GRÆTUR ENGINN ÍSLENDING? Í Pétursstræti 22, húsi Jónasar Hallgrímssonar Texti: Jón Stefánsson/ Myndir: Einar Falur Ingólfsson og Jón Stefánsson Kaupmannahöfn, aðfaranótt 21. maí 1845. Íslendingur réttir vertinum á Hviids Vinstue tómt glasið.

GRÆTUR ENGINN ÍSLENDING? Í Pétursstræti 22, húsi Jónasar Hallgrímssonar Texti: Jón Stefánsson/ Myndir: Einar Falur Ingólfsson og Jón Stefánsson Kaupmannahöfn, aðfaranótt 21. maí 1845. Íslendingur réttir vertinum á Hviids Vinstue tómt glasið. "Nu drikker jeg ikke mere," segir hann, borgar og stígur útí nóttina. Enginn á ferli og hann staðnæmist stundarkorn undir götulukt eins og hann hrylli við að halda lengra inní nóttina. Maðurinn heitir Jónas Hallgrímsson og hann muldrar: "Breiðir kvöldið blíða/ bláan yfir sjáinn/ ljósa blæju." Um leið og hann segir "blæju", slítur hann sig frá ljósinu, gengur hratt af stað og staðnæmist ekki fyrr en við St. Pedersstræde 140, opnar hurð og fer inn. "Hvaðan kemur allt þetta myrkur," segir hann hátt við sjálfan sig og byrjar að fikra sig upp stigann. "Mér er borgið ef ég kemst upp á fyrsta stigapallinn," hugsar skáldið. En það er koldimmt, tröppurnar eru brattar, vínið gerir Jónas óstöðugan og skyndilega misstígur hann sig, svo herfilega að hægri fótur gengur úr liði um vinstri ökkla og ökklabeinin þverbrotna. Skáldið nær að krafla sig upp á stigapallinn, strýkur niður eftir vinstri fæti: "Svona enda þá mínir dagar," nær hann að hugsa áður en sársaukinn tekur öll orð frá honum. Fimm dögum síðar er Jónas Hallgrímsson allur, 37 ára gamall.

aupmannahöfn í marsmánuði, 149 árum síðar. Ég stend fyrir framan St. Pedersstræde 22. Við hurðina er lítið blátt skilti með gamla númerinu - 140. Ég lít upp fyrir mig og les á skjöldinn sem er á milli glugga á annarri hæð hússins: Den Islandske Digter Jónas Hallgrímsson/ Født Paa Gaarden Hraun I Öxnadal/ 19. november 1807/ Død I København/ 26. maj 1845/ Havde Her Sin Sidste Bolig."

Dracula, Tinni og dönsk hjól

St. Pedersstæde er ein af þessum gömlu heillandi götum Kaupmannahafnar þar sem litfögur öldruð hús horfast í augu. Á móti "Jónasar-húsinu" er verslun sem selur Tinnavörur og pizzustaður með "himneskar pizzur". Í húsi númer 20 er hárgreiðslustofa og kaffihús en bókaverslunin í húsi númer 18, sérhæfir sig í djörfum teiknimyndasögum og hrollvekjum. Ef manni verður á að skotra augum inn um glerið sér maður hvar líkan af Dracula teygir sig í átt að gangstéttinni; eins og hann vilji hremma þá sem fara hjá. En ég skipti mér ekkert af Dracula, sé bara Pétursstræti 22; Jónasarhúsið.

Á fyrstu hæðinni er hjólreiðaverslunin Sögreni. Danskara getur það ekki verið, hugsa ég þegar ég lýk upp dyrum verslunarinnar. Inni spilar danska ríkisútvarpið Bach og á veggnum er plakat af páfa þar em hann skoðar hjól. Ég kynni mig fyrir glaðlegum manni, sem er ekki miklu eldri en 37 ára. Það reynist sjálfur direktørinn, Søren Gregers Nielsen. Kannast hann við Jónas Hallgrímsson: "Nei, bara ekki neitt," segir Nielsen og kemur með hvíta kaffikönnu og bolla. The Beatles er hripað á könnuna með svörtum tússi. "Ég veit bara að hann er frægur hjá ykkur Íslendingum og maður sér oft hóp af fólki hér fyrir utan, bendandi á skjöldinn. Þú ættir að tala við hana Ingu gömlu sem býr á annarri hæðinni. Hún hefur búið hér í óratíma." Nielsen fer með mig í bakherbergið, opnar þar dyr og bendir inn í hálf-rökkvaðan gang: "Vittu bara hvort hún sé ekki heima." Svo er hann rokinn til að aðstoða viðskiptavin, en ég stíg inn í ganginn og hurðin skellur á eftir mér. Gráleit dagsbirtan kemur brotin gegnum glugga og sýnir tröppurnar sem brutu fót skáldsins.

"Sådan så han ud"

Inga Pfeiffer hefur búið í húsinu í rúm fjörutíu ár og var eigandi þess frá 1951 til 1982. Hún segir að íslenska skáldið hafi hrasað í tröppunum á fyrstu hæðinni, en veit ekki hvernig hann fór að því, svona ungur maður. Datt helst í hug að hann hafi fengið sér "en lille for meget". Ég dró Jónasar útgáfu Helgafells frá 1947 upp úr tösku minni og sýni konunni mynd af skáldinu. "Sådan så han ut," segir hún og virðir fyrir sér manninn sem gerði húsið hennar ódauðlegt á Íslandi. Hún strýkur yfir myndina, rétti mér bókina: "Heitir hún ekki Vigdís, forsetinn ykkar?" Jú, segi ég, þú kannast við hana? "Ójá, ég á ferðabók um Ísland. Mig hefur alltaf langað að sjá landið þitt, en er nú orðin of gömul til að leggja í slíkt ferðalag." Við þegjum stundarkorn. Ég sting bókinni í töskuna og hún grípur mig löngunin, að eiga hundrað myndir af Íslandi til að gefa þessari dönsku konu. Hm, segi ég, hérna, hann Jónas Hallgrímsson bjó víst á þriðju hæð, fyrir ofan þig. Inga lifnar við: "Nú búa þau Niels og Rikke þar. Þau keyptu húsið af mér. Afskaplega duglegt og indælt fólk. Já, þú skalt tala við þau, þau vita miklu meira um húsið en ég, þó ung séu."

"Hann hengdi sig, ekki satt?"

Ég kný dyra á þriðju hæð. Niels Sigsgaard opnar og ég kynni mig. "Þú þiggur bjór," segir hann og nær í Tuborg Classic fyrir mig, Calsberg fyrir sig. Við setjumst niður með bjórana. Sigsgaard bendir upp fyrir sig: "Hérna hefur krókurinn kannski verið." Ég hvái. "Hann hengdi sig, ekki satt?" Ha, hvar hefur þú heyrt það? spyr ég hissa. "Ja, þetta heyrðum við," útskýrir Sigsgaard "þegar við fluttum inn í húsið, að Jónas Hallgrímsson hafi hrasað í tröppunum og síðan hengt sig." Þetta er mögnuð saga segi ég og bæti við: En illilega hefur verið logið að Íslendingum sé hún sönn. Hann var fluttur héðan á Fredriksspítalann, með opið beinbrot, en banameinið var lungnabólga.

Þau hjónin hafa kynnt sér sögu hússins vel og þekkja til skáldsins sem bjó þar fyrir öllum þessum árum. Sigsgaard hefur flett upp á Jónasi í alfræðiritum, þekkir til Fjölnis og hlutverks þeirra manna í þjóðernisbaráttunni. "Ég hef því miður ekki lesið mikið eftir Jónas, en hef heyrt að hann hafi drukkið mikið," segir Sigsgaard varlega, eins og hann hræðist að ég fyrtist fyrir hönd Íslendinga. Jú,jú, hann gat víst drukkið hressilega, segi ég og fálma eftir bjórnum eins og til að leggja áherslu á fullyrðingu mína. "Það var nú nefnilega þannig," segir Sigsgaard "að árið 1845 var eigandi hússins brennivínsbruggari. Mér fannst það eitthvað svo við hæfi miðað við það sem ég hef heyrt af honum Jónasi. Þó eflaust séu þær sögur ýktar."

Í því kemur Rikke Hansen niður til okkar. Hún heldur á tíu daga gömlu stúlkubarni. Sigsgaard ljómar í framan þegar mæðgurnar koma. Ég óska þeim til hamingju. "Hún heitir Freyja," segir Rikke Hansen, lítur á manninn sinn og spyr hvort hann hafi sýnt mér samantektina um Jónas. Nei, því hafði hann alveg gleymt. Hún krýpur niður við eina hilluna og dregur fram þunnt rit: En Montage om: Jónas Hallgrímsson, 1807­1845. "Það var vinur foreldra minna sem gaf okkur þetta þegar við keyptum húsið," útskýrir Rikke Hansen. Ég fletti ritinu, les ljósrit úr Íslandssögu Jónasar frá Hriflu og Island, Streiflys over land og folk frá 1917: ". . . han døde ensom og stakkels í København med sit Hjærte fuld af Længsel eftir det Folk, han vilde vække. Ensom - som saa mangen Islænding. Som han selv skrev:

Ingen begræder en islandsk Mand,

der ligger og dør i sin Hule.

Er han krepperet, kysse han kan

Jorden i sin kule."

Ég legg samantektina frá mér. Hjónin horfa á mig, barnið sefur í faðmi konunnar og veit varla að ég er til. Þetta var nú varla svona slæmt hjá honum, segi ég hálf afsakandi og reyni að sannfæra þau um að Jónas hafi kunnað að brosa. Freyja rumskar við rödd mína og ég vil ekki trufla eigendur Jónasar-hússins frekar. Kveð, geng niður tröppurnar og staðnæmist þar sem Jónas á að hafa hrasað. Einungis 37 ára gamall. Eitt augnablik myrkvast borgin og sársaukinn tekur orðin frá mér.

Morgunlaðið/Einar Falur

Pétursstræti 22 í Kaupmannahöfn er húsið til vinstri. Þarna var síðasti bústaður Jónasar Hallgrímssonar.

Frægasti stigi í íslenskum bókmenntum? Stiginn upp á fyrstu hæð, þar sem Jónas missteig sig og fótbrotnaði aðfaranótt 21. maí 1845.

Søren Gregers Nielsen rekur reiðhjólaverkstæði á jarðhæðinni: "Veit bara að hann er frægur hjá ykkur Íslendingum."

Inga Pfeiffer hefur búið í húsinu í rúm fjörutíu ár og segir að íslenska skáldið hafi hrasað í tröppunum á fyrstu hæðinni.

Morgunblaðið/Jón Stefánsson

Þarna bjó Jónas Hallgrímsson fyrir 149 árum. Tölvan hefur leyst skáldapennann af hólmi.

Morgunblaðið/Jón Stefánsson

Niels Sigsgaard og Rikke Hansen hafa kynnt sér sögu skáldsins sem bjó í íbúðinni þeirra.