ÚR MYNDASAFNINU ÓLAFUR K. MAGNÚSSON ABBA EBAN Á ÍSLANDI slensk stjórnvöld hafa lengst af haldið góðu sambandi við stjórnvöld í Ísrael.

ÚR MYNDASAFNINU ÓLAFUR K. MAGNÚSSON ABBA EBAN Á ÍSLANDI slensk stjórnvöld hafa lengst af haldið góðu sambandi við stjórnvöld í Ísrael. Ríkin hafa þegið heimboð leiðtoga hvors annars og minnast margir Íslendingar enn heimsókna tveggja merkra forsætisráðherra Ísraela, þeirra David Ben-Gurions og Goldu Meir á sínum tíma. Í ágústmánuði árið 1966 koma Abba Eban, þáverandi utanríkisráðherra Ísraels, í heimsókn til Íslands í boði ríkisstjórnarinnar. Átti hann meðal annars fund með forseta Íslands, forsætisráðherra og utanríkisráðherra og kom í þeim samræðum fram ánægja með náin samskipti þjóðanna, sem byggðist á góðri vináttu og gagnkvæmum skilningi, að því er segir í samtíma heimildum. Á fundi með blaðamönnum sagði Abba Eban meðal annars að Ísrael og Ísland gætu bæði, þrátt fyrir smæð sína, unnið að heimsfriði og betri skilningi og auknum vináttusamböndum þjóða á milli. Abba Eban hlaut menntun sína í Englandi og barðist með breska hernum í Egyptalandi á stríðsárunum. Hann tók þátt í stofnun Ísraelsríkis 1948 og var sendiherra Ísraels í Bandaríkjunum og hjá Sameinuðu þjóðunum um árabil og utanríkisráðherra á árunum 1966 til 1974. Myndirnar eru teknar í heimsókn Abba Eban á Íslandi í ágúst 1966.

Dr. Bjarni Benediktsson forsætisráðherra heilsar upp á ísraelsku sendinefndina. Við hlið hans er Abba Eban, utanríkisráðherra Ísraels.

Á meðan ísraelski utanríkisráðherrann sat fundi með íslenskum stjórnvöldum heimsótti kona hans, Susan Eban, Árbæjarsafn og sýndi Lárus Sigurbjörnsson henni safnið. Meðal annars var staldrað við hjá hellu einni, sem talin var vera hlóðarhella Hallveigar Fróðadóttur og er myndin tekin við það tækifæri, talið frá vinstri: Lárus Sigurbjörnsson, frú Eban, frú Björg Ásgeirsdóttir, frú Lourie og frú Katla Pálsdóttir.

Abba Eban og Bjarni Benediktsson ræðast við.

Margir Íslendingar minnast enn heimsóknar ísraelska forsætisráðherrans Davids Ben-Gurion, sem hér er ásamt Ólafi Thors forsætisráðherra.