Halldóra Sigurjónsdóttir ­ Minning Fædd 26. júní 1905 Dáin 10. apríl 1994 Þegar þú svífur enn í norðurátt, indæla vor, þá mátt þú ekki gleyma að gróðursetja í gömlu túni, hátt í grænni hlíð, þann draum að ég sé heima. (Kínverskt ljóð, þýð. Helgi Hálfdanarson.)

Langri og farsælli ævi ömmu okkar, Halldóru Sigurjónsdóttur, er lokið. Hún lést 10. apríl sl. eftir erfiða sjúkralegu.

Amma fæddist á Sandi í Aðaldal 26. júní 1905 og hefði því orðið 89 ára í vor. Foreldrar hennar voru Kristín Jónsdóttir og Sigurjón Friðjónsson, skáld og bóndi. Foreldrar Kristínar voru Jón Ólafsson og Halldóra Ásmundsdóttir, en foreldrar Sigurjóns Sigurbjörg Guðmundsdóttir og Friðjón Jónsson.

Amma var sjöunda í röðinni af 10 börnum Kristínar og Sigurjóns, sem upp komust. Þau voru Arnór, f. 1893, d. 1980, Unnur f. 1896, d. 1993, Áskell, f. 1898, Dagur, f. 1900, d. 1978, Fríður, f. 1902, Sigurbjörg, f. 1904, Ingunn, f. 1906, d. 1931, Ásrún, f. 1908, d. 1984 og Bragi, f. 1910. Fósturbróðir þeirra var Gísli T. Guðmundsson, f. 1915, d. 1991.

Hún fluttist með foreldrum sínum og systkinum að Einarsstöðum í Reykjadal árið 1906 og síðan árið 1913 að Litlu-Laugum í sömu sveit. Litlu-Laugar þóttu víst ekki merkileg jörð þá, nema vegna þess að þar var nokkur jarðhiti. Húsakynnin voru léleg fyrstu árin og alllangt til næstu bæja. Nú er þarna þétt byggð sveitabæja, skóla og bústaða þeirra, sem starfa við skólana og ýmsa þjónustu fyrir sveitina. Skólasetrið á Laugum er í landi Litlu-Lauga. Þar er nú grunnskóli, framhaldsskóli og tónlistarskóli. Þar var einnig húsmæðraskóli, sem amma kenndi við alla sína starfsævi. Þau húsakynni heyra nú að mestu undir framhaldsskólann.

Þrátt fyrir lítil efni brutust flest systkinin til mennta. Amma sat einn vetur í skóla á Breiðumýri í Reykjadal og annan í héraðsskólanum á Laugum, sem tók til starfa árið 1924. Hún var þar veturinn 1926-27, en veturinn eftir hélt hún utan til Svíþjóðar til þriggja ára náms í húsmæðrafræðum, og útskrifaðist þaðan með kennararéttindi árið 1930, 25 ára gömul. Á þeim árum var hreint ekki algengt, að ungar stúlkur ­ allra síst stúlkur úr sveit ­ tækju sig upp og héldu út í heim til náms. Það hefur þurft hugrekki og viljastyrk til, og þá eiginleika átti amma okkar í ríkum mæli. Ferðin var löng og erfið, hún var nánast mállaus fyrstu vikurnar, og bréfin voru lengi að berast á milli landa. Ekki var um það að ræða að skjótast heim í jólafrí og sumarfrí, eins og námsmenn gera núna, heldur vann hún fyrir sér þar úti á milli anna. Það var henni afar þungbært að frétta lát móður sinnar haustið 1928, en hún dó úr berklum. En þrátt fyrir alla erfiðleika minntist amma þessara ára í Svíþjóð með þakklæti og gleði. Þar bjó hún sig undir lífsstarfið, og þar eignaðist hún góðar vinkonur, sem hún hélt sambandi við alla ævi.

Þegar amma kom heim frá Svíþjóð hóf hún þegar kennslustörf við Húsmæðraskóla Þingeyinga á Laugum, en hann var stofnaður árið 1929. Hún kenndi þar fyrst og fremst matreiðslu, en auk þess stjórnaði hún skólanum frá árinu 1946 og allt til 1966. Þær skipta því hundruðum stúlkurnar, sem hún átti þátt í að búa undir lífið. Öllum hlaut hún að kynnast náið, því þær bjuggu í skólanum, sem var eins og stórt heimili. Margar þeirra bundu mikla tryggð við skólann og kennarana þar og sýna þeim ræktarsemi enn í dag.

Starfið var erfitt og illa launað, en ömmu fannst það bæði ánægjulegt og gefandi, og aldrei kvartaði hún yfir kjörum sínum. Hún var kröfuhörð við nemendur sína og kennara, en ekki síst við sjálfa sig. Hún tók nærri sér, þegar viðhorfin tóku að breytast gagnvart húsmæðrafræðslu og aðsókn minnkaði að skólanum. Henni tókst þó að snúa þróuninni við og fylla skólann að nýju, áður en hún hætti störfum 1966. Fáum árum síðar var hætt að reka húsmæðraskólann á Laugum sem heilsársskóla.

Þegar skólanefndin vildi heiðra ömmu fyrir 36 ára starf við skólann með einhverri gjöf, óskaði hún eftir því, að í stað þess að henni yrði gefið eitthvað, yrði komið fyrir listaverki í garðinum við skólahúsið. Þar stendur því listaverk eftir Ásmund Sveinsson, Ljóðið við rokkinn. Það lýsir einmitt henni ömmu, sem var listunnandi og vildi leyfa öðrum að njóta þess sama.

Amma giftist árið 1933 Halldóri Víglundssyni, smið á Laugum. Hann var sonur Svanborgar Björnsdóttur og Víglunds Helgasonar, sem bjuggu á Hauksstöðum í Vopnafirði. Amma og afi byggðu lítið hús í landi Litlu-Lauga í brekkunni fyrir ofan skólasetrið og nefndu það Varmahlíð. Þau skildu árið 1941. Afi lést árið 1977. Börn þeirra urðu þrjú:

Halldór, fæddur 1934, er yfirlæknir Kristnesspítala, giftur Birnu Björnsdóttur. Börn þeirra eru fjögur: Sigurjón, er við nám í Frakklandi; Rún, er læknir, gift Reyni Eyvindarsyni og þau eiga einn son; Pétur, er íslenskufræðingur í sambúð með Jóhönnu Kristjánsdóttur; og Halldór Björn, háskólanemi, er í sambúð með Álfheiði Hrönn Ástvaldsdóttur.

Svanhildur, fædd 1938, er félagsmálafulltrúi BSRB. Hún var gift Arnaldi Valdimarssyni, en þau eru skilin. Börn þeirra eru fjögur: Arnhildur, íslenskufræðingur, er í sambúð með Hilmari Garðarssyni og eiga þau tvo syni; Óttar, fulltrúi, er í sambúð með Kristínu Magnúsdóttur og eiga þau einn son; Gauti er bókbindari og Daði er menntaskólanemi.

Kristín, fædd 1939, er starfskona þingflokks Kvennalistans og gift Jónasi Kristjánssyni. Börn þeirra eru líka fjögur: Kristján, jarðfræðingur, er giftur Katrínu Harðardóttur og þau eiga eina dóttur; Pálmi, sagnfræðingur, er í sambúð með Sigrúnu Thorlacius og þau eiga eina dóttur; Pétur og Halldóra eru bæði menntaskólanemar.

Þegar amma hætti kennslu árið 1966 settist hún að hjá Kristínu móður okkar í Reykjavík og síðar á Seltjarnarnesi. Amma var okkur hlý og góð, og það var ómetanlegt að hafa hana á heimilinu. Við systkinin komum aldrei að tómu húsi, þótt foreldrar okkar væru að heiman í vinnu eða á ferðalögum. Það hefðu þau ekki getað á sama hátt, ef amma hefði ekki alltaf verið til staðar og eins konar önnur móðir okkar. Hún bjó hjá okkur allt til ársins 1991, þegar hún flutti í eigin íbúð skammt frá okkur á Nesinu. Kannski fannst henni hlutverki sínu lokið á heimili okkar, þar sem við systkinin töldum okkur vera orðin sjálfráða og ekki lengur jafn fús að hlíta hennar góðu ráðum. Þótt hún væri þá orðin 86 ára, bjó hún sér nýtt heimili af nákvæmni og dugnaði, valdi alla hluti sjálf og kom fyrir með aðstoð barna og barnabarna.

Á sumrin dvaldi amma alltaf í Varmahlíð, húsinu sínu í sveitinni fyrir norðan, og þar áttu börnin hennar athvarf með sínar fjölskyldur. Á hverju einasta sumri fylltist litla húsið af fólki, barnabörnunum fjölgaði jafnt og þétt, það var sofið í hverju skoti, og stundum var jafnvel tjaldað í túninu. Og þegar barnabörnin urðu fullorðin, fóru þau að koma með börnin sín í sumarheimsókn í Varmahlíð. Alltaf var pláss fyrir fleiri börn, sem uxu í kapp við trén, sem amma hafði látið gróðursetja í kringum húsið. Og hún var alltaf að láta laga húsið og snyrta lóðina. Síðast fyrir þremur árum dreif hún í því að kaupa pott og láta koma honum fyrir í túninu, svo að afkomendurnir gætu notið þeirrar ánægju að busla þar í laugarvatninu ofan úr brekkunni. Sjálf var hún þá farin að eiga svo bágt með hreyfingar, að hún gat ekki notið þess með þeim.

Amma og Varmahlíð eru óaðskiljanleg í hugum okkar, og við verðum ævinlega þakklát fyrir sumarathvarfið okkar og allt annað sem hún gerði fyrir okkur.

Amma var hraust, létt á fæti og atorkusöm vel fram yfir áttrætt, en upp úr því fór að halla undan fæti. Síðastliðið ár var heilsan orðin léleg, en norður vildi hún fara, og hún fékk að eyða síðasta sumrinu í Varmahlíð eins og vanalega. Líklega hefur hana grunað, að þetta væri síðasta ferðin, því hún lagði á sig að heimsækja gamla vini og ættingja, sem hún hafði ekki komið til nokkuð lengi. Hún var með hressara móti fyrst eftir að hún kom að norðan, en smám saman þrutu kraftarnir, og í nóvemberlok var hún lögð inn á Borgarspítala. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Eir 10. apríl.

Vorið var tíminn hennar ömmu. Hún var morgunhani og náttúruunnandi og var oft búin að fara í gönguferð um þvert og endilangt Seltjarnarnes, þegar aðrir komu á fætur. Hún kunni vel við sig hér, en hún var eins og farfugl, friðlaus að komast norður, þegar voraði. Þar leið henni best "... í gömlu túni, hátt í grænni hlíð...".

Við minnumst ömmu okkar með þakklæti og söknuði.

Dóra, Pétur, Pálmi og Kristján.