Fengu styrk frá sænska fyrirtækinu AGA til grunnrannsókna á æðaþelinu Hleypir krafti í rannsóknirnar ­ segir Guðmundur Þorgeirsson læknir GUÐMUNDUR Þorgeirsson, læknir og samstarfsmenn hans hafa fengið styrk frá sænska lofttegundaframleiðandanum AGA til...

Fengu styrk frá sænska fyrirtækinu AGA til grunnrannsókna á æðaþelinu Hleypir krafti í rannsóknirnar ­ segir Guðmundur Þorgeirsson læknir

GUÐMUNDUR Þorgeirsson, læknir og samstarfsmenn hans hafa fengið styrk frá sænska lofttegundaframleiðandanum AGA til að rannsaka hvernig myndun köfnunarefnisoxíðs (NO) í æðarþeli er stjórnað. Nemur styrkurinn um 34.000 sænskum krónum, eða tæpum 330 þúsund íslenskum krónum. Guðmundur segir að styrkurinn auðveldi rannsóknirnar og hleypi krafti í þær.

Rannsóknirnar, sem Guðmundur vinnur að ásamt þeim Haraldi Halldórssyni lífefnafræðingi og Óskari Jónssyni læknanema, eru grunnrannsóknir á æðaþelinu. "Við erum að rannsaka hvernig myndun köfnunarefnisoxíðs fer fram í æðaþeli og hvaða líffræðilegu og lífefnafræðilegu kerfi það eru í æðaþelsfrumunum sem stjórna myndun þess," segir Guðmundur.

Köfnunarefnisoxíð myndast í æðaþelinu og víkkar út æðarnar. Efnið hamlar gegn blóðflöguklumpum og blóðflöguviðloðun og er aðferð líkamans til að halda æð opinni og koma í veg fyrir að hún stíflist. Þessi myndun á köfnunarefnisoxíði truflast í æðasjúkdómum eins og æðakölkun og einnig við háa blóðfitu, segir Guðmundur.

Köfnunarefnisoxíð er einnig efnið sem losnar úr nítróglyseríni, eða svokölluðum sprengitöflum, sem hjartaog kransæðaæðasjúklingar taka til að víkka út æðar. Guðmundur segir að heilmikið sé vitað um myndun köfnunarefnisoxíðs og talsvert hafi verið rannsakað úr hverju það myndaðist.

Reyna að kortleggja innri boðkerfi frumunnar

"Við erum að skoða hvaða innri boðkerfi taka þátt í þessu," segir Guðmundur. Hann segir að það þurfi áreyti til að örva frumuna til að mynda köfnunarefnisoxíð og það færi í gegnum flókið innra boðkerfi í frumunni og ætluðu þeir að reyna að kortleggja það. Nýjungin í þeirra rannsóknum sé að þeir ætli að kanna hvort ákveðin efnabreyting, svokölluð ADP-ribosylering, hafi hlutverki að gegna.

Styrkurinn frá AGA er auglýstur á öllum Norðurlöndunum og segir Guðmundur að hann geri þeim kleift að borga Óskari laun í allt að hálft ár og hluta af efniskostnaði. Hann segir að erfitt sé að segja til um hvernig hægt verði að nýta niðurstöður rannsóknanna til meðhöndlunar á hjarta og æðasjúkdómum. "Allur grundvallarskilningur er hagnýtur" segir Guðmundur. "Ef maður veit hvernig hlutirnir virka er hægt að nota lyf á miklu skynsamlegri hátt."