Íslenskt sölufyrirtæki stofnað í Chile Eigendur eru Sæplast, Hampiðjan, Icecon og verkfræðistofan Meka SÖLUFYRIRTÆKI í eigu Sæplasts, Hampiðjunnar, Icecon og verkfræðistofan Meka hefur tekið til starfa í Chile.

Íslenskt sölufyrirtæki stofnað í Chile Eigendur eru Sæplast, Hampiðjan, Icecon og verkfræðistofan Meka

SÖLUFYRIRTÆKI í eigu Sæplasts, Hampiðjunnar, Icecon og verkfræðistofan Meka hefur tekið til starfa í Chile. Kristján Aðalsteinsson, framkvæmdastjóri Sæplasts, sagðist binda miklar vonir við að með stofnun fyrirtækisins takist að vinna nýja markaði fyrir íslenskan iðnvarning. Hann sagði áætlun eigenda fyrirtækisins ganga út á að reka það til reynslu í þrjú ár og endurmeta síðan stöðuna.

"Við vitum að það er þörf fyrir okkar vörur á þessum markaði. Við komum til með að miða okkar markaðsstarf við að það taki 3-4 ár að koma okkur almennilega inn á þennan markað," sagði Kristján.

Undirbúningur að stofnun fyrirtækisins hefur staðið allt síðastliðið ár, en áður hafði Útflutningsráð unnið að markaðskönnun í Chile. Búið er að ráða starfsmann frá Chile að fyrirtækinu, en formlega tekur það til starfa eftir mánaðamótin.

Sæplast hefur í gegnum árin selt nokkuð af kerum og trollkúlur til Chile, en hefur nú áætlanir uppi um að auka sölu þangað verulega. Meka og Icecon stefna að því að selja ráðgjafarþjónustu til Chile og Hampiðjan veiðarfæri. Auk þess mun sölufyrirtækið taka aðrar íslenskar vörur í umboðssölu ef áhugi er fyrir því meðal íslenskra fyrirtækja.

Kristján sagði það sitt mat að til að ná árangri á svona fjarlægum mörkuðum verði íslensk fyrirtæki að vera með söluskrifstofu í viðkomandi landi. Hann sagði að frátöldum mörkuðum í S-Ameríku einbeiti Sæplast sér að mörkuðum í Evrópu. Hann sagði vitað að stór markaður sé fyrir ker og trollkúlur í Rússlandi, en vandamálið sé að greiðslur frá Rússum séu óöruggar og því fylgi mikil áhætta viðskiptum þar eystra. Sæplast seldi á síðasta ári um 1.000 ker til Rússlands í gegnum umboðsfyrirtæki í Evrópu. Hann sagði óvíst hvort framhald verði á þessum viðskiptum í ár.