Soffía Smith - viðb Það er með miklum trega og söknuði sem við kveðjum elskulega vinkonu okkar, Soffíu Smith. Svo lengi sem elstu starfsmenn Smith og Norland muna hefur hún fylgt okkur og stafað geislum á hversdagstilveru okkar. Soffía var gift Gunnari heitnum Smith sem upphaflega stofnaði fyrirtæki undir heitinu Paul og Smith & Co. Árið 1956 breyttist það síðan í Smith & Norland hf. Gunnar og Soffía eru öllum ógleymanleg sem þeim kynntust. Óbeisluð frásagnargáfa og húmorinn voru hverjum manni sem vítamínsprauta í erli daganna.

Í áraraðir sá Soffía um ræstingar í fyrirtækinu og gerði það af sama myndarbrag og annað sem hún tók sér fyrir hendur.

Soffía var glæsileg og gefandi kona og hrókur alls fagnaðar. Á árshátíðum okkar naut hún þess að taka undir í fjöldasöng og fáir slitu dansgólfinu jafn rækilega og hún. Í haustferðum fyrirtækisins lét hún sig líka ekki muna um það að leika knattspyrnu af mikilli innlifun. Og ekki gleymdist í þessum ferðum stóra boxið með kleinunum hennar Soffíu sem voru óviðjafnanlegar.

Gott samferðafólk gefur lífinu gildi. Við eigum ekki eftir að fá þessa gæðakonu í fleiri heimsóknir í vinnuna til okkar með brjóstsykurpokann á lofti og hressileikann í fyrirrúmi. Minningin um Soffíu Smith er á hinn bóginn vandlega geymd í hjörtum okkar.

Sonum, tengdadætrum og barnabörnum hennar sendum við innilegar samúðarkveðjur.

Starfsfólk Smith & Norland.