Ingunn H. Sigurjónsdóttir Hlíðar ­ viðb Nú legg ég augun aftur, ó, Guð, þinn náðarkraftur mín veri vörn í nótt. Æ, virzt mig að þér taka, mér yfir láttu vaka þinn engil, svo ég sofi rótt. (Þýð. S. Egilsson.) Þetta er ein af bænunum sem amma Inga kenndi mér þegar ég var lítil. Amma Inga hafði alltaf nægan tíma fyrir barnabörnin sín, hún bað með mér á kvöldin, kenndi mér að spila og var alltaf til í að leika hvaða leik sem mér datt í hug þá stundina. Amma bjó hjá okkur alltaf af og til á meðan ég var að alast upp og þegar við fluttum til Svíþjóðar, þegar ég var sjö ára, þá kom hún og var hjá okkur um tíma. Hún var nánast eini leikfélagi minn og var óþreytandi í alls kyns dúkkuleikjum. Eitt lifir þó sterkt í minningunni og það var hversu litaglöð hún var þegar litabækur voru annars vegar. Í dag er hlegið að fjólubláum köttum með grænar lappir en ég man að mér var ekki skemmt þá.

Amma Inga hafði alltaf gaman af sjónvarpi og þá sérstaklega áramótaskaupinu, hún kunni þau bókstaflega öll utanbókar og þuldi brandarana upp. Hún var bæði sterk og góð kona og hennar verður sárt saknað af okkur öllum.

Okkur systurnar langar til að þakka ömmu fyrir allt það góða sem hún gaf okkur og alla þá væntumþykju sem hún sýndi okkur. Við viljum biðja góðan Guð um að geyma hana. Sofðu rótt, amma.

Ingunn Þóra Jeppesen,

Anna Kristín Jeppesen.