Gott er um öruggt að búa essi sjálfsagða speki Elísar eða Rósamundu riddarasagnanna hefur býsna oft skotið upp kollinum yfir fréttunum síðustu viku, þá er hefjast frásagnir af ósköpunum í landinu Rúanda í Afríku suður. Þar hefur nú upp úr soðið.

Gott er um öruggt að búa essi sjálfsagða speki Elísar eða Rósamundu riddarasagnanna hefur býsna oft skotið upp kollinum yfir fréttunum síðustu viku, þá er hefjast frásagnir af ósköpunum í landinu Rúanda í Afríku suður. Þar hefur nú upp úr soðið. Lokið lyfst af þrýstipottinum og við sjáum og heyrum um hvernig fólkið er saxað niður af stríðandi ættflokkum, börn, sjúklingar og nunnur. Jafnvel það ætti ekki að koma svo mjög á óvart. Þetta er yfirvofandi eða verður það af og til í flestum Afríkuríkjum. Fyrir tveimur árum var ég einmitt stödd í einu þeirra þegar sauð og kraumaði með barsmíðum, pyndingum og brenndum skólum, áður en sjatnaði aftur fyrir harkalega íhlutun hers og lögreglu. Samtímis var þá verið að bjarga hvíta fólkinu út úr nágrannalandinu Zaire (líka nágrannalandi Rúanda). Þá sem nú fjölluðu fréttirnar sem út bárust um heiminn býsna mikið um útlendingana sem bjarga þyrfti og var verið að bjarga úr landinu. Þetta leiddi hugann þá sem nú að því hve lifandis skelfing við erum heppin að eiga slíkar hremmingar ekki sífellt yfir höfði okkar hér norður á þessari óherskáu eyju. Að gott er hér við öryggi að búa. Metum við þá nokkuð þetta öryggi? Aldrei heyrast þeir sem ráða sig fyrir stóran pening og stundum skattleysi til þessara landa, þar sem hér sé illa líft á lágum launum, nefna þá áhættu sem fylgir kauphækkuninni suður þar. Reikna sjálfsagt með að verða bjargað eins og öðru hvítu fólki - af björgunarliði stórþjóðanna. Auðvitað fórum við að venju fyrir alvöru að frétta af ósköpunum í Rúanda þegar farið var að bjarga hvítu fólki úr landi. Þær fregnir vega býsna þungt í umfjölluninni.

Á þessum slóðum og raunar í öllum Afríkuríkjunum sunnan Sahara og upp af Guineu-flóa er þetta sama að gerast. Þar kraumar ólga og nálgast tímamót. Svo skrýtið sem það kann að virðast, þá hefur hættan af þessu tagi vaxið fyrir áhrif af breyttri Evrópu með meðfylgjandi viðhorfsbreytingu stórveldanna til einræðisherra. Upphaflega voru þeir flestir frelsishetjurnar, sem með hugsjónaeldi ætluðu sér að fengnu frelsi sæti meðal lýðræðisþjóða. Andspænis erfiðleikunum smáhertu þessir menn svo tökin og urðu annaðhvort einræðisherrar sem ekki fundu sig örugga nema styðjast við her og lögreglu úr sínum eigin ættflokki eða urðu höfðinu styttri. Þannig hefur þetta verið í flestum löndunum. Nú þegar frjálsari vindar blása um Evrópu og stórveldin eru hætt að senda þeim vopn og heri hefur víðast aðeins losnað um lokið og sýður upp úr með miklu gosi. Úr nágrannalöndum Rúanda eru sovésku hersveitirnar t.d. horfnar frá Kongó, Kúbumenn farnir frá Angola og Bandaríkjamenn þá ekkert tilkippilegir til varnar Zaire o.s.frv. Einræðisherrarnir hætta þá gjarnan á að losa aðeins um til að missa ekki frekari aðstoð og lán frá lýðræðisþjóðunum sem ekki finna sig jafn skítpliktugar til að ansa kvabbinu eftir að keppinautarnir eru horfnir af vettvangi. Þá er hætt við að lokið springi af pottinum og uppreisn nái sér á strik með yfirvofandi allri þeirri grimmd sem skapast hefur meðan enginn mátti sig hræra.

Við þessar fréttir rifjaðist nú upp fyrir mér þetta merkilega fyrirbrygði sem alltaf er að skjóta upp kollinum, "björgun útlendinga", og það sem að baki býr. Þetta er heil sérgrein, sem byggist á hreyfanlegum björgunarsveitum. Að þær eru til taks sýnir einmitt betur en nokkuð annað hve víða þessi hætta er fyrir hendi. Gömlu nýlenduþjóðirnar, sem eiga marga þegna sína í þessum löndum, eru alltaf í viðbragðsstöðu rétt eins og björgunarsveitirnar okkar til að bjarga fólki á fjöllum þegar skyndilega skellur á óveður. Það er í rauninni merkilegt að upplifa slíkt ástand. Fulltrúar viðkomandi lands hafa hlustunarbúnað til að fylgjast með því sem er að gerast hjá her og lögreglu einræðislandsins og spá í hvenær hætta sé á uppreisn. Skipulagt er hvert útlendingur eigi að koma sér með fjölskyldu sína ef upp úr sýður og í nálægu landi bíður fallhlífasveit hermanna heimalandsins til að koma í skyndingu og bjarga þeim þaðan. Einfalt er það ekki? En það er undir stjórn sérhæfðs fólks, sem oft hefur verið sent til að bjarga löndum sínum í Afríkuríkjum eða Suður-Ameríkuríkjum. Rétt er að taka fram að sjálf var ég í öryggi og ekki í hættu. En nálægðin við slíka yfirvofandi allsherjaruppreisn, sem í landi kynþáttabaráttu og undirokunar verður svona grimmileg, færir allar slíkar fréttir nær. Þótt öðrum löndum mínum kunni að finnast þetta langsóttar áhyggjur sakar það okkur kannski ekki í öllu kvartinu og kveininu, að vita að öryggi fyrir sig og sína getur verið nokkurra skildinga virði.

Rifjar upp gamla þjóðlega viðlagið, sem lengi hefur búið með þessari þjóð:

Mínar eru sorgirnar

þungar sem blý.

Brunnar eru borgirnar,

böl er að því.