LÆKNISFRÆÐI /Hvað hugsa læknanemar hinum megin á hnettinum? Darwin á erfitt uppdráttar VÍÐA LIGGJA kennarar undir ámæli fyrir að skrafa hlýlega um þróunarkenninguna við nemendur sína.

LÆKNISFRÆÐI /Hvað hugsa læknanemar hinum megin á hnettinum? Darwin á erfitt uppdráttar

VÍÐA LIGGJA kennarar undir ámæli fyrir að skrafa hlýlega um þróunarkenninguna við nemendur sína. Bókstafstrúaðir foreldrar mega ekki heyra annað nefnt en að himinn og jörð og allur þeirra her hafi orðið til í einu hendingskasti á sköpunardögunum sex.

reskur líffræðingur, Roger Short að nafni, hefur undanfarin tólf ár búið í Ástralíu og kennt læknastúdentum í Melbourne. Dag einn kom honum í hug að fróðlegt væri að grennslast fyrir um hvað nemendurnir væru að hugsa um heiminn, lífið og tilveruna. Hann skrifaði því nokkrar spurningar á blað, fjölfaldaði plaggið og hver nemandi fékk eintak og var beðinn um svör en hvorki mátti fylgja nafn né annað sem gæfi vísbendingu um hvað kæmi frá hverjum.

Stúdentarnir voru skammt á veg komnir í læknisnámi, rösklega hálft annað hundrað talsins og álíka margir af hvoru kyni. Sextíu og fjögur af hundraði (og hér á eftir eru allar tölur í þessum pistli hundraðstölur) höfðu ekki notið líffræðikennslu fyrr og átti það sennilega einhvern þátt í að 27 álitu að Charles Darwin hefði skjátlast um mikilvægi "náttúruvals" í framþróun tegundanna. Jafnmörg höfnuðu þeirri kenningu að ættfeður okkar hefðu líkst sumum apategundum í Afríku, en rúmlega tuttugu trúðu því að guð hefði skapað konuna úr einu af rifbeinum Adams. Ellefu töldu víst að mannkynið mundi halda áfram að lifa á jörðinni æ og ævinlega og 54 trúðu á líf eftir dauðann.

Í öðru lagi voru stúdentarnir spurðir um framtíðaráætlanir þeirra sjálfra og kváðust 39 vilja starfa í vanþróuðum löndum. Þegar innt var eftir áhuga á framhaldsmenntun eftir læknispróf kom í ljós að 67 vildu verða sérfræðingar, 26 kváðust ætla að stunda almennar lækningar og 13 höfðu hug á vísindarannsóknum í þágu heilbrigðismála.

Ekki kemur á óvart að hópur ástralskra námsmanna sé æðimislitur hvað varðar uppruna, menningu og trú. Af þeim nemendum sem spurningaplaggið fengu voru 60 fæddir í Ástralíu, 25 í Asíu og 10 í Evrópu. Þegar spurt var hvaða trúarbrögð stúdentarnir aðhylltust svöruðu 24: Engin. Katólskir reyndust 18, ensku biskupakirkjuna nefndu 17 en færri játuðu gyðingatrú, búddatrú, múhameðstrú eða hindúatrú. Til guðsþjónustu einu sinni eða oftar í viku fóru 26.

Prófessor Short furðaði sig á að þróunarkenningin skyldi ekki eiga upp á pallborðið hjá fleirum en könnun hans sýndi og sá að við svo búið mátti ekki standa. Hann hóf þegar í stað margháttaða fræðsluherferð, efndi til tveggja mánaða námskeiðs og flutti þar sjálfur klukkustundarlöng erindi tvisvar í viku; hann valdi nýútkomna bók eftir þekktan líffræðing til skyldulesningar og benti hópnum á aðrar bækur sem áhugamönnum um efnið mættu að gagni koma. Valdar kvikmyndir um lífverur og umhverfi voru sýndar og ferðir farnar í dýragarðinn þar sem gat að líta fjölskrúðugt safn apategunda. Stúdentarnir áttu að svara skriflega nokkrum spurningum að námskeiðinu loknu og segja álit sitt á því sem fram hafði farið á undanförnum vikum. Langflest luku þau lofsorði á námskeiðið og töldu sig hafa haft af því bæði gagn og gaman. En ritgerð sem þau fengu klukkustund til að skrifa undir fyrirsögninni "Hugleiðing um uppruna og örlög þess mannkyns sem nú býr á jörðunni" fórst æðimörgum báglega úr hendi og bar vott um að bækurnar góðu sem bent var á höfðu að mestu fengið að vera í friði í hillum sínum.

Allmörgum vikum eftir að þetta brambolt var um garð gengið gat kennarinn ekki stillt sig um að senda hverjum nemanda nýja en óbreytta útgáfu af upphaflega spurningalistanum. Og viti menn: Svörin voru í öllum meginatriðum nákvæmlega eins og í fyrra skiptið.

Charles Darwin á yngri árum?

Þórarin

Guðnason