Í víking til Noregs Mæta á æfingar klukkan sex á morgnana fimm daga vikunnar, en æfa ellefu sinnum í viku fyrir opið Norðurlandamót í Noregi Á ÖLDUM áður héldu víkingar fleyum sínum frá Noregi, til að gera strandhögg víðs vegar um Evrópu.

Í víking til Noregs Mæta á æfingar klukkan sex á morgnana fimm daga vikunnar, en æfa ellefu sinnum í viku fyrir opið Norðurlandamót í Noregi

Á ÖLDUM áður héldu víkingar fleyum sínum frá Noregi, til að gera strandhögg víðs vegar um Evrópu. Það er ekki langt síðan sex ungir víkingar frá Íslandi héldu til Noregs, þar sem þeir sýndu stórhug og baráttuskap - og skutu jafnöldrum sínum ref fyrir rass. Þeirra vopn var róðrarbátur. Hér er um að ræða drengi frá Reykjavík sem fóru til að etja kapp við jafnaldra sína í Noregi og fóru með sigur af hólmi. Þótt Íslendingar hafi verið og séu miklir sjósóknarar, hefur róðraríþróttin aldrei náð teljandi vinsældum hér á landi. Mestu er þar um að kenna aðstöðuleysi, en einnig spilar veðurfar þar inní - keppni í róðri fer yfirleitt fram á kyrru vatni, stilltum sjó eða þá á tilbúnum róðrarbrautum. Á árum áður var keppt um Kappróðrarhorn Íslands, eða allt fram til ársins 1960, en þá tók aðeins eitt félag þátt í róðramóti Íslands á Akureyri - lið heimamanna. Hljótt hefur farið um róðraríþróttina síðan, en nú hafa tveir menn tekið höndum saman til að endurvekja íþróttina og er sjósókn hafin. Þetta eru þeir Jón Magnús Jónsson, sem kynntist íþróttinni í háskóla í Bandaríkjunum, og Ítalinn Leone Tinganelli, margfaldur Ítalíumeistari.

að var fyrir fjórum árum að Tinganelli fékk hingað feræring með stýrimanni frá Ítalíu. "Ítalska róðrarsambandið lét okkur fá bátinn á vægu verði, eða um þúsund dollara (72.500 kr.), en svona bátar kosta eina milljón og þrjúhundruð þúsund krónur," sagði Leone Tinganelli, sem er búsettur hér á landi - á íslenska eiginkonu og tvö börn. Tinganelli er frá Napolí og svo skemmtilega vill til að hann keppti á bátnum sem kom hingað til lands á heimsmeistaramótinu á Ítalíu 1982, þar sem sveit hans hafnaði í fjórða sæti. Báturinn geymir því skemmtilegar minningar fyrir hann.

Jón Magnús sagði að það hafi verið gerðar tilraunir á hverjum vetri undanfarin ár til að koma íþróttinni af stað. "Tinganelli einn einu sinni, við saman einu sinni, ég einn einu sinni og núna erum við saman á ný. Það hefur aldrei gengið eins vel og núna. Það hjálpaði okkur mikið að við fengum tvær róðrarvélar gefins frá Ítalíu," sagði Jón Magnús.

Auglýst eftir róðrarmönnum

Þeir félagar auglýstu í skólum eftir strákum til að æfa róður. "Ástæðan fyrir því að við auglýsum í skólum er að við sáum að það gæti orðið uppgangur í íþróttinni við að hafa róður sem framhaldsskólaíþrótt - skólarnir gætu æft og keppt sín á milli um allt land. Norska róðrarsambandið gaf okkur annan bát síðastliðið haust, en heppnin var ekki með okkur því að báturinn brotnaði í spón á leiðinni í skip í Noregi. Það var þá sem við urðum að kippa að okkur höndunum, því að það var ekki hægt að gera stórt átak með aðeins einn bát. Við vorum búnir að fá góða svörun frá fjórum skólum, en fimm strákar úr Kvennaskólanum og einn úr Menntaskólanum í Reykjavík mættu strax til æfinga. Við ákváðum þá að einbeita okkur að þjálfa þá upp," sagði Jón Magnús.

­ Höfðu strákarnir nokkra hugmynd í hvað þeir væru að fara?

"Nei, það höfðu þeir ekki. Aðeins séð kappróður á milli skólanna í Oxford og Cambridge í Englandi í sjónvarpi. Þetta voru strákar sem vildu prófa eitthvað nýtt. Við vorum heppnir að þessir strákar voru ekki búnir að festa sig í öðrum íþróttum," sagði Tinganelli.

Til Noregs í æfingabúðir

Jón Magnús sagði að til að skerpa áhuga strákanna og gefa þeim tækifæri til að kynnast róðraríþróttinni við bestu ástæður, hafi verið ákveðið að fara til Svíþjóðar í vetur. "Það breyttist og við fórum í æfingabúðir til Posgrun í Noregi, þar sem Norðmenn voru með æfingabúðir fyrir sitt unglingalandslið."

"Áhuginn fyrir ferðinni til Noregs var mikill hjá strákunum, en þeir lögðu hart að sér og æfðu á hverjum degi," sagði Tinganelli, en íslensku strákarnir komu sáu og sigruðu - komu á undan í mark eftir 1.750 m róður. "Fjölmargir áhorfendur voru og reiknaði enginn með sigri okkar. Þessi sigur ver mikil lyftistöng fyrir strákana, sem þroskuðust mikið við að kynnast aðstöðunni í Noregi og leggja jafnaldra sína að velli í keppni, sem þeir höfðu aldrei áður tekið þátt í."

Jón Magnús sagði að þessi árangur strákanna hafi sannað að það er hægt að æfa og keppa í kappróðri á Íslandi. "Það var mikill sigur fyrir okkur að vinna í Noregi, en þar eru aðstæður eins og best verður á kosið."

­ Hvernig eru aðstæður hér. Hvernig finnst þér, Tinganelli, að æfa róður hér miðað við á Ítalíu?

"Það er ekkert að því að æfa róður hér - til dæmis í Nauthólsvíkinni og Fossvognum. Það er alltaf erfitt að fara á sjó út í löngum og mjóum bát. Það tekur tíma að kynnast bátnum, en menn þurfa að æfa til að ná árangri. Menn þurfa að fara oft út á bátunum, en það höfum við gert. Strákarnir hafa verið mjög duglegir og lagt hart að sér við æfingar. Veðurfar hér á landi er ekkert mál. Það þarf að bæta aðstöðuna til að æfa - koma upp húsnæði fyrir báta og aðstöðu til að æfa í róðrarvélunum, en þær eru nú í sundlauginni í Laugardal."

Fengu boð um að taka

þátt í móti í Noregi

Árangur íslensku strákanna vakti athygli í Posgrun, þar sem menn áttu erfitt með að trúa að þeir væru að keppa í fyrsta skipti. "Okkur var boðið að senda fimm manna hóp, frítt fæði og uppihald, á opið Norðurlandamót, sem er í byrjun júní í Noregi. Þetta er mjög góð viðurkenning á starfi okkar," sagði Jón Magnús.

Tinganelli sagði að boðið hafi gefið strákunum aukinn kraft. "Við förum á mótið til að standa okkur - ekki aðeins að vera með. Strákarnir hafa æft vel í vetur, en nú eru þeir byrjaðir að æfa ellefu sinnum í viku og við æfum á hverjum morgni klukkan sex, eða áður en strákarnir fara í skólann."

"Skemmtilegt og krefjand"

Jón Einar Sverrisson, sem er stýrmaðurinn hjá róðrarsveitinni, sagði að það væri mjög skemmtilegt að stunda róður. "Róðraríþróttin er krefjandi, en um leið fær maður mikið út úr henni. Við kynntumst fyrst spennunni sem er fylgjandi því að keppa í Noregi og erum í sjöunda himni yfir árangurinn þar."

­ Er ekki erfitt að vakna snemma á morgnana til að fara á æfingar klukkan sex?

"Jú, það var erfitt fyrst - að vakna klukkan hálfsex, en við verðum að leggja ýmislegt á okkur til að ná árangri."

­ Sérðu fyrir þér að róðraríþróttin eigi framtíð fyrir sér hér á landi?

"Já, ég hef trú á því. Þetta er tilvalin skólaíþrótt, þar sem keppt verður á milli skóla, en það verður að bæta aðstöðuna."

­ Hvað er langt í skólakeppni hér á landi?

"Það fer allt eftir því hvernig aðstaðan verður í framtíðinni. Ef hún skánar og við fáum fleirri báta, þá gæti það orðið innan fárra ára. Forsenda fyrir keppni er góð aðstaða - betri en hún er í Nauthólsvík. Eins og hún er í dag, þá er ekki hægt að æfa þar og gera út fyrir stóra hópa."

Jón Magnús og Tinganelli sögðu að þegar nýr bátur kæmi frá Noregi í sumar, yrði byrjað að kynna róðraríþróttina. "Við erum mjög spenntir fyrir því að kynna íþróttina á landsmóti ungmannafélaganna á Laugarvatni í sumar.

Það er greinilegt að þeir félagar eru að vinna gott starf í að endurvekja róðraríþróttina á Íslandi, sem hefur legið í dvala í 34 ár.

Sigmundur Ó.

Steinarsson skrifar

Jón Magnús Jónsson er hér (t.h.) ásamt ungu róðrarmönnum, að gera klát áður en haldið til æfingar í Posgrun í Noregi.

Hin sigursæla sveit Íslands í Noregi. Friðrik Örn Guðmundsson, Guðmundur Gísli Ingólfsson, Leone Tinganelli, þjálfari, Róbert Örn Arnarson, Geir Steinþórsson, Ármann Jónsson og stýrimaðurinn Jón Einar Sverrisson. Eins og sést á myndunum voru aðstæður til æfinga frábærar.