ailsham lávarður stakk upp á því við hittumst í Oxford. Hann átti erindi til þessa örlagastaðar í ævi sinni og við mæltum okkur mót í All Souls þar sem hann varð ungur félagi.

ailsham lávarður stakk upp á því við hittumst í Oxford. Hann átti erindi til þessa örlagastaðar í ævi sinni og við mæltum okkur mót í All Souls þar sem hann varð ungur félagi. Hann beið mín í anddyrinu, sitjandi með stafina sína tvo, þéttvafinn hnykill, 87 ára, en hressilegur, röddin hvöss og skýr eins og í ungum manni. Það bera honum allir vel söguna, en viðmót hans er fremur kalt. Við gengum til íbúðar hans á All Souls garði, sem hann deilir með Joseph lávarði, andlegum leiðtoga Thatchers. "Keith á bækurnar," segir hann, þegar hann sér mig svipast um í bókahillunum.

að hefur sópað mjög að Hailsham lávarði á hans langa ferli í breskum stjórnmálum. Er stundum haft við orð að hann sé litríkasti og hæfileikaríkasti "Lord Chancellor" frá dögum Birkenheads lávarðar (F.A. Smith), sem blaðakóngurinn Beaverbrook kallaði "gáfaðasta mann konungdæmisins". Hailsham hefur ekki síður orð á sér sem mikill gáfumaður, en hann þykir uppátektarsamur og ekki laus við stráksskap í sumum tiltektum sínum. Hailsham var "Lord Chancellor" í tíð Heaths (1970-74) og fyrstu tvö kjörtímabil Thatchers (1979-87). "The High Lord Chancellor of England" er margbrotið embætti sem ekki á sér hliðstæðu í öðrum löndum. Í embættinu felst í raun að vera allt í senn: dómsmálaráðherra, forseti Hæstaréttar og forseti Lávarðadeildarinnar. Jafnframt á "Lord Chancellor" sæti í ríkisstjórninni. Þetta er því áhrifamikið embætti.

Auk veru sinnar í Lávarðadeildinni á Hailsham að baki nær tveggja áratuga setu í Neðri málstofu breska þingsins. Notaði hann þá fjölskyldu- og skírnarnafn sitt, Quintin Hogg. Til hægðarauka hefur hann því oft verið nefndur Quintin Hailsham. Faðir hans var mikils virtur stjórnmálamaður á fyrri hluta þessarar aldar. Hann var náinn samstarfsmaður Baldwins og þótti líklegur arftaki hans, en afréð að setjast í Lávarðadeildina og gerast "Lord Chancellor". Bróðir Quintins settist á þing á undan honum og skrifaði merkar bækur, en sturlaðist af ástarsorg og svipti sig lífi snemma á fjórða áratugnum. Gekk það mjög nærri Quintin, ekki síst sökum þess að bróðir hans notaði eina af byssum hans til verknaðarins, en í þá daga tíðkaðist ekki að geyma skotvopn í læstum hirslum. Sonur Quintins er Douglas Hogg, aðstoðarutanríkisráðherra í núverandi ríkisstjórn Íhaldsflokksins, og hans kona er Sarah, kunnur blaðamaður um efnahagsmál, og nú einn af nánustu ráðgjöfum Majors forsætisráðherra.

uintin gekk í Eton-skóla, en fór síðan til Oxford og lauk þaðan prófi í fornmálunum og heimspeki með fyrstu einkunn. Hann les ennþá grísku og latínu sér til dægrastyttingar. Í stjórnarandstöðu á sjöunda áratugnum sat hann við hlið Enoch Powells, sem var einn lærðasti þingmaður Neðri málstofunnar og stundum kallaður Aristides eftir grískum stjórnskörungi sem aldrei hafði rangt fyrir sér! Þeir Powell skiptust á grískum málsháttum undir umræðum í þinginu. Þá má geta þess að Hailsham hefur þýtt ástarljóð eftir rómverska skáldið Catullus.

Á Oxford árunum varð hann jafnframt forseti Oxford Union, málfundafélagsins fræga. Að loknu námi í Oxford lagði Quintin stund á lögfræði og gerðist málaflutningsmaður. Hann vann síðan sjö ára fræðistyrk í lögfræði á All Souls garði í Oxford, en það er aðeins á færi afburða námsmanna og þykir mikil virðing. Seinna var hann kjörinn fullgildur félagi í All Souls, og hefur alla tíð verið í nánu sambandi við þetta mikla fræðasetur.

uintin varð snemma staðráðinn í að verða stjórnmálamaður. Honum lá hins vegar ekkert á inn á þing, það tók tímann sinn fyrir hann að treysta sig í sessi sem málflutningsmaður, auk þess sem mikil launalækkun fólst í þingmennsku. Árið 1938, þegar hann var 31 árs, bauðst honum loks tækifæri til framboðs í aukakosningum í Oxford. Bar hann sigurorð af meistara Balliol College í kosningum sem vöktu þjóðarathygli. Kosningarnar fóru fram skömmu eftir M¨unchen-samkomulagið og barðist Quintin ákaft fyrir málstað Chamberlains. En friðkaupastefna Chamberlains varð skiljanlega mjög illa þokkuð í Bretlandi á næstu árum, og það var ekki fyrr en Churchill var farinn frá sem leiðtogi Íhaldsflokksins að Hailsham lávarður fékk veigamikil embætti á vegum flokksins í ríkisstjórn.

Því fer fjarri að Hailsham beri nokkurn kala til Churchills. "Þegar ég var ungur þá sögðum við oft að gaman hefði verið að kynnast Marhlborough, Wellington, Gladstone, eða Disraeli - en ég kynntist Winston Churchill," segir hann nú. "Winston sker sig augljóslega úr af öllum þeim stjórnmálamönnum sem uppi hafa verið á minni tíð."

Hann segir að þeir Churchill hafi átt gott samstarf og nefnir sem dæmi að þegar stofnun Kola- og stálbandalags Evrópu var til umræðu í tíð Attlee-stjórnarinnar hafi Winston beðið sig að tala í þeim umræðum. Þar mælti Quintin eindregið með aðild Breta að Kola- og stálbandalaginu.

"Ég hef alltaf trúað á Evrópubandalagið," segir hann jafnframt, og bætir við: "Ég held við getum haft áhrif til hófsemdar innan bandalagsins, og það er vissulega betra að hafa atkvæðisrétt innan þess en að hafa engan atkvæðisrétt utan þess."

rið 1950 varð Quintin Hogg að segja af sér þingmennsku fyrir Oxford þegar hann erfði greifatign föður síns og varð Hailsham lávarður. Hann gegndi ýmsum ráðherraembættum undir Eden (1955-7) og Macmillan (1957-63); var t.d. flotamálaráðherra, kennslumálaráðherra, og vísinda- og tæknimálaráðherra. Þá var hann formaður Íhaldsflokksins fyrir landsfundinn 1957 og leiðtogi Lávarðadeildarinnar 1960-63.

Þegar Macmillan veiktist skyndilega haustið 1963 ríkti talsverð taugveiklun innan Íhaldsflokksins. Profumo hneykslið hafði gengið nærri ríkisstjórninni, tíð mannaskipti Macmillans í stjórninni vöktu vantraust, og víðtæk ónægja virtist hafa myndast meðal flokksmanna með forystu Macmillans. Þá skaut frábær frammistaða Harolds Wilsons í þinginu Íhaldsmönnum skelk í bringu, en Wilson var nýtekinn við formennsku Verkamannaflokksins við óvænt fráfall Gaitskells. Macmillan afréð að segja af sér og láta öðrum um að leiða flokkinn í næstu kosningum. Hann gaf það sterklega til kynna að Quintin Hailsham væri sá sem hann vildi að tæki við af sér.

Einmitt þetta sama ár voru samþykkt lögin sem gáfu mönnum kost á að afsala sér aðalstign innan árs frá því þeir erfðu hana, en öllum eldri aðalsmönnum var jafnframt gefið tækifæri í eitt ár, að afsala sér aðalstigninni. Þegar Hailsham vissi um stuðning leiðtoga síns lét hann slag standa, varð Quintin Hogg á ný og tók þátt í baráttunni um leiðtogasæti flokksins, sem raunar fór öll fram að tjaldabaki. En Home lávarður, sem þá var utanríkisráðherra, afsalaði sér líka aðalstign sinni. Þegar til kom reyndist Hailsham lítið hald í stuðningi leiðtoga síns. Macmillan skipti skyndilega um skoðun og lagðist á sveif með Alec Douglas-Home. Mikið hefur verið skrifað um þessi leiðtogaskipti Íhaldsflokksins og sjálfsagt ekki enn öll kurl komin til grafar, en víst þykir að Macmillan hafi þótt mest um vert að koma í veg fyrir að Rab Butler tæki við embætti forsætisráðherra.

ailsham naut mikils stuðnings meðal almennra flokksmanna, en meðal þingmanna og ráðherra flokksins hafði Home mun meira fylgi. Hailsham segist hafa aflað sér óvildar margra þingmanna flokksins þegar hann var formaður hans 1957. "Ég var fórnarlamb minnar eigin velgengni," bætir hann við. Hann kveðst þó ekki harma þessi málalok. Hann segir að allir forsætisráðherrar sem hann hafi kynnst hafi dáið vansælir - nema ef til vill Macmillan. Hann dó sem kunnugt er í hárri elli og vegur hans óx eftir því sem hann lifði lengur, en hann fékk tækifæri til að láta áfram að sér kveða í þjóðmálaumræðunni sem kanslari Oxford háskóla. Macmillan var einn af þeim stjórnmálamönnum sem þurfa að lifa langa ævi til að sýna hvað í þeim býr. Það á raunar við um Hailsham líka, sem ekki varð "Lord Chancellor" fyrr en á sjötugsaldri.

Hailsham kann sögu af Macmillan sem sýnir kannski að sinnaskipti Supermacs eru honum geymd en ekki gleymd. Söguna kveður hann skýringu á hinu hógværa og hljóðláta viðmóti Macmillans í embætti forsætisráðherra. Hailsham segir að Macmillan hafi verið ljóst að úrvalið úr hans kynslóð hafi dáið í styrjöldinni 1914, og hann hafi stundum séð þeim bregða fyrir í huganum, þessum sem stóðu honum framar, horfandi á hann og mælandi fyrir munni sér: "Nei, sjáið, þarna er Harold litli! Þeir hafa gert hann að forsætisráðherra, og við vorum honum allir fremri." Þessi hugsýn segir Hailsham að hafi gert Macmillan lítillátan!

Við kosningarnar 1964 settist Quintin Hogg á ný í Neðri málstofuna, nú sem þingmaður St Marylebone, hins gamla kjördæmis föður hans í London og þar sem afi hans, auðugur sykurframleiðandi og menntamálafrömuður, hafði stofnað tækniskólann í Regent Street. Í stjórnarandstöðu varð hann málsvari flokks síns í innanríkismálum og bjóst hálft í hvoru við að vera gerður að innanríkisráðherra þegar Edward Heath myndaði stjórn 1970. "En verndarenglarnir vernduðu mig frá þeim hræðilegu örlögum," segir hann hlæjandi.

Heath bauð honum að ganga í fótspor föður síns og verða "Lord Chancellor". Settist Quintin þá á ný í Lávarðadeildina sem Hailsham barón af St Marylebone. Hann var, sem fyrr segir, "Lord Chancellor" til 1974 og síðan aftur í stjórn Margaret Thatchers 1979-87. Hann lét af embætti nær áttræður að aldri. Hann var mjög þakklátur frú Thatcher fyrir að halda sér uppteknum, eins og hann kemst að orði, en ástkær eiginkona hans (önnur kona hans) lést af slysförum á þessum árum og syrgði hann hana mjög, og segir að aðeins þrotlaus vinna hafi haft af fyrir sér. Hann tók gleði sína á ný þegar hann gekk að eiga þriðju eiginkonu sína 1986.

ailsham lávarður er maður trúaður. En honum er mikill ami að því að kirkjunnar menn blandi sér í pólitík. Hann segir að þeir ættu allra manna best að skilja að Guð hafi kallað suma til að vera íhaldsmenn og aðra til að vera sósíalista - og ef heilagur andi hafi viljað að allir hugsuðu í sama farvegi þá hefði hann séð til þess að svo væri. Sagan segir að þegar biskuparnir voru eitthvað að þenja sig í Lávarðadeildinni útaf ráðstöfunum Thatcher-stjórnarinnar, hafi Hailsham jafnan tautað fyrir munni sér á "the Woolsack", forsetastól Lávarðadeildarinnar: "Bull . . . kjaftæði . . .".

sínum langa stjórnmálaferli hefur Hailsham verið afkastamikill rithöfundur. Sautján bækur liggja eftir hann, þ.á m. mjög læsileg sjálfsævisaga, A Sparrow's Flight (1990). Aðrar bækur hans fjalla um stjórnmál og lögfræði, nema The Door Wherein I Went (1975) þar sem hann gerir glögga grein fyrir trú sinni og lífsviðhorfum. Frægasta bók hans, The Case for Conservatism (1947), er enn þann dag í dag talin ein snjallasta málsvörn fyrir íhaldsstefnuna í Bretlandi. Nýlega lauk hann við bók um hnignun siðferðlegra gilda og hvernig reisa skuli þau við. Hann segist hafa skrifað flestar bækur sínar í sumarleyfum, þegar hann hafi dvalið á hóteli bróður síns í Sviss.

Eftir að hann hafði rætt nokkuð um hinn langa feril sinn, spurði ég hann hvort það sé hans reynsla að stjórnmálabaráttan sé óheiðarleg, eins og okkur áhorfendum finnst á stundum. "Nei, alls ekki. Það á við um stjórnmál eins og lífið sjálft að það eru vissar hliðar óheiðarlegar - og gildir það sama um málafærslustörf, verkalýðsbaráttu, viðskipti. Stjórnmál eru á engan hátt óheiðarlegri en hvað annað. Og hvað siðferðið varðar held ég nú að mælikvarðinn hér í landi sé hærri en víðast hvar annars staðar."

Snýst ekki stjórnmálabaráttan að miklu leyti um völd?

"Jú, en aðeins að hluta. Stjórnmál snúast augljóslega um það hvernig farið er með vald, og þegar maður fer ekki með slíkt vald snúast stjórnmál um kosningar til að komast í þá aðstöðu að beita valdi. En fyrir mörgum snúast stjórnmál kannski fremur um að hafa áhrif á vald en að komast til valda. Hvað mig sjálfan áhrærir, þá vakti aldrei fyrir mér að komast til mikilla valda. Eitt tók við af öðru og smám saman fikaðist maður upp valdastigann."

Hann segist ráða öllum sem langar að setjast á þing að læra að framfleyta sér á einhverju starfi áður. Það sé fásinna að setjast á þing án þess að vera fjárhagslega sjálfstæður. Hann telur stjórnmál nú á engan hátt minna aðlaðandi atvinnugrein en þegar hann var ungur, þvert á móti séu þau meira aðlaðandi, t.d. hafi þingmönnum fjölgað gífurlega og tekjumöguleikar stórbatnað. Þegar faðir hans hafi boðið sig fyrst fram hafi einungis verið um að ræða málamynda kaup og óbreyttir þingmenn hafi orðið að reiða sig á hlutastarf sem lifibrauð.

Hann vísar á bug áhyggjum manna útaf vaxandi ónægju almennings með frammistöðu stjórnmálamanna.

"Við eigum við margan erfiðan vanda að stríða, en ég hef engar áhyggjur af afskiptaleysi almennings af stjórnmálum," segir hann. "Og raunar held ég að það sé alls ekki um neina gjá að ræða milli almennings og stjórnmálamanna. Þetta er gjá ímynduð af almenningi. Það er augljóst að meðan menn sitja á þingi þá lifa þeir þar og hafa ekki mikinn tíma til að skipta sér af því sem gerist utan stjórnmálaheimsins. Og ég held að þeir sem kjörnir eru á þing hafi tíðast mjög breiða reynslu að baki."

Einhverju sinni lagðir þú til að þingið sæti einungis fáa mánuði á ári?

"Já, ég hef skipt um skoðun. Löggjöf hefur vaxið svo gífurlega, að ég held að slík lausn væri ekki æskileg. Þingmenn kæmust alls ekki yfir að ræða allt það sem þeir þurfa að ræða um í löggjöf, margvíslegum tilskipunum og reglugerðum, ef þingtíminn væri styttur verulega."

Dimbleby fyrirlestri þínum 1976 lýstir þú breska stjórnkerfinu sem einmenningskerfi án öflugrar efri málstofu þar sem flokksapparatið velur frambjóðendur sem síðan verða að lúta öfgasinnum heima í héraði.

"Já, þetta var á stjórnartíma Verkamannaflokksins. Ég held það sé ekki sanngjarnt að segja að öfgasinnar séu á kreiki innan Íhaldsflokksins. En þetta átti vissulega við um Verkamannaflokkinn þegar ég lét þessi ummæli falla og ég er ekki í aðstöðu til að segja að hve miklu leyti það hefur breyst þar á bæ. Á tímabili var Verkamannaflokkurinn gegnsýrður af litlum sellum kommúnista, trotskýista, ný-marxista og vinstri öfgamanna af ýmsu tagi, sem í raun unnu gegn forystu flokksins. Þetta átti aldrei við um Íhaldsflokkinn. En sagan kennir okkur að það á sér stað klofningur í öðrum hvorum flokknum á fimmtíu ára fresti eða svo, sem hefur gerbreytt stjórnmálasviðinu, og ég hef enga ástæðu til að ætla að á því verði breyting."

Á sínum tíma mæltir þú með mjög umfangsmiklum stjórnarskrárbreytingum, m.a. að taka upp hlutfallskosningu. Eru veigamiklar stjórnarskrárbreytingar líklegar á næstu árum?

"Stjórnarskrárbreytingar eru til umræðu. En ég er yfirleitt á móti breytingum breytinga vegna. Ég er ekki maður sem mælir með breytingum. Á móti kemur að ég dreg ályktanir af því hvernig hlutirnir ganga og á þeim grundvelli legg ég til lagfæringar. Það er alveg augljóst að það verða verulegar breytingar, og sumar þeirra eru óhjákvæmilegar."

Áður en þú varðst "Lord Chancellor" í annað sinn mæltist þú eindregið til þess að valddreifing væri aukin og vald fært heim í hérað?

"Já, en slíkt er aðeins hægt að gera ef fólkið vill það. Það eru gerðar kröfur um slíkt í Skotlandi og í Wales að nokkru leyti, og á Norður-Írlandi, þó það sé minna en áður, auk þess sem hlutar Englands annað hvort myndu sætta sig við slíkt eða mæla með því. Í heildina litið, hins vegar, er ljóst að enska þjóðin er á móti slíkum breytingum. Og slík valddreifing er náttúrlega út í hött nema fólkið vilji hana."

Notaðir þú áhrif þín sem "Lord Chancellor" til að beita þér fyrir aukinni valddreifingu?

"Nei, alls ekki. Ég lít svo á að megin hlutverk þess embættis sé að viðhalda valdaskiptingunni milli dómsmála annars vegar og framkvæmda- og löggjafarvaldsins hins vegar, að halda dómsmálakerfinu, málarekstri og framkvæmd refsiréttar, utan vettvangs flokka stjórnmálanna. Enda þótt "Lord Chancellor" sé pólitískur og eigi sæti í ríkisstjórninni og beri þannig fulla ábyrgð á öllum hennar gerðum, á hann að halda sér utan við stjórnmálabaráttuna að svo miklu leyti sem unnt er."

Nú var Thatcher stjórnin sökuð um hið gagnstæða, að draga til sín vald og auka miðstýringu, þ.e. þvert á yfirlýstar skoðanir þínar áður en þú settist í stjórn hennar?

"Ég held ekki að slíkar ásakanir eigi við nein rök að styðjast. Þvert á móti, hið mikla framlag lafði Thatchers til breskra stjórnmála var að snúa við margra áratuga þróun ágengs ríkisvalds. Það var tilgangurinn með einkavæðingunni og mörgu sem henni var talið fylgja, svo sem að hvetja leigjendur til að eignast eigið húsnæði og draga úr reglugerðarfarganinu. Það er vissulega mikið verk eftir ógert, en hún vann það afrek að snúa við þeirri ískyggilegu þróun að afskipti ríkisvaldsins fóru sívaxandi."

ú sagðir í lok áttunda áratugarins að vilji almennings í landinu hafi verið hunsaður í sérhverri þjóðnýtingarframkvæmd Verkamannaflokksins og ýmsri löggjöf annarri sem þingið hafi látið frá sér fara, og að vilji þingsins hafi á engan hátt endurspeglað raunverulegan vilja kjósenda. Má ekki segja að sama gagnrýni gildi um mörg verk Thatcher stjórnarinnar?

"Nei, það væri ekki sanngjarnt að halda slíku fram. Lafði Thatcher var augljóslega mjög umdeildur forsætisráðherra, og hún stóð fyrir frumlegri og framsækinni stefnu, en það er alls ekki hægt að segja að skoðanir annarra hafi verið hunsaðar. Hún var sammála sumum og ósammála öðrum. Skoðanir almennings er mjög breitt litróf ólíkra skoðana og hún valdi þær sem hún stóð fyrir. Hún fór aldrei dult með það sem hún ætlaðist fyrir. Og kjósendur veittu henni brautargengi til að koma stefnu hennar í framkvæmd."

Hvernig meturðu árangur Thatcher stjórnarinnar í samanburði við fyrri ríkisstjórnir?

"Ég held að hún hafi gerbreytt breskum stjórnmálum. Ef við gleymum í bili Ted Heath og Alec Home, þá skapaðist undir Macmillan hin svokallaða miðjuleið. Hans heimspeki var sú að milli pólanna tveggja, ríkisreksturs og einkareksturs, myndi smám saman skapast ákveðið jafnvægi, fólk myndi sættast á að sumt væri affarasælast að fela ríkisvaldinu að sjá um, t.d. rekstur BBC eða hinar þjóðnýttu atvinnugreinar, svo sem kolavinnslu o.s.frv., og að það yrði ekki um frekari þjóðnýtingu að ræða. Ég var talsmaður þessa almenna og fremur friðsama sjónarmiðs meðan Macmillan var leiðtogi flokksins og um nokkurt skeið þar á eftir. En smám saman varð mér ljóst, að svo lengi sem klásúla 4 var í stefnuskrá Verkamannaflokksins, sem mælir með allsherjar þjóðnýtingu, væri einungis tímaspursmál hvenær sósíalisminn yrði alger, því vindar virtust blása þannig í þjóðfélaginu. Þetta varð til þess að ég tók umbótum Thatchers mjög fagnandi."

Hvað fannst þér um Thatcher sem leiðtoga?

"Hún hafði náttúrlega mjög sérkennilegan stíl og skapgerðareinkenni. Ég átti aldrei í neinum vandræðum í samskiptum mínum við hana. Ég var ekki alltaf sammála henni og hún var ekki alltaf sammála mér, en ég held að okkur hafi komið prýðilega saman. En sumir áttu erfitt með að komast út af við hana, því er ekki að neita."

Hvernig stendur hún í samanburði við aðra leiðtoga Íhaldsflokksins sem þú hefur þjónað?

"Þeir voru allir sínir eigin menn og hver með sínu móti. Macmillan trúði sem fyrr segir á miðjuleiðina, að athuga vel sinn gang áður en komist var að niðurstöðu sem talið var að sæmileg sátt gæti verið um. Það var náttúrlega alls ekki stíll lafði Thatchers. Anthony Eden var mjög stutt forsætisráðherra og hans tími yfirgnæfður af Súes-deilunni, sem batt enda á leiðtogatíð hans ásamt heilsuleysi. Winston var auðvitað, þegar hann varð forsætisráðherra á friðartímum 1951, búinn að lifa sitt fegursta skeið, en tókst samt sem áður vel upp. Ég þjónaði ekki undir honum svo neinu nemi. Ted Heath trúði á samkomulags- og sáttaleiðina, sem er mjög göfug hugmynd. En veikleiki samkomulags leiðarinnar var sá, að á þeim tíma hafði ríkið vaxið sjálfu sér yfir höfuð. Þrátt fyrir þá miklu aðdáun sem ég hef á Ted Heath verður að segjast að landið þurfti á því að halda að þróuninni yrði snúið við og undið yrði ofan af ríkiskerfinu."

egar ég hef orð á því við Hailsham lávarð að hann virðist hafa skipt um skoðun í ýmsum veigamiklum málum, segir hann aðeins að stjórnmál séu sífelldum breytingum háð vegna þess að samfélagið breytist.

Hann vill fátt segja um einkahagi, en viðurkennir að ellin sé "sannarlega ekki auðveldasta skeið ævinnar".

"Ef maður heldur heilsu, er best að hafa eitthvað fyrir stafni," bætir hann við. Hann tekur enn mikinn þátt í störfum Lávarðadeildarinnar og kemur oft fram í útvarpi og sjónvarpi, en þar naut hann sín alltaf betur en á þingi. Þá skrifar hann talsvert af ritdómum í blöð og tímarit. Hann segir að það sé ennþá talsvert að fólki sem skrifi sér "sumt sem heldur að ég sé enn "Lord Chancellor", enda þótt ég hafi ekki verið það í sjö ár". "Ég hef fullt upp að gera og þarf að hafna mjög mörgum beiðnum," bætir hann við.

Hefurðu einhvern tíma haft afskipti af málefnum sem tengjast Íslandi?

"Ekki svo mig reki minni til. Ég hafði einu sinni ritara í hlutastarfi sem var af íslenskum ættum og hún fór stundum til Íslands. En ég hef aldrei komið þangað og aldrei haft neitt af því að segja. Ég hef hins vegar áhuga á Íslandi vegna þess að sagnagerð ykkar til forna hefur haft mikil áhrif á breska sögu. Og sögurnar eru ennþá til fyrir alla að lesa og ég hef notið þeirra sem ég hef lesið, einkum Njáls sögu."

Hailsham lávarður segist ekki vera stoltur maður, hann hafi gert sitt besta um dagana og láti eftirtímann um að meta hvernig sér hafi til tekist. Þegar ég spyr hann að lokum hvort heimurinn hafi breyst til góðs eða ills á hans löngu ævi, svarar hann afdráttarlaust:

"Til ills. Hættan sem við stóðum frammi fyrir áður en kommúnisminn féll var árekstur - en hættan núna er sundrung."

1. (enginn texti)

Við styttuna í All Souls College, sem hann misþyrmdi þegar hann var ungur félagi á All Souls á fjórða áratugnum og frægt varð á sinni tíð. Hailsham fjarlægði fíkjulaufið sem siðvandir forverar hans í All Souls höfðu steypt á styttuna.

"Lord Chancellor" 1970-74.

Úr síðustu fjallgöngu Hailshams 1979, en hann hefur alla ævi verið mikil fjallageit og gengið á fjöll í mörgum löndum. Þótti honum súrt í broti að gefa upp þessa ástríðu sína, en fæturnir hafa gefið sig og hann gengur nú við tvo stafi. Í teboði nokkru eftir að Hailsham hreppti fræðistyrk sinn, spurði eiginkona skólameistarans í All Souls sérfræðing nokkurn í grískri listasögu hvort stytta þessi væri ósvikinn fornmunur. Sérfræðingurinn, sem kunnur var að því að hneyksla borgarana, gekk rakleiðis að styttunni og þreifaði vandlega undir fikjulaufinu, en sagði síðan: "Augljóslega ekki!" Hailsham fylgdist með þessu og efaðist stórlega um þessa niðurstöðu sérfræðingsins. Um nóttina tók hann sig til, laumaðist út í garð með meitil, en notaði hælinn á skónum sínum fyrir hamar, og tók til við að brjóta fíkjulaufið af. Eftir alllanga viðureign féll fíkjulaufið í grasið. En sér til mikillar skelfingar blasti við steypuklessa án nokkurs sköpulags. Féllust honum nú hendur, því hann taldi víst að dagar sínir væru taldir í All Souls, og hvarf hann inn við svo búið. En smám saman óx honum kjarkurinn og hann réðst til útgöngu á ný, það hlaut að vera eitthvað undir þessari steypuklessu, og hann tók til við að mylja steypuna brott. Smátt og smátt kom lítill getnaðarlimur í ljós. Hailsham gekk til hvílu sinnar fullur sigurgleði, en jafnframt ögn óviss um viðbrögðin daginn eftir. Og þau létu ekki á sér standa. Verknaður þessi vakti almenna hneykslun og reiði og var ekki um annað rætt manna á meðal. Hailsham gætti þess að láta á engu bera og sagði ekki hræðu frá þessu uppátæki sínu. Af einhverjum ástæðum beindust samt böndin að honum og hvert sem hann leit næstu daga sá hann eldri félaga standa í hópum, gefandi sér illt auga, augsýnilega að tala sín á milli um hann. En eftirköstin urðu engin. Hailsham frétti seinna að til hafi staðið að láta hann borga fyrir að steypa fíkjulaufið á aftur, en til þess kom aldrei, og styttan fékk að vera áfram í því ásigkomulagi sem hinir fornu Grikkir höfðu talið hæfa. Á hlýjum sólardögum í Oxford, sitjandi í garði félaganna á All Souls, segir Hailsham hjarta sitt stundum fyllast af gleði yfir að hafa - rétt eins og Chichele, Hawksmoor og Codrington - sett sitt mark á þetta fræga menntasetur!