Könnuður hins torskilda ÁSTRALSKI leikstjórinn Peter Weir hefur í kvikmyndum sínum í tæplega tuttugu ár fengist við að kanna ýmsa illskiljanlega þætti í mannlegu eðli, og þá hefur hann gjarnan fjallað um dulspekilega hluti eða þekkingu sem á rætur sínar í...

Könnuður hins torskilda

ÁSTRALSKI leikstjórinn Peter Weir hefur í kvikmyndum sínum í tæplega tuttugu ár fengist við að kanna ýmsa illskiljanlega þætti í mannlegu eðli, og þá hefur hann gjarnan fjallað um dulspekilega hluti eða þekkingu sem á rætur sínar í forneskju í árekstri við heimsmynd nútímans. Tilvera hins frumstæða og torskilda þrátt fyrir allar tilraunir til að fella það undir lögmál skynseminnar er því gjarnan yrkisefni hans.

vað Fearless varðar segir hann að við undirbúning myndarinnar hafi hann mjög rekist á umfjallanir skálda um sérkennilegt ástand þegar einskonar aðskilnaður verður milli sálar og líkama, og viðkomandi verði í framhaldi af því að ígrunda tilveru sína með ákveðnu æðruleysi. Í myndinni upplifi Max eitthvað í líkingu við þetta og flugslysið verði til þess að þurrka út ótta hans við dauðann. Þetta kunni að vera eftirsóknarvert ástand á vissan hátt, en hættan sé hins vegar sú að þetta einangri viðkomandi frá öðrum þar sem afleiðingin geti orðið tilfinningaleysi á nánast öllum sviðum.

Peter Weir gerði sína fyrstu kvikmynd árið 1974, en það var Picnic at Hanging Rock, sem fjallaði um dularfullt hvarf skólastúlkna á ferðalagi á helgistað frumbyggja í Ástralíu. Dulfræði frumbyggjanna var honum aftur yrkisefni í kvikmyndinni The Last Wave sem hann gerði 1977. Gallipoli sem hann gerði 1981 sópaði svo til sín verðlaunum Áströlsku kvikmyndastofnunarinnar og öðlaðist myndin geysilega aðsókn um allan heim. Tveimur árum seinna gerði Weir svo The Year of Living Dangerously með Mel Gibson, Sigourney Weaver og Lindu Hunt í aðalhlutverkum, og fékk Linda óskarsveðlaunin fyrir leik sinn í myndinni. Næst á dagskrá varð svo Witness árið 1985 með Harrison Ford í aðalhlutverki og var sú mynd tilnefnd til átta óskarsverðlauna, þar á meðal sem besta mynd ársins. Næst gerði Weir The Mosquito Coast eftir skáldsögu Paul Theroux, og því næst kom Dead Poets Society sem Weir fékk hin eftirsóttu BAFTA verðlaun fyrir auk tilnefningar til óskarsverðlauna fyrir besta handrit. Árið 1991 gerði hann svo The Green Card með Gerard Depardieu og Andie McDowell í aðalhlutverkum, en fyrir handrit sitt að myndinni var Weir einnig tilnefndur til óskarsverðlaunanna.

Virtur

PETER Weir hinn virti ástralski leikstjóri.