þau íbúð og fyrirtækið steyptist í skuldir. "Því miður vorum við ekki nógu efnuð til að standast þetta," segir Jóhanna og hún bætir við, að stórbæta megi þjónustu við fólk sem lendi í vandamálum. "Hjalti gat lítið vasast í þessu sjálfur, það lenti meira og minna á mér. Og ég rak mig á að það eru engar leiðbeiningar að fá. Maður er lítill pappír með öryrkja á bak við sig. Þetta hark hafði síðan ef til vill enn verri áhrif á Hjalta en maður gat séð fyrir. Með því að taka alla ábyrgðina á eigin herðar gerði ég hann kannski að enn meiri vesalingi," segir Jóhanna.

Fyrirtækið varð gjaldþrota, en með mikilli elju og feikna átaki tókst þeim Jóhönnu og Hjalta að kaupa það aftur og greiða megnið af skuldunum hjálparlaust. En nú sígur enn á ógæfuhliðina og þeim hjónum svíður að fá engar undirtektir við neyðarkallinu. Fyrrum félagar sem leitað hefur verið til hafa reynst ófúsir til hjálpar og lánastofnanir eru lokaðar þeim sem eiga ekki steinsteypu til að veðsetja á móti. "Gott lán til langs tíma myndi bjarga okkur, því búðin ber sig. Skuldirnar vinda hins vegar upp á sig," segja þau hjón.

Boxaraheilinn...

Sem fyrr segir voru menn yfirleitt sáttir við þá skýringu á slæmri heilsu Hjalta í upphafi, að hann væri með gigt. En er frá leið var ljóst að annað og meira hlaut að vera í farvatninu. Þau Hjalti og Jóhanna segja að það hafi mætt daufum eyrum er þau lýstu þeirri skoðun sinni að veikindin væru meiri. Hjalti hafi verið dæmdur. "Um tíma fór ég í brennivínið," segir Hjalti. Og hann hallar sér fram og næstum hvíslar: "Ég skal segja þér, að brennivínið bjargaði mér. Ég var þá orðinn svo slæmur og enginn vissi eitt eða neitt. Ég fullyrði að ég hefði ekki getað lifað lengur. Mér leið ekki eins illa er ég neytti víns. Ég notaði það til að slæva mig, enda er áfengi eitt elsta og besta deyfilyf sem til er. En ég hætti að drekka, hætti og hætti ekki, engu að síður þarf ekki annað en að menn sjái mig, heyri hvernig talandinn er, hvernig hreyfingarnar eru, að ég er álitinn drukkinn. Sannleikurinn er sá að þetta er samspil af veikindunum og lyfjunum sem ég tek. Það spyr bara enginn."

Jóhanna tekur til máls og segir að sú grunsemd hefði vaknað hjá sér fyrir löngu að versnandi ástand Hjalta stafaði frá höfðinu. "Ég var búin að margsegja þetta og á fjórða tug sérfræðinga sem Hjalti hefur þrætt önsuðu því litlu. Loksins enduðum við hjá Kristni Tómassyni og þá var farið að hlusta. Hann tók mark á þessu, hefur gert rannsóknir og tjáð okkur að yfirgnæfandi líkur bendi til þess að Hjalti þjáist af skemmdum á framanverðum heilanum og þær skemmdir stafi af þungum höggum um árabil," segir Jóhanna og Hjalti sækir þá í sig veðrið og bætir við: "Þetta er stórmerkilegt og hefur aldrei þekkst hér á landi fyrr. Þó við værum búin að ræða þetta mikið heima þá brá mér samt rosalega þegar Kristinn sagði okkur skoðun sína. Ég held að ég hafi þrátt fyrir allt ekki búist við því að úrskurðurinn yrði svo alvarlegur.

En þegar ég hugsa til þess, og ég man vel aftur í tímann þótt ég muni ekkert hvað ég sagði fyrir tíu mínútum, þá stinga mig öskrin af leikmannabekkjum mótherjanna. "Skjótiði í hausinn á honum!" Meira að segja á æfingum og í æfingaleikjum var þetta það eina sem mótherjunum datt í hug þegar ég lokaði markinu og þeir gátu ekki skorað. Það var gjarnan fórnað vítaköstum til þessa. Það var ekki óalgengt að ég væri rotaður einu sinni til tvisvar í leik. Oftast fór ég út af í smástund til að jafna mig og þegar ég fór aftur inn á, stundu áhorfendur: "Vááá, sá er harður af sér. Rosalega varði hann vel!" En sannleikurinn er sá að ég varði þessi skot ekkert. Þetta voru skot sem voru miðuð á andlitið til að setja mig úr jafnvægi. Nú er komið á daginn að þau gerðu til mikilla muna meira heldur en það. Ég varð ekki einn fyrir þessu, allir muna eftir sígildu senunni er leikirnir voru stöðvaðir á meðan allt liðið leitaði á hallargólfinu að linsunum hans Óla Ben. Hann var eins og ég, gat lokað markinu og þá áttu menn til aðeins þetta eina ráð. Ég held að þetta sé ekki lengur lenska. Ég held að menn fái nú til dags umsvifalaust rautt spjald ef þeir skjóta í höfuðið á markverðinum þannig að ljóst sé að það sé ekki af slysni."

En hvaða þýðingu hefur þessi úrskurður læknisins? Hjalti svarar þessu þannig: "Ég skal segja þér að oft hef ég verið búinn að gefast upp. Verið tilbúinn að ljúka þessu. Einu sinni var ég alveg klár, en Jóhanna plataði mig til að fresta því um einhverja mánuði, að hún fengi ekki einhverjar ekknabætur ef hún hefði ekki náð einhverjum ákveðnum aldri er ég yfirgæfi jarðvistina. Þetta var allt plat hjá henni," segir Hjalti glottandi og heldur svo áfram: "En svo er þessi mótsögn, að auðvitað vil ég lifa eins og aðrir og sú staðreynd að það liggur loksins fyrir hvað það er sem veldur veikindunum gefur mér von. Von til þess að loksins fái ég þá meðferð sem hæfir ástandinu og það geti gert einhvern gæfumun. Auðvitað óttast ég um leið að það sé orðið of seint fyrir mig. Mér hefur farið mikið aftur síðustu mánuðina. Mér hefur til dæmis alltaf þótt gaman að mála og teikna. Svona aðallega fyrir mig sjálfan. En fyrir fjórum mánuðum var svo komið að ég gat ekki valdið pensli lengur. Þá vildi ég gjarnan eiga mér einhvers konar athvarf heima fyrir, smáherbergi þar sem ég gæti dundað mér við smíðar og þess háttar, enda er ég lærður húsgagna- og húsasmiður. Ég lifi í voninni að Kristinn geti nú gert eitthvað sem geri mér kleift að halda á pensli að ég tali nú ekki um meira. Það er það sem lífið hefur snúist um, að reyna að trúa því að eitthvað gerist. En svo hefur ekkert gerst. Síðasta próf sem ég fór í gaf svo sem ekki tilefni til neinnar bjartsýni, mér hafði farið mikið aftur, svo mikið að ég þekkti ekki Kristinn aftur og var þó ekki langur tími liðinn frá því að ég sá hann síðast. Aðeins nokkrar vikur. Hvað sem verður er þó hægt að hugga sig eitthvað við að þessu verður komið á framfæri. Kristinn ætlar að skrifa um þetta og e.t.v. verður þetta einhverjum víti til varnaðar. Íþróttaforystan sem mér hefur lengi þótt ábyrgðarlítil hristir kannski af sér slyðruorðið og tekur föstum tökum málefni eins og tryggingar og forvarnir íþróttafólks. Þar eru mikil verkefni framundan," segir Hjalti.

Höfnunin...

Hvað sjá hjónin framundan? Hjalti hugsar sig um í nokkur andartök og segir svo: "Einangrunin er djöfulleg. Höfnunin er eitt það versta. Á meðan þú ert frægur þá ertu gjaldgengur hvar sem er. Allir vilja við þig tala og allt fyrir þig gera. Um leið og þú ert hættur, að ég tala nú ekki um kominn í vandræði, þá vill enginn af þér vita. Vinirnir frá árunum áður, þeir hringja ekki einu sinni. Kannski vegna þess að ég otaði ekki mínum tota, tók ekki þátt í samkvæmislífinu sem tengdist handboltanum. Svo gleymi ég því sjálfur og það nagar mig líka að vita ekki hvort að þeir vilji tala við mig eða ekki.

-Varðandi fjölskylduna þá er hún Jóhanna mín ofboðslega þrá og hún neitar að gefast upp. Þetta er hins vegar verulega erfitt fyrir hana. Stanslaus vakt yfir mér auk þess að halda utan um fjárhagsmálin og eltingarleikinn við kerfið. Ég vil ekki fara á stofnun," segir Hjalti og Jóhanna skýtur því að, að stofnun sem hæfi Hjalta fyrirfinnist ekki hér á landi hvort eð er. Og Hjalti heldur áfram: "Ég vil vera heima hjá mér, en þá kemur þessi stóra spurning: Get ég boðið Jóhönnu upp á það? Þannig er ég teygður og togaður og ég læt hverjum degi nægja sína þjáningu."

Hjalti þagnar og hallar sér aftur í stólnum. Hann þarf að hvíla sig. Úthaldið er ekki meira. Þegar þetta kemur á prent verður hann kominn í stafræna heilarannsókn á Landsspítalanum. Þannig er komið fyrir þessum fyrrum snjalla íþróttamanni sem lengi var ein af helstu fyrirmyndum íþróttaæskunnar. Fyrrum Íþróttamaður ársins, leikmaður sem aldrei fékk áminningu eða var rekinn af leikvelli. Lagði sig svo fram um að gera sitt besta, að hann stendur eftir eins og tóm rúða. Maður sem er ekki einu sinni skugginn af sjálfum sér.

Morgunblaðið/Sverrir Vilhelmsson

Hjalti Einarsson í eldlínunni með íslenska landsliðinu, m.a. í frægum jafnteflisleik gegn heimsmeisturum Rúmena.

Morgunblaðið/Emelía Björg Björnsfdóttir

Hjalti og eiginkona hans Jóhanna Helgadóttir í verslun þeirra á SKólavörðustígnum.

Íþróttamaður ársins 1972. Hjalti tekur við bikarnum úr hendi Jóns Ásgeirssonar.

Hjalit hlífir sér hvergi er hann býst til að verja þrumuskot Haukamannsins Stefáns Jónssonar.

Frá setningu HM í Tékkoslóvakíu 1964, talið framan frá, tékkneskur spjaldberi, Ragnar Jónsson, Hjalti Einarsson, Guðmundur Gústafsson, Hörður Kristinsson, Gunnlaugur Hjálmarsson, Einar Sigurðsson, Guðjón Jónsson, Örn Hallsteinsson, Karl Jóhannsson, Sigurður Einarsson og Birgir Björnsson.

Þetta fyrirbæri er vel þekkt í íþróttagreinum á borð við hnefaleika þar sem keppandinn fær mörg og þung og fyrst og fremst óvænt högg á höfuðið.

Oft hef ég verið búinn að gefast upp. Verið tilbúinn að ljúka þessu.