Ingunn H. Sigurjónsdóttir Hlíðar - viðb Mig langar að minnast með nokkrum orðum indællar vinkonu minnar, Ingunnar Hlíðar, hjúkrunarkonu. Við kynntumst vel því börnin okkar voru gift í 30 ár. Lífið var ekki alltaf dans á rósum hjá Ingunni, en hún missti sinn góða mann af slysförum ung að árum, með fimm dætur allar undir fermingu.

Það segir sig sjálft að það hefur verið erfitt á þessum árum að koma þeim öllum til manns og mennta.

Ég minnist þess þegar Ingunn sagði mér frá því að í mörg ár gat hún unnið á næturnar á Vífilsstaðaspítala, frá klukkan átta að kvöldi til klukkan átta að morgni og farið með strætisvagni báðar leiðir og með þessari vinnu gat hún aðstoðað og hlúð að dætrunum á daginn.

Þetta þætti erfitt ef ekki ógerningur í dag, en Ingunn var æðrulaus dugnaðarforkur sem aldrei kvartaði. Það eru sjálfsagt margir sem minnast hennar með hlýhug frá þeim árum er hún starfaði bæði á Sólheimum og Landakoti.

Dæturnar hafa allar reynt að launa henni eins vel og þær hafa getað og Ingunn hefur átt góð og róleg efri ár, lengst af hjá Brynju dóttur sinni og Herði Árnasyni syni mínum, sem lést af slysförum sl. sumar, en hann bar mikla virðingu fyrir tengdamóður sinni og þótti einkar vænt um hana.

Ingunn var á margan hátt einstök amma, sem drengirnir kunnu vel að meta og sakna nú sárt, það var gott að vita af ömmu Ingu heima þegar Brynjar var að vinna og strákarnir komu heim úr skólanum.

Ég bið góðan Guð að styrkja tengdadóttur mína á þessum stundum, þetta er búið að vera erfitt ár fyrir hana.

Huld Kristmannsdóttir.