KVIKMYNDIR/SAMBÍÓIN hafa tekið til sýninga nýjustu kvikmynd leikstjórans Peters Weir, Fearless. Aðalhlutverkin í Fearless leika þau Jeff Bridges, Isabella Rosselini og Rosie Perez, en fyrir leik sinn var hún tilnefnd til óskarsverðlauna.

KVIKMYNDIR/SAMBÍÓIN hafa tekið til sýninga nýjustu kvikmynd leikstjórans Peters Weir, Fearless. Aðalhlutverkin í Fearless leika þau Jeff Bridges, Isabella Rosselini og Rosie Perez, en fyrir leik sinn var hún tilnefnd til óskarsverðlauna.

Að ná tökum

á tilverunni

Eftir Hall Þorsteinsson

MAX Klein (Jeff Bridges) er arkitekt í San Francisco og honum gengur allt í haginn þegar starfið er annars vegar. Ásamt gamalgrónum vini sínum og samstarfsmanni heldur Max með flugvél áleiðis til Houston, en þaðan hyggjast þeir félagarnir snúa til baka með verkefnasamning sem gefur vel í aðra hönd. Meðal annarra farþega í flugvélinni er Carla (Rosie Perez) ásamt ungum syni sínum, en þau er á leiðinni í frí sem þau hyggjast njóta út í ystu æsar. En allt fer á annan veg. Bilun verður í einum hreyfli flugvélarinnar og þegar hún byrjar að missa hæð verður farþegunum ljóst að þeir standa augliti til auglitis við dauðann.

ax sem alltaf hefur verið flughræddur verður í fyrstu skelfingu lostinn en svo skyndilega fyllist hann undarlegum friði. Hann stendur í fyrsta sinn í lífinu frammi fyrir skelfingu sem hann getur horfst í augu við og á þeirri stundu sem honum verður það ljóst verður hann gagntekinn fullkominni sálarró. Hann rís úr sæti sínu og hlynnir að öðrum farþegum, og eftir að flugvélin hefur brotlent kemur hann mörgum þeirra sem lifað hafa flugslysið af í öruggt skjól. Carla er ekki jafn heppin. Þegar flugvélin skellur á jörðina missir hún son sinn úr fanginu og þegar hún er borin frá rjúkandi flugvélarflakinu verður það eftir sem henni er kærast. Svipaða sögu er að segja um Max, en vinur hans lætur lífið í flugslysinu. Þremur mánuðum síðar hafa hvorki Max né Carla getað tjáð sig á eðlilegan hátt um þennan ógnvænlega dag þegar hann missti besta vin sinn og hún barnið sitt.

Max er ófús til að hverfa úr því algleymi frelsisins sem hann upplifði í flugslysinu, og hefur hann orðið fráhverfur Lauru (Isabella Rosselini) eiginkonu sinni og syni vegna hugmyndarinnar um eigin ódauðleika. Sjúklegur stjarfi hefur aftur á móti náð tökum á Cörlu í sorg hennar og veldur það eiginmanni hennar bæði ótta og undrun. Í örvæntingu sinni leiðir Bill Perlman (John Torturro) sálfræðingur flugfélagsins þessa tvo einstaklinga saman, en undir venjulegum kringumstæðum hefðu leiðir þeirra annars aldrei legið saman. Annar þeirra býr yfir meiri lífskrafti en nokkru sinni fyrr, en hinn er tilfinningalega dofinn vegna sektartilfinningar og óbærilegs sársauka. Í skilningsvana veröld bindast þau Max og Carla hins vegar traustum böndum sem þróast smátt og smátt í það að verða frelsandi og djúpstæð andleg vinátta, en spurningin er hvort þessir einstaklingar sem borið hafa sigurorð af dauðanum geta náð tökum á tilverunni.

Sjúklega flughræddur

Kvikmyndin Fearless er gerð eftir samnefndri skáldsögu rithöfundarins Rafael Yglesias, en hann gerði jafnframt handritið að myndinni og er það fyrsta kvikmyndahandrit hans. Yglesias er fæddur í New York og eru foreldrar hans, Helen og Jose, virtir rithöfundar í Bandaríkjunum. Hann var aðeins sextán ára gamall þegar fyrsta skáldsaga hans var gefin út árið 1972, en hún byggðist að nokkru leyti á endurminningum hans um eigin uppvaxtarár. Síðan hafa komið út eftir hann sex aðrar skáldsögur sem allar hafa fengið góðar viðtökur. Yglesias er haldinn sjúklegri flughræðslu og af þeim sökum hefur hann ískyggilegan áhuga á öllu sem tengist flugslysum og um langt skeið hefur hann lesið allt sem hann hefur komist yfir um slíka harmleiki. "Ég hef alltaf reynt að ímynda mér hverjar tilfinningar farþega og áhafnar hafa verið á tímabilinu frá því þeim verður fyrst ljóst að við vanda væri að etja og til þeirrar stundar er flugvélin brotlendir. Dauðinn er í sjálfu sér tilviljanakenndur og það er mjög erfitt að standa frammi fyrir honum. Í þeim skilningi fjallar Fearless um það að komast af, um sektartilfinninguna og tilraunina til að fá vit í eitthvað sem í raun og veru er engin vitglóra í: hvers vegna lifði ég af en ekki þau?," segir Yglesias.

Vinsæll en vanmetinn

Jeff Bridges hefur að margra áliti verið frekar vanmetinn leikari þrátt fyrir að hann hafi leikið í nokkrum fjölda kvikmynda sem náð hafa miklum vinsældum. Hann hefur oft þótt sýna stjörnuleik, og nægir þar til dæmis að nefna frammistöðu hans í myndinni The Fisher King og síðast í The Vanishing. Leikaranum hefur þó hlotnast ýmis heiður þrátt fyrir að hann hafi aldrei hlotið hin eftirsóttu óskarverðlaun, en hann hefur hins vegar þrisvar sinnum verið tilnefndur til verðlaunanna fyrir leik sinn. Jeff er sonur leikarans Lloyd Bridges og var hann aðeins fjögurra ára gamall þegar hann fór með fyrsta hlutverk sitt í kvikmynd, en síðan hefur hann leikið í aragrúa kvikmynda.

Konurnar

Hin lágvaxna Rosie Perez fór með fyrsta kvikmyndahlutverk sitt í mynd Spike Lee, Do The Right Thing, en sennilega hafa gestir kvikmyndahúsanna fyrst veitt henni verulega athygli þegar hún lék á móti Woody Harrelson í myndinni White Men Can't Jump. Núna er hún hins vegar flestum kunnug því fyrir hlutverk sitt í Fearless var hún tilnefnd til óskarsverðlauna fyrir bestan leik í aukahlutverki. Skömmu áður en hún lék í Fearless fór hún með hlutverk í myndinni Untaimed Heart þar sem hún lék með Christian Slater og Marisu Tomei. Rosie kemur úr hópi ellefu systkina sem ólust upp í Brooklyn í New York, en hún fluttist hins vegar til Los Angeles til að stunda menntaskólanám. Dans varð henni snemma hugleikinn og í Los Angeles kom hún fram með danshópum um skeið þar til hún var beðin um að semja dans fyrir nokkra tónlistarmenn. Hún hefur samið dansa fyrir sýningar, hljómleikaferðalög og myndbönd fyrir listamenn á borð við Diönu Ross, The Boys, LL Cool og fleiri. Auk þess að leggja stund á leiklist hefur Rosie svo verið með blúshljómsveitina 5 A.M. á sínum snærum, en hún er eingöngu skipuð konum.

Isabella Rosselini á að baki feril í kvikmyndum frá árinu 1979. Hún er dóttir sænsku leikkonunnar Ingrid Bergman og ítalska leikstjórans Roberto Rossellini, og í æsku var hún á sífelldum þeytingi á milli þeirra, en móðir hennar bjó lengst af í París en faðir hennar í Róm. Þegar Isabella varð tvítug fluttist hún til New York til að ljúka menntaskólanámi, en þar gerðist hún síðan túlkur og pistlahöfundur fyrir ítalska ríkissjónvarpið. Hún öðlaðist mikla frægð þegar hún varð ein helsta fyrirsæta fyrir Lancome snyrtivörufyrirtækið, en um langt skeið prýddu myndir af henni forsíður allra helstu tímarita heims. Meðal kvikmynda sem Isabella hefur leikið í eru White Nights, Blue Velvet, Tough Guys Don't Dance, Wild at Heart og Death Becomes Her, og þá hefur hún nýlega lokið við að leika á móti Anthony Hopkins í nýjustu mynd Johns Schlesinger, The Innocents.

Hetja

HINN flughræddi Max Klein (Jeff Bridges) sigrast á ótta sínum og verður hetja í flugslysi sem hann lendir í.

Óttalaus

Á örlagastundu verður Max gagntekinn fullkominni sálarró.

Nálgun

MAX og Carla (Rosie Perez) bindast traustum böndum sem þróast í að verða frelsandi og andleg vinátta.