Útttekt RALA Þónokkur útbreiðsla kögurvængju FYRSTU niðurstöður sérfræðinga Rannsóknarstofnunar landbúnaðarins í rannsókn á útbreiðslu svokallaðrar blómakögurvængju gefa til kynna að útbreiðsla hennar sé þónokkur hér á landi.

Útttekt RALA Þónokkur útbreiðsla kögurvængju

FYRSTU niðurstöður sérfræðinga Rannsóknarstofnunar landbúnaðarins í rannsókn á útbreiðslu svokallaðrar blómakögurvængju gefa til kynna að útbreiðsla hennar sé þónokkur hér á landi. Halldór Sverrisson, plöntusjúkdómasérfræðingur, segir að kögurvængja hafi þegar fundist í 8 til 10 gróðrastöðum með blóm og 2 stöðvum með grænmeti.

Kögurvængja er skordýr og sækir sérstaklega í blóm og sýgur safa blaða þeirra sem og blaða grænmetisplatna. Mikið magn hennar getur valdið minnkandi vexti og jafnvel uppskerubresti.

Halldór Sverrisson sagði að kögurvængjan gæti hafa komið upp með tvennum hætti. Hún gæti hafa borist til landsins með innfluttum blómum eða komið upp á yfirborðið eftir að hafa legið niðri í þrjú ár hér á landi.

Eitur eða maurar

Ung kögurvængja er ljósgræn og fullorðin dökkleit og getur flogið. Halldór sagði að tvær aðferðir væru til að vinna á kögurvængjunni. Blómaræktendum væri ráðlagt að nota eitur til að útrýma henni og grænmetisræktendum að nota ránmaura. Engu að síður væri ljóst að ekki væri hægt að útrýma kögurvængju algjörlega úr gróðurhúsum með grænmeti fyrr en húsin væru hreinsuð að hausti.

Úttekt RALA nær til ræktenda á Suðurlandi og í Borgarfirði auk þess sem ætlunin er að kanna hús á Norðurlandi. Aðrir geta sent inn sýni til rannsóknar.

Kögurvængja

NAFN kögurvængjunnar er dregið af sérkennilegum vængjum hennar, mjóum beinstöfum, alsettum lausu hárkögri. Hún er yfirleitt 1-3 mm á lengd.