Soffía Smith - viðb Kær vinkona mín, Soffía smith, er fallin frá. Þegar ég lít til baka til þeirra 35 ára sem við höfum verið nágrannar er margs að minnast. Ég og fjölskylda mín fluttum á Tunguveg

34 í júní 1958, en hálfum mánuði seinna fluttu Soffía og Gunnar ásamt sonum sínum á Tunguveg 30 og tókst þá strax mikil vinátta og samgangur okkar á milli, því okkur leist strax vel á þessi indælu hjón.

Soffía var stórglæsileg kona eins og allir vita sem hana þekktu, heillandi persónuleiki, skemmtileg og þægileg í allri umgengni, og alltaf var jafn yndislegt að umgangast hana. Börnin mín litu líka fljótlega á hana sem eina af fjölskyldunni, því ekkert mátti ske án þess að hún væri með. Eldri sonur minn, Eyjólfur, og yngsti sonur Soffíu, Hilmar, voru á svipuðum aldri og urðu fljótlega vinir sem þeir eru enn. Yngri sonur minn Óli Valur kallaði hana alltaf kleinukonuna, því hún var ónísk á kleinurnar sem hún var að baka og alltaf fékk hann hjá henni kleinur eða rúsinkur eins og hann orðaði það. Í gegnum árin þegar báðar dætur mínar bjuggu erlendis þá var alltaf spurt um Soffíu þegar þær höfðu samband.

Þegar Gunnar féll frá fyrir rúmum þrettán árum og maðurinn minn lést nokkrum mánuðum síðar urðum við ennþá nánari og fórum saman vítt og breitt. Meðal annars fórum við til Svíþjóðar þar sem Örn sonur hennar bjó ásamt fjölskyldu sinni og síðan til Kaupmannahafnar þar sem bæði systir mín og dóttir bjuggu ásamt fjölskyldum sínum. Þá má ekki gleyma öllum þeim ferðum sem farnar voru með Kvenfélagi Bústaðasóknar, en í því félagi störfuðum við báðar af miklum krafti, bæði í stjórn og ýmsu öðru.

Soffía var ætíð hrókur alls fagnaðar og ómissandi í öllum skemmtiþáttum og gríni þegar eitthvað var um að vera í félagsstarfinu eða skemmta þurfti gestum á fundum. Þá má ekki gleyma kvöldvökunum í húsmæðraorlofinu á Hvanneyri þar sem hún fór á kostum. Við erum áreiðanlega margar sem eigum eftir að sakna Soffíu sárt úr félagsstarfinu og höfum reyndar saknað hennar í vetur, við hefðum svo gjarnan viljað hafa hana lengur með okkur. Ekki er hennar síður saknað á miðvikudögum þar sem hún starfaði með konum úr kvenfélaginu sem séð hafa um kaffi og aðra þjónustu við eldri borgara hverfisins í safnaðarheimilinu um áraraðir.

Þegar hugurinn reikar til baka koma fram ótal minningar, eins og þegar við vorum að kaupa saman plöntur í garðinn á vorin, skruppum í leikhús, sund, málverkasýningu eða bara dunduðum okkur í garðinum. Það var sannarlega aldrei nein lognmolla þar sem við vorum saman. Mennirnir okkar voru aftur á móti rólegri. Það kom stundum fyrir þegar þeir sátu saman í stofunni og við í eldhúsinu að okkur fannst þrátt fyrir masið í okkur allt verða svo hljótt að við fórum að gá að því hvort þeir hefðu sofnað, en þá sátu þeir bara afslappaðir hvor í sínum stólnum og Gunnar sagði oft: Það er svo gott að vera með honum Óla, það er nefnilega hægt að þegja með honum. Það var áreiðanlega sjaldgæft að við Soffía þegðum báðar í einu ef við vorum tvær saman.

Ég vil enda þessar línur með því að þakka Soffíu fyrir alla hennar vináttu í gegnum árin við mig og fjölskyldu mína og þá ekki síst þær móttökur sem Henning fékk hjá henni þegar hann kom í fjölskylduna. Ósjaldan vorum við boðin í mat eða kaffi til hennar og alltaf var jafn ánægjulegt að vera í návist hennar. Við eigum eftir að sakna þess að sjá ekki lengur glaða brosið hennar og glettnisglampann í augunum sem jaðraði við að vera prakkaralegur oft á tíðum.

Elsku Soffía, við þökkum fyrir það að hafa fengið að kynnast þér og minningin um þig mun lifa hjá okkur um ókomin ár.

Ég og fjölskylda mín sendum sonum Soffíu og fjölskyldum þeirra innilegar samúðarkveðjur. Guð blessi minningu hennar.

Dagmar.