Hætt var við keppni í götubolta á heilsudögum ÍFA Málshöfðun var hótað SAMTÖKIN Íþróttir fyrir alla, sem gangast fyrir heilsudögum 16.­18. apríl, hafa hætt við götuboltakeppni, "streetball", sem halda átt í samvinnu við KKÍ á bílastæðum Kringlunnar...

Hætt var við keppni í götubolta á heilsudögum ÍFA Málshöfðun var hótað

SAMTÖKIN Íþróttir fyrir alla, sem gangast fyrir heilsudögum 16.­18. apríl, hafa hætt við götuboltakeppni, "streetball", sem halda átt í samvinnu við KKÍ á bílastæðum Kringlunnar sunnudaginn 17. apríl, en að öðru leyti verður dagskrá heilsudaganna óbreytt. Að sögn Gunnlaugs Grettissonar, framkvæmdastjóra ÍFA, er ástæðan sú að Sportmenn hf., sem sótt hafa um skráningu á vörumerkinu "Streetball" hjá Einkaleyfisstofunni, hótuðu málshöfðun vegna þess að orðið var notað í auglýsingum ÍFA um keppnina.

Fyrirhuguð götuboltakeppni hafði verið auglýst í fjölmiðlum nú í vikunni, og var orðið "streetball" notað í auglýsingunum. Gunnlaugur sagði að á fimmtudaginn hefði borist bréf frá Sportmönnum hf. undirritað af Ólafi B. Schram framkvæmdastjóra þess, þar sem farið var fram á að fyrirhuguð keppni yrði felld niður, ella kæmi til málshöfðunar þar sem farið yrði fram á skaðabætur og greiðslur fyrir notkun vörumerkisins.

"Okkur fannst það ekki vera þess virði að standa í einhverju karpi um þetta og drógum við því keppnina til baka," sagði Gunnlaugur.