VELFERÐ EÐA VANSÆLD Atvinnuleysi verði viðvarandi Í YFIR 20 ár hafa dönsk stjórnvöld reynt að telja þjóðinni trú um að plágan atvinnuleysi verði upprætt.

VELFERÐ EÐA VANSÆLD Atvinnuleysi verði viðvarandi

Í YFIR 20 ár hafa dönsk stjórnvöld reynt að telja þjóðinni trú um að plágan atvinnuleysi verði upprætt. Atvinnulausum hefur verið sagt að um tímabundið ástand sé að ræða og hagkvæmt sé að nýta tímann til að leita mennta, oftast í fagi viðkomandi, til að vera til reiðu þegar kallið kemur.

n allt hefur komið fyrir ekki. Aldrei hafa jafn margir verið atvinnulausir í Danmörku og nú. Ekki er því að furða að sú kenning hafi skotið upp kollinum að atvinnuleysið sé einfaldlega innbyggt í þjóðfélagsgerðinni. Meðal þeirra sem því halda fram er danski þjóðfélagsfræðingurinn Peter Johannes Schjødt og hefur hann m.a. kennt við Kaupmannahafnarháskóla. Schjødt heldur því fram í bók sinni Velferð eða vansæld (Velfærd eller ufærd 1993) að forsendur velferðarkerfis í Danmörku séu brostnar. Hvorki sé von á vaxandi veraldargæðum né launavinnu fyrir alla. Menn verða einfaldlega að gera gott úr ófyrirsjáanlegu og viðvarandi atvinnuleysi. Regin mistök séu að meðhöndla atvinnuleysi sem tímabundna erfiðleika með því að mennta fólk til starfa sem ekki eru til og verða ekki til við það eitt að fólk sé menntað til þeirra. Falskt tímabundið ástand geri fólk biturt og vansælt. Þjóðfélagsvandamálum fjölgi og eina leiðin til að skapa samhyggð og veita atvinnulausum lífsfyllingu sé að skapa þeim verkefni við hæfi. Ein hugmynd er að greiða atvinnulausum svokölluð borgaralaun fyrir að annast ýmiss konar verkefni fyrir samfélagið, t.d. á sviði umönnunar. Borgaralaunin yrðu ekki há. Hins vegar yrði þau skattfrjáls og önnur vinnulaun yrðu skattlögð í ríkari mæli en áður.