SIÐFRÆÐI/Er hægt að kenna skræfu hugrekki? Hugrekkið er dýrmætt LÍFIÐ er dásamlegur tími. Lífið er tíminn sem okkur gefst til að spinna ævisögur. Lífið er stutt. Dauðinn er langur. Dauðinn er ráðgáta sem enginn lifand maður getur leyst.

SIÐFRÆÐI/Er hægt að kenna skræfu hugrekki? Hugrekkið er dýrmætt

LÍFIÐ er dásamlegur tími. Lífið er tíminn sem okkur gefst til að spinna ævisögur. Lífið er stutt. Dauðinn er langur. Dauðinn er ráðgáta sem enginn lifand maður getur leyst. Lífið á hinn bóginn er viðráðanlegt og í lífinu vegur þyngst að þora að gera það sem við óttumst.

itundin um dauðann knýr okkur til að horfast í augu við lífið. Hann vekur spurninguna: Hvað á ég að gera í lífi mínu? Ef við værum eilífar verur á jörðinni og gætum ekki dáið hvað sem við tækjum okkur fyrir hendur og á okkur dyndi, myndum við eflaust leggjast í leti. Ekkert hefði raunerulegt gildi. Vitundin um dauðann rekur okkur á fætur á morgnana til að vinna afrek. Líf án dauða væri eins og dagur sem gæti ekki runnið. Öllu mætti slá á frest. En tímakornin í stundaglasinu hrynja látlaust uns það síðasta fellur. Dauðinn er því gild ástæða til að gera eitthvað af viti. En til að framkvæma það sem við viljum þörfnust við hugrekkis.

Hugrekki er að þora að vera sá sem maður vill vera. Hugrekki er að láta draumana rætast. Það er ekki hugrekki að hafa afsakanir á takteinum fyrir því að framkvæma ekki ætlunarverkin. Afsakanir eru fyrir hugleysingja, þeir eru sérfræðingar í að búa þær til. Það eina sem þá skortir er þor til að brjóta ísinn og leggja á ný mið. En hvað er hugrekki?

Hugrekki er löngun til að gera eitthvað, ótti gagnvart því og þor til að taka áhættuna. Hugrekki er ákvörðun um að stökkva yfir hindrun. Hugrekki er að tefla í hæfilega tvísýnu, því niðurstaðan er aldrei örugg. Hinn hugrakki þarfnast ályktunarhæfni, því það er mikilvægt að geta metið aðstæður rétt. Hann þarf að kanna líkurnar á að áform hans heppnist. Hann leggur þ.a.l. rækt við skynsemi sína og leitar visku.

Hinn hugrakki þarfnast einnig sjálfsþekkingar, en getur því miður ekki öðlast hana nema með athafnasemi. Hann þarf að feta sig áfram og gera tilraunir sem koma honum vonandi ekki í koll. Hann lærir að þekkja hæfileika sína með því að prófa og gera mistök. Hann þarf að bera kennsl á tilfinningar sínar og skynja viljann. Hann þarf að uppgötva hvað hann þolir mikið, svo hann stjórnist ekki af vanmati eða ofmati á gáfum sínum. Hann þarf að ydda viljann, en það er gert með hófsemi sem byggist á sjálfsstjórn og aga.

Hugrakkur maður þorir að hafa skoðanir og guggnar ekki undan áliti meirihlutans. Ef hann áformar eitthvað sem brýtur í bága við siði og skoðanir meirihlutans hættir hann ekki við nema honum sé sýnt með óyggjandi hætti, að hann hafi rangt fyrir sér. Hann hopar ekki á hæli undan þrýstingi hugleysingjanna. Úrtölumenn standa iðulega saman, því ekkert fer meira í taugarnar á þeim en einstaklingur sem þorir það sem þeir sjálfir hafa hætt við.

Hinn hugrakki er framsækinn. Hann lætur ekki staðar numið, því hann þorir að gera drauma sína að veruleika. Hann lætur ekki tíðarandann buga sig né heldur óttann um hlátur samferðamanna sinna. Hann skilur nefnilega að sönn ánægja fylgir ævinlega velheppnuðum verkum. Því meiri kjarkur, því meiri árangur og ánægja.

Það er glíman við óttann sem ræður hvort við erum hugrökk, bleyður eða fífldjörf. Þegar óttinn yfirbugar löngun til athafna erum við huglaus. Þegar við finnum ekki ótta gagnvart mikilli hættu getum við sýnt ofdirfsku. En þegar skynsemin hefur óttann undir þorum við að gera það sem okkur langar og erum hugrökk. Óttinn verður þó ávallt að vera til staðar. Vilji hins hugrakka er samofinn löngun, skynsemi og hæfilega miklum ótta gagnvart aðstæðum. Til að honum farnist vel þarf hann á hófsemi og réttlæti að halda. Ef hann er ekki réttlátur beitir hann óheiðarlegum brögðum og er líklegur til að traðka á keppinautum sínum. Það eykur líkurnar á að hann nái ekki í mark, heldur verði afhjúpaður á leiðinni. Hófsemin er til að standast freistingar og stilla hugann. Skynsemin m.a. til að sjá í gegnum lygi, blekkingar og hræsni annarra og til að leggja mat á aðstæður.

Hinn hugrakki fer ótroðnar slóðir en heigull fetar í fótspor annarra. Enginn fæðist þó hugrakkur eða bleyða. Skræfa getur lært hugrekki með því að glíma við óttann á markvísan hátt. Hún getur sigrað óttann með því að afla sér þekkingar á því sem veldur honum og með því að hvessa viljann. Hún setur sér markmið sem auðvelt er að ná. Hún byrjar á neðsta þrepi og klifrar síðan ofar í stigann. Hún fylgir þeirri reglu, að standa við ákvarðanir sem hún tekur. Þannig öðlast hún ákveðni og lærir að ganga andspænis ógninni.

Ef við temjum okkur hugrekki er mun líklega að við náum þeim árangri í lífinu sem við þráum. Þá búum við okkur sjálf og förum þangað sem við viljum. Ef við erum huglaus réttum við út hendurnar og látum aðra leiða okkur þangað sem við viljum ekki.

Speki: Hugleysi bindur í báða skó. Hugrekki brennur í skónum.

Gunnar

Hersvein