General Motors hefur smíðað vænlegan rafbíl BÍLAÁHUGAMENN hafa ekki verið mjög spenntir fyrir rafbílum fram að þessu en ef til vill verður breytinga þar á þegar nýr rafbíll frá General Motors kemur á götuna.

General Motors hefur smíðað vænlegan rafbíl

BÍLAÁHUGAMENN hafa ekki verið mjög spenntir fyrir rafbílum fram að þessu en ef til vill verður breytinga þar á þegar nýr rafbíll frá General Motors kemur á götuna. Mikið kapphlaup er hafið á meðal bandarískra framleiðenda um að smíða rafbíl sem einhver vildi kaupa en það er ströng megunarvarnareglugerð í Kaliforníu sem er hvatinn að kapphlaupinu. 1998 verður a.m.k. 2% af heildarbílasölu allra stærri bílaframleiðendanna að vera í formi mengunarlausra bíla sem þýðir að GM þarf að selja 6.600 rafbíla það ár..

Viðbrögð flestra bílaframleiðenda hafa verið að breyta bíl sem þegar hefur verið framleiddur í rafbíl. Ford er t.a.m. að smíða Ecostar sem áður hét Aerostar og Chrysler er að hanna TEVan sem er breyttur Dodge Caravan.

Viðbrögð GM hafa á hinn bóginn í grundvallaratriðum verið önnur. Tveggja sæta hugmyndabíllinn Impact vakti verulega athygli á bílasýningunni í Los Angeles 1990 og á grunni hans ákvað fyrirtækið að byggja alveg nýjan rafbíl. Í vor eru væntanlegir á götuna 50 Impact reynslubílar og er ætlunin með smíði þeirra að gera prófanir á ýmsum hlutum bílsins og meta viðbrögð væntanlegra kaupenda. Bílunum verður dreift til sérvalinna fyrirtækja og GM mun velja þá úr sem koma til með að nota þá.

Grindin er úr áli en yfirbyggingin er nútímalega hönnuð úr sérstöku plastefni með lágu loftviðnámi. Bíllinn er með 137 hestafla rafvél sem knýr framjólin með einum gír áfram og einum afturábak. Hemlabúnaður er með þeim hætti að þegar hemlað er nýtist orkan frá því sem rafhleðsla inn á rafgeymana. Bíllinn vegur 1.308 kg, þar af vega blý-sýru-rafhlöðusamstæðan 495 kg. Rafhlöðurnar sem eru 27 talsins eru staðsettar í stokki á milli sætanna.

150 km drægi

GM hefur þegar smíðað 12 Impact-bíla en meginmarkmiðið með smíðinni var að búa til rafbíl sem væri skemmtilegur í akstri. Clive Roberts, hönnuður hjá Lotus, var fenginn að láni til að hanna rafbílinn og nær hann 100 km hraða á innan við 10 sekúndum. Hámarkshraðinn er 136 km á klst. GM hefur lýst því yfir að í prófunum hafi tekist að aka Impact 150 km á einni rafhleðslu og notar bíllinn um 80% af hleðslu rafgeymanna. GM varar við því að við endurtekna ofnotkun á rafhleðslum undir 20% styttist líftími rafgeymanna en það mun kosta á milli 1.500 og 2.000 dollara, 108-144 þúsund ÍSK, að skipta um rafgeyma í bílnum. GM hefur afráðið að láta reynsluaka bílunum í fjögur ár, um 32.000 til 48 þúsund km með um 1.000 endurhleðslum.

Hann verður ekki gefins Impact rafbíllinn en GM vonast til að geta náð verðinu niður í 24 þúsund bandaríkjadali, rúma 1,7 milljón ÍSK, en með aflagningu opinberra gjalda og öðru slíku sem ríkið fær í sinn hlut gæti verðið komist niður í 17.500 bandaríkjadali, 1.260.000 ÍSK.

Hann er sæmilega rennilegur tveggja sæta Impact-rafbíllinn frá GM en hann verður prófaður í fjögur ár áður en frekari ákvarðanir um framtíð hans verða teknar.

Bíllinn er hinn snotrasti að innan, bogadregið mælaborð og rafgeymarnir í stokk á milli sætanna.