SKODA - evrópski bílaframleiðandinn sem er samkeppnisfær við Japani SKODA Automobilova AS í Tékklandi var eina fyrirtækið innan Volkswagen-samsteypunnar sem skilaði hagnaði á síðasta ári.

SKODA - evrópski bílaframleiðandinn sem er samkeppnisfær við Japani

SKODA Automobilova AS í Tékklandi var eina fyrirtækið innan Volkswagen-samsteypunnar sem skilaði hagnaði á síðasta ári. VW á nú 31% í Skoda en búist er við að hlutafjáreignin verði komin yfir 50% á þessu ári og í 70% árið 1995, sem samsvarar um 59 milljörðum ÍSK. Það er vilji stjórnvalda í Tékklandi að þau 30% sem þá standa eftir verði seld hæstbjóðanda. Ferdinand Piech, stjórnarformaður VW, býst við að harður slagur verði um hlutabréf í tékknesku bílaverksmiðjunum þegar þau verða boðin út. Hann hefur sagt að Skoda sé eini evrópski bílaframleiðandinn sem geti keppt við Japani í lágum framleiðslukostnaði.

VW hafði betur í samkeppni við Renault árið 1991 um eignarhlut í Skoda-verksmiðjunum og strax næsta ár skilaði Skoda um 2,7 milljarða kr. hagnaði og er búist við að afkoman hafi verið svipuð á síðasta ári. Vinnuafl í verksmiðjunni Mlada Boleslav hefur haldist nokkuð stöðugt í 17.500 manns en salan á síðasta ári jókst um 10% og seldust alls 219.158 bílar.

Það sem háir helst framgangi Skoda er mikilvægi Favorit-bílsins í framleiðslulínu fyrirtækisins. Bíllinn var fyrst settur á markað 1987 og er búinn tékkneskum vélum. Hann er talinn þurfa nauðsynlega á nýrri vél að halda og meira aðlaðandi og öruggari yfirbyggingu. Líklega verður bætt úr því í haust þegar von er á andlitslyftum Favorit. 1995 árgerðin verður með sama þaki og hurðum en að öðru leyti verður bíllinn að mestu leyti nýr að utanverðu. Að innanverðu verður bíllinn mun þokkalegri. Í boði verða ABS-hemlar og líknarbelgur fyrir ökumann. Langbakurinn, Forman, fær andlitslyftingu í febrúar á næsta ári og pallbíllinn þremur mánuðum síðar.

Stærsta breytingin verður þó líklega sú að 1995 árgerðin verður með vélum frá VW; 1,6 lítra og 75 hestafla, 1,9 lítra díselvél sem skilar 65 hestöflum og 90 hestafla TDIvél.

Nýr bíll

Árið 1996 kynnir Skoda svo splunkunýjan bíl, A-plus. A-plus verður 4,42 sm á lengd frá stuðara til stuðara og lítið eitt rúmbetri en Seat Toledo og óþekkjanlegur frá fyrri gerðum Skoda. Hann verður framleiddur í ferna dyra og fimm dyra útfærslum líklega í nýrri verksmiðju. Hann verður með 1,6 l vélinni og hámarkshraðinn verður um 170 km á klst. Einnig er ráðgert að A-plus verði fáanlegur með 1,8 l, 115 hestafla, 2 l, 150 hestafla og 90 hestafla túrbódísel vélum.

Nýr Favorit á að líta dagsins ljós árið 1998 og gengur hann undir heitinu AO-plus. Bíllinn verður með sama undirvagni og næstu kynslóðir VW Polo, Golf, Seat Ibiza, Cordoba og smábíllinn Audi A2. Fjaðra- og drifbúnaður verður einnig úr hirslum VW samsteypunnar en nýi Skodinn fær nýja hönnun utan- sem innandyra. Búist er við að framleiðsla Skoda tvöfaldist árið 1998 þegar þessar nýju gerðir koma til sögunnar og hrundið verði af stað gífurlegu markaðsátaki í löndum Austur-Evrópu. Þá er gert ráð fyrir að aðeins um 45% af bílnum verði framleidd í verksmiðjum Skoda, annað komi frá VW.

Helsti styrkur Skoda

Tímakaup verkamanna í Mlada Boleslav er nálægt 130 kr. en verkamenn í bílaverksmiðjum VW-samsteypunnar í Þýskalandi hafa nálægt 1.430 kr. í laun á klst. Lágur launakostnaður er því helsti styrkur Skoda-verksmiðjanna í Tékklandi. Þá er það ótvíræður kostur að starfsmenn Skoda vinna að meðaltali 2.400 klst á ári en hjá þýskum starfsbræðrum þeirra eru þær 30% færri. Það er því vart að undra að framleiðslukostnaður við einn Golf sem smíðaður er í Þýskalandi er sjö sinnum hærri en við einn Favorit sem smíðaður er í Tékklandi. Forvitnilegt verður að sjá hvaða stað Ferdinand Piech og félagar velja sem framleiðslustað nýju "Bjöllunnar", Konzept I, sem frumkynnt var í Detroit í byrjun ársins.

Skoda kynnir þennan glæsilega bíl árið 1996. Hann er í sama stærðarflokki og Mondeo en lág laun í Tékklandi tryggja að bíllinn verður á lægra verði en helstu keppinautarnir.