Þórður Jónsson smiður ­ Minning Fæddur 4. mars 1916 Dáinn 31. mars 1994 Laugardaginn 6. apríl sl. var til moldar borinn í Selfosskirkjugarði Þórður Jónsson, Smáratúni 20­b hér á Selfossi. Þórður var fæddur í Syðri-Gróf í Villingaholtshreppi, sonur þeirra sæmdarhjóna Jóns Sigurðssonar og Rannveigar Linnet. Þórður gekk að eiga eftirlifandi eiginkonu sína, Vigdísi Kristjánsdóttur, frá Forsæti, árið 1940. Byggðu þau iðnaðarbýlið Sólbakka úr landi Forsætis og bjuggu þar alllengi eða þar til þau fluttu að Selfossi. Þau Þórður og Dísa áttu tvö börn, Jón, kennara, sem látinn er fyrir nokkrum árum, og Rannveigu sem búsett er á Hvolsvelli, gift Örlygi Jónassyni rafveitustjóra.

Mig langar að minnast þessa ágæta samferðamanns og vinar nokkrum orðum og sér í lagi fyrir snilli hans í öllu handverki. Að sögn föður míns, sem þekkti vel þau Jón og Rannveigu í Syðri-Gróf, voru þau bæði mikið hagleiksfólk, Jón listasmiður bæði á tré og járn og Rannveig lærð saumakona. Svo Þórður hefur trúlega fengið þennan hagleik í vöggugjöf. Þegar foreldrar mínir keyptu jörðina Syðri-Gróf af Rannveigu, móður Þórðar, 1948, höfðu þau Þórður og Dísa komið sér vel fyrir á hinu snotra býli sínu Sólbakka og stundaði Þórður þá smíðar bæði heima og heiman. Þórður átti þá líka lítinn pallbíl sem hann hafði gert upp af miklum hagleik og var þá einn fárra bíleigenda í sveitinni sem oft þurfti að leita til ef bregða átti sér af bæ akandi. Smíðaverkstæðið hans Þórðar á Sólbakka var ekki stórt, en þar var öllu haglega fyrir komið og verkfærin falleg og mörg hver smíðuð af honum sjálfum. Rennibekkur, mikil hagleikssmíð, og pressa sem byggð var á statífi undan gamalli skilvindu, svo fátt eitt sé talið. Þegar Þórður og mágar hans, Sigurjón og Gestur í Forsæti, hófu að framleiða handsnúnu- og rafmangs-rokkana, sem frægir urðu um allt land, tók Þórður að sér að smíða járnverkið sem þótti afar vel gert eins og þessi tæki í heild.

Spunarokkar þessir voru allt frá einsþráðar og upp í fimmþráða. Ég vil trúa því að í óskráðri handverkssögu uppfinningamanna og snillinga í Villingaholtshreppi muni verða merkur kafli um Þórð Jónsson smið frá Syðri-Gróf.

Þessa sögu verða fyrrverandi sveitungar mínir að fara að skrá og verðugt verkefni væri að koma upp safni slíkra muna í sveitinni og er þá bæði átt við heimagerð verkfæri og uppfinningar og smíðisgripi.

Þeim fer nú fækkandi sem muna gömlu verkstæðin snillinganna, í Villingaholti, Forsæti, á Sólbakka og jafnvel víðar. Þórður mun aldrei hafa öðlast fagréttindi til smíða, en lengst af unnu þeir saman hann og Jonni sonur hans og ráku stórt og myndarlegt smíðaverkstæði á baklóð við húsið sitt í Smáratúninu hér á Selfossi. Eftir þá feðga eru víða mikil hagleiksverk, einkum í innréttingasmíði. Ég sagði stundum um Þórð að hann væri konunglegur hirðsmiður hjá mér, enda byggði hann íbúðarhúsið mitt í Syðri-Gróf og endurbyggði að verulegu leyti íbúðarhús mitt á Selfossi bæði utan og innan. Þá vil ég með ánægju minnast samstarfs okkar Þórðar að undirbúningi, hönnun og smíði félagsheimilisins Þjórsárvegs, en þá var undirritaður formaður Ungmennafélagsins Vöku.

Það var gaman og lærdómsríkt að hafa þá feðga í vinnu. Þeir töluðu mikið saman og virtust njóta hverrar stundar sem þeir lögðu hönd að góðu verki.

Hafi verið hægt að segja það um einhverja handverksmenn, þá voru þeir smiðir af guðs náð. Það var auðvitað óbærilegt fyrir Þórð að missa son sinn í blóma lífsins, en Jonni var þá orðinn smíðakennari við Fjölbrautaskóla Suðurlands og skaðinn var ekki minni þar.

Að leiðarlokum þökkum við hjónin Þórði og reyndar Jóni líka þá gleði sem þeir veittu okkur með ljúfmannlegu samstarfi við hönnum og frágang á heimili okkar, þeirri umgjörð sem okkur hefur fallið svo vel. Dísu þökkum við áralanga vináttu og óskum henni og eftirlifandi aðstandendum blessunar um ókomna tíð.

Hafsteinn Þorvaldsson.