íkverji sá þá skondnu frétt í blöðunum að Framsóknarflokkurinn hafi frestað miðstjórnarfundi um tvær vikur vegna seinkunar á ráðningu Seðlabankastjóra! Já, það er margt skrýtið í kýrhausnum, eins og spakur maður sagði fyrir margt löngu.

íkverji sá þá skondnu frétt í blöðunum að Framsóknarflokkurinn hafi frestað miðstjórnarfundi um tvær vikur vegna seinkunar á ráðningu Seðlabankastjóra! Já, það er margt skrýtið í kýrhausnum, eins og spakur maður sagði fyrir margt löngu. Trúlega á atburður þessi erindi í þá margfrægu heimsmetabók.

Framsóknarflokkurinn, sem verður áttræður að tveimur árum liðnum, hefur setið oftar og lengur í ríkisstjórnum hér á landi en nokkur annar. Það út af fyrir sig gæti átt heima í einhvers konar Íslandsmetabók.

Það er skoðun Víkverja að Framsóknarflokkurinn hafi í áratugi haft áhrif og völd langt umfram kjörfylgi. Því veldur í fyrsta lagi misvægi atkvæða eftir búsetu fólks. Atkvæði Reykvíkings vóg (þegar horft var til skiptingar þingheims á kjördæmi) allt niður í fjórðung af atkvæði kjósanda í "þungavigtarkjördæmi". Í annan stað kemur til sú náttúra miðjuflokksins að "vera opinn í báða enda", geta samið bæði til hægri og vinstri, eftir aðstæðum á hinum pólitíska markaði samfélagsins.

íkverja sýnist sem þrjár hafi verið langlotur Framsóknarflokksins í stjórnarráðinu. Hin fyrsta frá 1927 allar götur til ársins 1942, samtals fjórar ríkisstjórnir, allar undir forsæti Framsóknarflokksins. Önnur ríkisstjórnarlanglota Framsóknarflokksins stendur frá árinu 1947 og nær óslitið til ársins 1958. Flokkurinn leiðir tvær af fjórum ríkisstjórnum þessa tímabils.

Að þessu tímabili loknu sezt "framsóknarlaus" Viðreisn að völdum 1959 - 1971. Það tímabil er kapítuli út af fyrir sig í þjóðarsögunni.

Þá hefst þriðja og síðasta framsóknarlotan, 1971 - 1991, tuttugu ára ríkisstjórnatörn, tímabil nánast viðvarandi fólksflótta úr strjálbýli til þéttbýlis, tímabil hrikalegs samdráttar í landbúnaði og um sumt mistaka í sjávarútvegi. Og allir vita hvernig fór fyrir Sambandinu, Markaði við Sund og tylftum kaupfélaga.

f Víkverji reiknar rétt hefur Framsóknarflokkurinn haft tæplega fimmtung atkvæða að meðaltali í alþingiskosningum frá 1971 talið. Samt sem áður sat hann á valdastóli í þjóðfélaginu lengst af þessum tíma, tuttugu ár samfellt í ríkisstjórnum, 1971 - 1991. Þetta var að vísu áður en tímasetning á miðstjórnarfundum flokksins réðst af kjöri Seðlabankastjóra. En samt sem áður flokkar Víkverji dagsins þetta undir mikinn afla á fáa öngla, það er langar og strangar valdasetur út á tæplega fjórðungsfylgi með þjóðinni.

Reykjavík var þó alltaf, eða svo til alltaf, eyland í valdahafi Framsóknarflokksins. Hún óx enda og dafnaði með ólíkindum; dróg til sín fólk hvaðanæfa af landinu. Sumir töluðu jafnvel um byggðaröskun og var mikið niðri fyrir. Víkverji veltir því fyrir sér hvort sjónarmið "byggðajafnvægis" ráði afstöðu þeirra, sem leiða vilja Framsóknarflokkinn til áhrifa í Reykjavík. Þannig megi sum sé snúa fólksstreyminu við: frá Reykjavík og til landsbyggðarinnar!

Framsóknarflokknum hefur verið lagið, að Víkverja finnst, að seilast til mikilla valda út á tiltölulega lítið fylgi. Nú er það sjálf höfuðborgin, Reykjavík, sem er fyrirheitna landið í valdadraumi framsóknarmaddömunnar og meðreiðarliðs hennar. Hún hyggst verða drottningin á grímudansleik komandi borgarstjórnarkosninga.

"Kóngur vill sigla en byr ræður," segir máltækið.