Amma okkar, Halldóra Sigurjónsdóttir, er látin. Þegar svo náinn ættingi fellur frá leita margar minningar á hugann.

Þó einkennilegt megi virðast er amma okkur minnisstæðust frá því við vorum börn og þá einkum af samverustundum okkar í Varmahlíð.

Hvert einasta sumar eftir að amma flutti suður fór hún norður í Varmahlíð. Þar var hennar ríki. Dætur hennar fylgdu síðan í fótspor hennar með börn sín.

Í barnæsku okkar má segja að hafi verið þrír stórviðburðir á ári hverju; afmælin okkar, jólin og að fara í sveitina til ömmu. Við börnin nutum þess að vera úti í náttúrunni, áttum bú uppi í brekku, lékum okkur í trjánum hennar ömmu, fórum í sund og skruppum í Laugafell að skoða dýrin. Í minningunni finnst okkur alltaf hafa verið gott veður þessi sumur.

Amma stjórnaði þessu "sumarbúðalífi" af mikilli röggsemi og reglufestu. Hún var alltaf fyrst á fætur og hafði komið mörgu í verk áður en aðrir dröttuðust á fætur. Hlaupa upp á bæjarhól, baka kleinur, flatbrauð, rúgbrauð, bollur, vínarbrauð eða annað það sem hún taldi að vantaði handa mannskapnum, fara í morgunleikfimi með Örnólfi og taka til morgunmatinn. Síðan sá hún einnig um aðrar máltíðir dagsins og brýnt var fyrir okkur börnunum að koma nú á réttum tíma í mat.

Amma var sístarfandi og þegar hún var ekki að snúast í eldhúsinu var að mörgu að hyggja. Það þurfti að hugsa um trén, snúa nokkrum flekkjum úti á túni og kannski að mála þakið á Varmahlíð.

Í Reykjadal og sérstaklega á Laugum átti amma systkini, ættingja og vini næstum á hverjum bæ. Þegar hún fór að heimsækja þetta fólk var hún yfirleitt fótgangandi. Stundum fengum við börnin að fara með henni og máttum þá hafa okkur öll við að fylgja henni eftir, því amma var létt og kvik á fæti.

Sólbjartir sumardagar bernskunnar liðu, við urðum stór, fórum að vinna fyrir okkur á sumrin og færri sáu sér fært að dvelja langdvölum í Varmahlíð. Trúlega hefur amma saknað þessara tíma þegar hún safnaði um sig börnum og barnabörnum í litla húsinu sínu fyrir norðan. Nú hin síðari ár höfum við eldri systkinin notið þess að geta komið í Varmahlíð með maka okkar og börn.

Þó amma hafi búið nær þrjátíu ár sunnan heiða þá voru hennar rætur norður í Reykjadal. Þangað leitaði hugur hennar nú hina síðustu mánuði í veikindum hennar. Hún rifjaði upp löngu liðna atburði, hugsaði um fólkið sem lifði og hafði lifað í þessum dal og um húsið sitt, Varmahlíð. Vonandi berum við niðjar hennar gæfu til að varðveita og rækta áfram þennan reit sem ömmu þótti svo vænt um.

Það er margs að minnast og meðan við eigum minningar um ömmu Halldóru lifir hún með okkur. En mikið eigum við eftir að sakna þess að hún standi ekki í dyrunum á Varmahlíð að taka á móti okkur á sumrin, með þessari spurningu: "Eru þið ekki óskaplega þreytt og svöng?"

Sennilega hefur ömmu grunað að hverju stefndi, því síðastliðið sumar hélt hún veglega upp á afmælið sitt. Nær allir afkomendur hennar gátu komið og gert sér glaðan dag saman. Henni tókst líka að dvelja síðasta sumarið sitt í Varmahlíð.

Það átti ekki við ömmu að vera veik og upp á aðra komin, því var dauðinn henni lausn og hún var tilbúin að fara.

Friður hefur færst yfir mig. Dásamlegur friður. Nú get ég farið þegar þú kallar, og hvert sem þú kallar mig. Því þú hefir tekið þjáningu mína burtu. Og þjáning þeirra, sem ég elska mun að engu verða í þinni hendi.

(Sigurjón Friðjónsson,

úr Skriftamálum einsetumannsins)

Elsku amma, við þökkum þér samfylgdina.

Arnhildur, Óttar, Gauti og Daði.