Hrannvíg á hrannvíg ofan eftir Boga Arason LÍKIN hafa hrannast upp á götum Kigali og fleiri stöðum í Mið-Afríkuríkinu Rúanda frá því forseti landsins beið bana þegar flugvél hans var skotin niður 6. þessa mánaðar.

Hrannvíg á hrannvíg ofan eftir Boga Arason

LÍKIN hafa hrannast upp á götum Kigali og fleiri stöðum í Mið-Afríkuríkinu Rúanda frá því forseti landsins beið bana þegar flugvél hans var skotin niður 6. þessa mánaðar. Tugþúsundir manna hafa fallið, þeirra á meðal ráðherrar, börn og sjúklingar á sjúkrahúsum, nunnur og prestar, friðargæsluliðar og starfsmenn hjálparstofnana og venjulegir Rúandabúar, jafnt Hútúar sem Tútsar. Þessir ættbálkar hafa átt í illdeilum í hartnær 500 ár og hrannvígin að undanförnu eru ekki þau fyrstu í sögu landsins og líklega ekki þau síðustu.

útsar komu fyrst á landsvæðið á 15. öld frá norðausturhluta Afríku, eða Eþíópíu, enda eru þeir hávaxnir og ljósari yfirlitum en Hútúar. Þótt þeir væru miklir bardagamenn lögðu þeir landsvæði Hútúa undir sig smám saman án mikilla blóðsúthellinga. Þeir stunduðu nautgriparækt og byggðu upp eins konar lénsskipulag sem átti engan sinn líka í Afríku nema í Eþíópíu. Þeir komu upp flóknu valdakerfi, þar sem konungurinn var æðstur og dýrkaður sem guð.

Segja má að Hútúar, sem eru um 85% landsmanna, hafi verið þrælar Tútsa á þessum tíma. Höfðingjar Tútsa úthlutuðu landskikum til Hútúa, sem urðu í staðinn að vinna fyrir þá. Fyrirlitningin á þrælunum jókst smám saman uns svo var komið að þeir voru ekki lengur taldir til manna. Tútsum var til að mynda bannað að borða sama mat og Hútúar því hann var sagður saurgaður.

Hútúar rísa upp

Rúanda var þýskt verndarsvæði á árunum 1899-1916 og síðan hluti af Rúanda-Úrúndí sem Belgar stjórnuðu í umboði Þjóðabandalagsins og síðar Sameinuðu þjóðanna. Tútsar, sem eru um 10% landsmanna, héldu áfram að undiroka Hútúa á nýlendutímanum til ársins 1959 þegar konungurinn lést án arftaka og mannskæðar óeirðir blossuðu upp. Hútúar lýstu yfir stofnun lýðveldis árið 1961 og landið öðlaðist sjálfstæði formlega ári síðar.

Hútúinn Gregoire Kayibanda varð fyrsti forseti Rúanda árið 1962. Mikil spenna var þó enn milli ættbálkanna og blóðug átök blossuðu upp aftur ári síðar og aftur árið 1972. Talið er að 100.000 manns hið minnsta hafi fallið í átökunum á þessum tíma.

Einræðisherra skapar héraðaríg

Juvenal Habyarimana, þá ráðherra her- og lögreglumála, tók völdin í sínar hendur árið 1973 og setti forsetann í stofufangelsi. Hann bannaði starfsemi stjórnmálaflokka en tveimur árum síðar stofnaði hann flokk, sem var alráður í tæpa tvo áratugi.

Habyarimana flækti stjórnmál Rúanda frekar með því að skapa landshlutadeilur ofan á ættbálkaerjurnar. Habyarimana var frá norðurhluta landsins, Gisenyi-héraði, og skipaði aðallega menn frá þeim hluta í stjórn sína. Árið 1985 var baráttan milli landshlutanna orðin stærra vandamál en ættbálkaerjurnar þótt ekki kæmi til blóðsúthellinga.

Tútsar knýja fram umbætur

Friðurinn var þó úti árið 1990 þegar 10.000 uppreisnarmenn í Föðurlandsfylkingingu Rúanda (RPF) gerðu innrás í landið frá nágrannaríkinu Úganda. Fylkingin er aðallega skipuð Tútsum.

Innrásin varð til þess að Habyarimana sá sig knúinn til að fallast á stjórnmálaumbætur. Fyrstu fjölflokkakosningarnar fóru fram árið 1992 og ný lög tóku gildi sem kváðu á um að forseti og forsætisráðherra skyldu deila með sér völdunum. Spennan milli ættbálkanna magnaðist þó aftur í fyrra, meðal annars vegna efnahagskreppu í kjölfar þess að verð á kaffi, helstu tekjulind landsins, hrundi á heimsmarkaði.

Forsætisráðherrann, Dismas Nsengiyaremye, Tútsi, sakaði stuðningsmenn Habyarimana um að hafa myrt 350 Tútsa. Á sama tíma átti stjórnarherinn undir högg að sækja í stríðinu gegn uppreisnarmönnunum, sem voru komnir um 50 km frá höfuðborginni. Samt naut stjórnarherinn stuðnings franskra hermanna.

Habyarimana neyddist til að semja um frið við uppreisnarmennina í ágúst í fyrra og féllst á að þeir fengju aðild að bráðabirgðastjórn og boðað yrði til nýrra kosninga. Uppreisnarmennirnir sökuðu hann síðar um að hafa svikið samninginn með því að fresta framkvæmd hans. Mynda átti stjórnina í september en valdabarátta stjórnmálamannanna varð til þess að ekki náðist samkomulag um skiptingu ráðuneyta.

Hútúar drepa Hútúa

Hútúar eru í miklum meirihluta í hernum og hermenn úr þeirra röðum gengu berserksgang um götur Kigali til að hefna drápsins á Habyarimana forseta 6. apríl. Þeir myrtu aðallega Tútsa, meðal annars Agethe Uwilingiyimana, þá nýskipaðan forsætisráðherra, sem hafði leitað skjóls í húsnæði Sameinuðu þjóðanna í borginni.

Hermennirnir létu heift sína ekki aðeins bitna á Tútsum því þeir eru einnig sagðir hafa drepið Hútúa úr flokkum, sem voru andvígir Habyarimana, og Hútúa frá öðrum landshlutum en heimahéraði forsetans fyrrverandi.

Uppreisnarforinginn Hútúi

Þótt Tútsar séu í miklum meirihluta í Föðurlandsfylkingu Rúanda er leiðtogi hennar, Alexis Kanyarengwe, Hútúi. Hreyfingin hóf stríðið til að binda enda á eins flokks kerfið í landinu og réðst á höfuðborgina til að koma þar á lögum og reglu, að eigin sögn. Hún berst einnig fyrir því að landflótta Rúandabúar fái að snúa aftur til landsins. Tugþúsundir Rúandabúa hafa flúið til nágrannaríkjanna vegna átakanna undanfarna áratugi.

Kanyarengwe er 57 ára gamall og var nemandi Habyarimana í herforingjaskóla Rúanda. Hann tók þátt í valdaráni Habyarimana, sem gerði hann að innanríkisráðherra. Þeim sinnaðist árið 1980 og Kanyarengwe flúði til Tanzaníu.

"Ég er Hútúi ­ en þetta er ekki ættbálkastríð," segir Kanyarengwe. "Þetta er stríð gegn einræði."

Flest bendir til þess að Kanyarengwe og félagar hans nái brátt völdunum í landinu og fái tækifæri til að sýna hvort þeir geti bundið enda á ættbálkaerjurnar. Í ljósi sögunnar síðasta hálfa árþúsundið getur varla talist ástæða til mikillar bjartsýni.

Rúandabúar bíða eftir matvælum frá hjálparstofnun í Kigali. Rúanda er eitt fátækasta land heims og hætta er á hungursneyð þar vegna óaldarinnar að undanförnu.

Alexis Kanyarengwe, leiðtogi uppreisnarhreyfingarinnar í Rúanda, er Hútúi þótt flestir félaganna séu Tútsar.