Minning Kristján Knútur Jónasson Ísafirði Kristján Knútur Jónasson lést af völdum snjóflóðsins sem féll yfir skíðasvæðið og sumarbústaðabyggðina að morgni þriðjudagsins 5. apríl sl. Menn setti hljóða á Ísafirði þegar fréttin um snjóflóðið barst út. Eyðileggingu á mannvirkjum er hægt að bæta, en mannslífið ekki.

Kristján Knútur var fæddur á Ísafirði 19. nóvember 1934. Hann var sonur Jónasar Guðjónssonar húsasmíðameistara, og Jónu Petólínu Sigurðardóttur.

Kristján var gagnfræðingur frá Gagnfræðaskólanum á Ísafirði og lauk húsasmíðanámi frá Iðnskólanum á Ísafirði og var meistari í húsasmíðaiðn.

Kristján vann ýmis störf til sjós og lands frá blautu barnsbeini. Kunnastur er hann þó af vettvangi, sem framkvæmdastjóri hf. Djúpbátsins.

Kristján var fæddur á kreppuárunum þegar lífsbaráttan var hörð á Ísafirði eins og annar staðar. Víst hefur ekki verið mulið undir Kristján í uppvextinum. Á Ísafirði ríkti hins vegar framfarasókn á þessum árum. Framfarahuginn og áræðið hefur Kristján drukkið í sig í uppvextinum. Það ásamt góðum gáfum, hugrekki og hrífandi persónuleika reyndist Kristjáni gott veganesti í öllu því sem hann tók sér fyrir hendur síðar á lífsleiðinni, öðrum Ísfirðingum til hagsbóta.

Með fráfalli Kristjáns er genginn einn af þeim mönnum sem settu mestan svip á Ísafjörð síðustu árin. Kristján var um langan tíma einn af forystumönnum íþróttamála á Ísafirði og sat um tíma í stjórn Knattspyrnusambands Íslands. Hann var mikilsvirkur í atvinnumálum, var hvatamaður að stofnun og endurreisn margra fyrirtækja, svo sem Togaraútgerðar Ísafjarðar og rækjuverksmiðjunnar Bakka í Hnífsdal. Þá lagði hann mikið af mörkum til ferðamála, m.a. í gegnum starf sitt sem framkvæmdastjóri Djúpbátsins.

Kristján var alla tíð virkur á hinu pólitíska sviði. Hann var um skeið formaður Alþýðuflokksins á Ísafirði og gegndi mörgum trúnaðarstörfum fyrir Alþýðuflokkinn. Kristján var kjörinn bæjarfulltrúi á Ísafirði 3. júní 1982 og sat í bæjarstjórn samfleytt í 12 ár. Forseti bæjarstjórnar var hann í átta ár. Kristjáni voru falin margvísleg trúnaðarstörf á sviði sveitarstjórnarmála og á öðrum opinberum vettvangi, var hann m.a. formaður stjórnar Heilsugæslustöðvar og Fjórðungssjúkrahúss til dauðadags.

Kynni okkar Kristjáns hófust að ráði árið 1987 þegar ég kom sem aðalmaður inn í bæjarstjórn Ísafjarðar. Kristján var þá forseti bæjarstjórnar og stýrði meirihlutasamstarfi Alþýðuflokks, Framsóknar og Alþýðubandalags. Í hlutverki forseta bæjarstjórnar nutu margir kostir Kristjáns sín vel. Hann var mjög fljótur að sjá aðalatriði hvers máls og eiginlegt að laða menn til samstarfs. Hann var snjall samningamaður, rökfastur en sá þó vel rök annarra. Hann var óþreytandi eldhugi við allt sem hann taldi Ísafirði vera til hagsbóta, má þar t.d. nefna byggingu nýs íþróttahúss. Hann var óvenju reikningsglöggur maður og var oft búinn að reikna í huganum það sem við hin vorum að reikna á vélar. Þrátt fyrir alla þessa eiginleika hreifst maður þó mest af Kristjáni fyrir hlýlegt viðmót og létta lund. Honum var létt að sjá hið skoplega í hlutunum og sagði skemmtilega frá og var einstaklega hnyttinn í tilsvörum. Lifa mörg tilsvör hans enn á vörum samferðamannanna.

Eftirlifandi eiginkona Kristjáns er Hansína Einarsdóttir frá Hnífsdal. Eignuðust þau fimm börn. Voru þau hjón samhent og heimili þeirra rómað fyrir gestrisni og hlýju. Af þeirra fundi fór fólk ævinlega ríkara en það kom, enda voru þau vinamörg.

Ég færi fjölskyldu Kristjáns samúðarkveðjur frá mér og Helgu konu minni og óska þeim guðsblessunar.

Smári Haraldsson,

bæjarstjóri á Ísafirði.