Leikmannsþankar Erni Erlendssyni: Jón Baldvin Hannibalsson utanríkisráðherra birti grein um ágæti EFTA, EES og ESB í Morgunblaðinu 30. mars.

Leikmannsþankar Erni Erlendssyni: Jón Baldvin Hannibalsson utanríkisráðherra birti grein um ágæti EFTA, EES og ESB í Morgunblaðinu 30. mars. Það væri fróðlegt að vita hvaða hugsanir hrærðust í kollinum á honum þegar hann ákvað að byrja greinina með síðasta erindinu úr lýðveldishátíðarljóði Huldu, en sleppa tveimur síðustu ljóðlínunum. Ég efast ekki um að ráðherrann hefur hugsað sig vandlega um áður en hann ákvað að hefja greinina með þessu erindi og hann hlýtur að hafa hugsað sig enn betur um áður en hann ákvað að slíta lokahendingu kvæðisins frá.

Ég efast ekki um að utanríkisráðherrann kann allt kvæðið, þ.m.t. allt síðasta erindið, en þessi einkennilega beiting hans á því varð til þess að ég get ekki stillt mig um að skrifa nokkra leiksmannsþanka um stöðu okkar Íslendinga gagnvart sjálfum okkur og í samfélagi þjóðanna.

EFTA-frelsið

Aðildin að EFTA var mikið deiluefni á sínum tíma. Talsmenn aðildar lögðu áherslu á viðskiptafrelsi og tollalækkanir. Andstæðingarnir bentu á erfiða samkeppnisaðstöðu íslensks iðnaðar.

Núna, 20 árum síðar, blasa staðreyndirnar við: Iðnaðurinn er í kalda koli; byggingariðnaður, húsgagna- og innréttingasmíði, málmiðnaður, skipasmíði, skinnaiðnaður, ullariðnaður, fataiðnaður, teppagerð, matvælaiðnaður.

Síðastliðin 20 ára hefði vaxtarbroddur atvinnulífsins átt að vera almennur iðnaður. En það er síður en svo. Frá 1973 til 1993 hefur framboð ársverka á vinnumarkaði aukist um 32.400, en á sama tíma hefur ársverkum í iðnaði fjölgað um 225. Jafnframt hefur verkstæðum, verksmiðjum, vélum, tækjum og síðast en ekki síst verkkunnáttu verið kastað á glæ, svo að þjóðin mun aldrei bíða þess bætur.

EES- ESB-frelsið

Með EES-samningnum varð sú breyting helst að landbúnaðurinn fær senn að njóta sama frelsis og iðnaðurinn hefur notið þessi síðustu 20 ár. Með fyrirhugaðri ESB-aðild verður enn hnykkt á og frelsislínurnar skerptar.

Eisntaklingsfrelsið

Auðvitað þurfti engum heilvita manni að koma á óvart að okkur Íslendingum yrði ofviða að keppa við háþróaðan iðnað og landbúnað Evrópu og Ameríku.

Það er talað um að úr því við erum ekki samkeppnisfær á innanlandsmarkaði, þá getum við í staðinn framleitt hágæða matvöru fyrir sælkera í útlöndum. Það er hætt við að bið geti orðið eftir gróðanum af þessu, það hafa nefnilega fleiri "fattað trixið" og markaðirnir eru svo yfirfullir af allskonar lúxusvarningi að það flæðir út af borðunum á alla vegu og flottræflarnir torga ekki meiru, nema smávegis ef þeir fara fyrst og gubba.

Svo er talað um að við getum framleitt hormónalaust og áburðarlaust kjöt eins og gert var í gamla daga. Öllum ætti þó að vera ljóst að slík framleiðsla er svo dýr að engum manni dytti í hug að kaupa þetta.

Ef við getum ekki framleitt einfaldan iðnvarning, eins og borð og stóla, kex og klæði, ekki einu sinni hundamat í okkur sjálf og hundana okkar, þá er þess ekki að vænta að við náum miklum árangri í að framleiða lúxusvarning handa útlendum dekurrófum og sérvitringum.

Frelsið sem var

Ég ætla að rifja upp örfá atriði um frelsi okkar, almúgafólks, frá þeim árum þegar ég var að komast til manns, um 1955 og eitthvað áfram, svo sem eins og til ársins 1975.

Mann dreymdi ekki um að fara til útlanda. Einn sem ég þekkti fór í Evrópuferð 1962 og það var umræðuefni á 150 manna vinnustað a.m.k. heilt ár á eftir.

Maður eignaðist jakkaföt þegar maður fermdist og önnur þegar maður giftist. Þau þriðju löngu, löngu seinna.

Maður vann frá 7.20 á morgnana til 8 á kvöldin, en ekki nema til 4 á laugardögum. Svo var snöpuð aukavinna á kvöldin og á sunnudögum, ef hægt var.

Íbúðin var auðvitað hurðalaus fyrstu árin, gamalt teppi hengt fyrir klósettdyrnar. Tómir kassar, sníktir eða stolnir notaðir fyrir eldhúsinnréttingu. Húsgöng, búsáhöld ...

Ég man samt ekki til að við værum neitt óhamingjusamari með þetta en við erum nú og ég segi það satt að glaður vildi ég hverfa aftur til þessa tíma, því þótt þá væri ekki eins mikið frelsi og nú til ferðalaga og viðskipta þá hafði fólkið það frelsi sem er mikilvægast af öllu, frelsi sem þúsundir Íslendinga hafa verið sviptir undanfarin ár, frelsi sem hefur verið fórnað vegna EFTA- og EB-hyggjunnar: Frelsi til að sjá sér farboða.

Upprifjun

Öllum væri hollt að rifja upp atburðinn á Þingvöllum 17. júní, fyrir 50 árum.

Tugþúsundir söfnuðust saman á Lögbergi við Öxará og strengdu þess heit að aldrei framar skyldu Íslendingar verða öðrum þjóðum háðir. Þeir sem ekki komust á Þingvöll strengdu þetta sama heit, hvar sem þeir voru staddir. Hulda yrkir svo:

Ó, Ísland, fagra ættarbyggð.

Um eilífð sé þín gæfa tryggð.

Öll grimmd frá þinni ströndu styggð

og stöðugt allt þitt ráð.

Hver dagur líti dáð á ný,

hver draumur rætist verkum í

svo verði Íslands ástkær byggð

ei öðrum þjóðum háð.

Örn Erlendsson,

starfsmaður í Árbæjarsafni.