Sigrún Halldórsdóttir ­ Minning Fædd 18. janúar 1947 Dáin 6. apríl 1994 Á morgun, mánudag 18. apríl, verður gerð útför móður minnar, Sigrúnar Halldórsdóttur frá, Fossvogskirkju. Það er með djúpum söknuði sem ég minnist hennar og kveð. Hún lést í Landspítalanum 6. apríl sl. eftir mánaðarlegu þar.

Á svona stundu vakna margar spurningar, en engin eru svörin. Hvað kemur upp í hugann á þesari stundu er ung kona í blóma lífsins fellur frá?

Minningar um góða móður og ömmu og skemmtilegar stundir rifjast upp, minningar sem munu lifa ævilangt. Efst í huga mínum er þakklæti fyrir að hafa átt mínar yndislegu stundir með lífsglaðri móður. Stundum okkar fór fjölgandi síðustu árin er við deildum saman áhugamálum okkar og skiptumst á skoðunum.

Alltaf þótti mér gott að geta leitað til hennar ef mér lá eitthvað á hjarta. Oft var glatt á hjalla hjá okkur mæðgunum, ég sat stundum tímunum saman og hlustaði á hana segja frá yngri árum sínum. Minningar hennar hrönnuðust upp, frá æskuárum sínum í Svanahlíð á Akranesi, þar sem hún var fædd og uppalin. Frá því hversu dugmikla foreldra hún átti, frá prakkarastrikum sínum í sveitinni. Hún var greinilega fjörmikil stúlka. Hún kenndi manni ýmislegt sem foreldrar hennar kenndu henni, svo ég hef gott veganesti í framtíðinni.

Móðir mín ólst upp í stórum systkinahópi. Alls urðu þau 16 talsins, eftirlifandi eru 11.

Mamma var virkilega hjálpsöm kona, vildi allt fyrir alla gera, hún gaf virkilega mikið frá sér. Stærsta áhugamálið okkar var að kynna okkur dulræna hluti, hvort líf væri eftir þetta líf, miðilsstörf og ýmislegt í þeim dúr. Þetta var okkur svo fjarlægt þá. Við komumst að þeirri niðurstöðu að eftir aðskilnað okkar á jörðu hér myndum við hittast hinum megin og að dáið fólk gæti fylgst með okkur, sem mennsk erum hér á jörð.

Þar sem hún hefur nú kvatt okkur hér trúi ég að hún hafi uppgötvað annað líf og sé nú í faðmi pabba síns og bræðra. Ég veit hún hefur enn auga með okkur og er ekki alveg horfin. Aldrei hafði ég leitt hugann að því hversu trúuð hún væri, ég man þó er við systurnar vorum yngri og faðir okkar á sjó var okkur kennt að biðja fyrir honun, aldrei var farið að sofa fyrr.

Ég veit það hefur mikið reynt á þessa trú hennar, er hún bað fyrir móður sinni, elsku ömmu minni, sem þá lá veik á sjúkrahúsi og fyrir sumum systkina sinna. Er hún vissi að ég væri löt við að fara með mínar bænir skammaði hún mig oft, svo núna loksins hef ég lært þetta. Ef hún vissi um batamerki eftir bænir sínar var alltaf viðkvæðið að þetta væri honum Guði að þakka. Ég veit að hún heldur áfram að biðja fyrir okkur á nýja heimilinu sínu.

Það var sama hvað móðir mín tók sér fyrir hendur, hún var alltaf jafn myndarleg. Alltaf var jafn fínt í kringum hana. Þar sem dauðinn var okkur svo fjarlægur batt maður vonir við bata, ef einhver batamerki sáust varð maður bjartsýnn. Oft hugsaði ég hversu gaman yrði ef hún næði sér, því þá skyldum við ekki spara tímann saman. Það var svo margt sem okkur langaði að gera, en þeir draumar okkar verða að bíða þar til í næsta lífi.

Hún skilur eftir sig stórt skarð, en minningarnar munu ylja okkur um hjartarætur, minningar um yndislega móður og ömmu munu lifa. Ég veit að sonur minn mun heiðra minningu ömmu sinnar, er hann hefur þroska til. Einhvern tímann segi ég honum frá þeirra samverustundum og kenni honum það sem hún kenndi mér.

Þá daga er við hittumst ekki notuðum við óspart símann, aldrei leið sá dagur að við vissum ekki hvor um aðra. Það er svo skrýtið að aldrei framar muni ég heyra glaðlega rödd móður minnar á hinum enda línunnar. Þar sem hún er núna komin á vit nýrra ævintýra og ég veit að henni líður vel sætti ég mig við að kveðja hana sem góða móður og bestu vinkonu, sem ég hef átt. Hún verður mér ávallt efst í huga.

Amma mín minnist hennar sem stillts og góðs barns. Hjálpsamrar og skemmtilegrar dóttur. Alltaf fannst þeim gaman að tala saman og veit ég vel að þetta er erfið raun fyrir ömmu mína, að horfa á eftir fimmta barninu sínu. Guð gefi henni styrk.

Sigrún var dóttir Helgu Jónínu Ásgrímsdóttur, Akranesi, og Halldórs Magnússonar, Akranesi, sem lést 1977.

Elsku amma, Linda, Helga, Birkir Freyr, móðursystkini og aðrir ástvinir, megi Guð veita ykkur styrk og trú í þessari miklu raun, svo ykkur auðnist að bera sorg ykkar fram á veg vona og minninga, minninga um móður, ömmu, dóttur og systurina bestu, sem gaf ykkur svo mikið.

Blessuð sé minning hennar.

Dýrleif Ólafsdóttir.