Renault Laguna á Íslandi síðsumars RENAULT Laguna, sem leysir Renault 21 af hólmi, er væntanlegur til Íslands um mitt sumar eða næsta haust. Sala er nýhafin á bílnum í Bretlandi og athygli vekur að hann er boðinn á mun lægra verði en sambærilegir bílar.

Renault Laguna á Íslandi síðsumars

RENAULT Laguna, sem leysir Renault 21 af hólmi, er væntanlegur til Íslands um mitt sumar eða næsta haust. Sala er nýhafin á bílnum í Bretlandi og athygli vekur að hann er boðinn á mun lægra verði en sambærilegir bílar. Bíllinn er í fjórum bensínútfærslum og einni díselútfærslu. Ekki er ljóst á hvaða verði bíllinn verður boðinn hérlendis, en Pétur Óli Pétursson forstjóri Bílaumboðsins hf., segir að Laguna verði samkeppnisfær í verði.

Í Bretlandi verður minnsta útfærslan, RN 1.8, boðinn á 10.570 pund, 1.12 milljón ÍSK, sem er 1.200 pundum lægra verð, 127.000 ÍSK, en fyrir Ford Mondeo 1.6, 580 pundum lægra en Citroen Xantia 1.6 og 425 pundum lægra en Vauxhall Cavalier.

Verðmunurinn er líka mikill í 2 lítra stærðarflokknum. Laguna RT 2.0 er boðinn á 12.275 pund í Bretlandi, rúmar 1,3 milljónir ÍSK, en ódýrasti 2 lítra Ford Mondeo er á 13.275 pund, rúmar 1,4 milljónir ÍSK, Xantia á 12.900 pund, Cavalier á 12.650 pund og Honda Accord á 13.795 pund. Mestur er verðmunurinn hins vegar á flaggskipinu, vel búnum Laguna Auto V6, 3 lítra sem kostar 18.565 pund, tæpar 2 milljónir kr., eða 2.500 pundum, 265 þúsund ÍSK, minna en sjálfskiptur 2,5 lítra V6 Vauxhall Cavalier Diplomatic.

Allir Laguna-bílarnir verða fimm dyra hlaðbakar en bíllinn verður með meira farþega- og farangursrými en Renault 21 sem hann leysir af hólmi og mun betur búnir.

Sala er nýhafin á Laguna í Bretlandi og athygli vekur að hann er boðinn á mun lægra verði en sambærilegir bílar.