Major Anne Marie Reinholdtsen, yfirforingi Hjálpræðishersins á Íslandi, var fædd 14. desember 1950 á eyjunni Færøykavlen undan vesturströnd Noregs. Hún lést í umferðarslysi í Gilsfirði 19. júní sl. Anne Marie var dóttir hjónanna Borgny, f. Bertelsen, og Leif Færøykavlen. Anne Marie var yngst 7 systkina og eru fimm þeirra á lífi. Hún lauk stúdentsprófi frá menntaskólanum í Florø og sat árin 1974-1976 á skólabekk foringjaskóla Hjálpræðishersins í Ósló. Þar kynntist hún eftirlifandi eiginmanni sínum, Harold Johan Reinholdtsen, f. 20. nóvember 1953. Hlutu þau bæði foringjavígslu árið 1976 en gengu í hjónaband ári síðar, þann 18. júní 1977. Sama ár héldu þau til sinnar fyrstu þjónustu fyrir Hjálpræðisherinn á Íslandi. Alls urðu þjónustutímabil þeirra hjónanna á Íslandi þrjú, fyrst á Akureyri en síðan í tvígang í Reykjavík. Á milli störfuðu þau í Ósló, Sandnes og síðan lengst í Kristiansand í Noregi áður en þau tóku að sér forystu Hersins á Íslandi frá árinu 2003. Börn þeirra Harolds og Anne Marie eru þrjú: 1) Håkon, tölvunarfræðingur, f. 10. júní 1980, kvæntur Hilde Synnøve, og eiga þau von á barni í september. 2) Birgitte, fangavörður, f. 18. mars 1982, gift Jan Morten Paulsen. 3) Jørgen, f. 17. desember 1985, lögfræðingur, unnusta hans er Anniina Härkönen. Þau eru öll búsett í Noregi. Anne Marie var framsýn hugsjónakona sem lifði fyrir störf sín í þágu þeirra sem minnst mega sín og boðaði fagnaðarerindið í orði og verki. Á Kristiansand-árunum stofnaði hún kaffihús fyrir ungmenni, Café Jabes, og kom á hjálparstarfs- og kristniboðstengslum við Moldavíu. Hér heima stóð hún fyrir því að Hjálpræðisherinn opnaði dagsetur fyrir heimilislaust fólk árið 2007 á Eyjarslóð 7 úti á Granda og hlaut viðurkenningu úr hendi forseta Íslands fyrir það mikilsverða mannúðarmál. Hvert sumar frá 2005 annaðist Anne Marie um Ferðamannakirkjuna í Herkastalanum og uppörvaði fjölmarga með prédikun sinni og söng og ljúfu viðmóti. Major Anne Marie var mikilsvirtur og sterkur foringi en um leið mikill vinur mannsins á götunni og vildi heldur vera á vettvangi en á bak við skrifborð. Auk fjölmargra starfa sinna fyrir Hjálpræðisherinn, innan lands sem utan, var hún öflug liðskona samkirkjulegs starfs, var fulltrúi í Samstarfsnefnd kristinna trúfélaga á Íslandi og virkur þátttakandi í Alþjóðlegum bænadegi kvenna. Áhugamál Anne Marie voru öll tengd sköpunarverkinu, hún var ljósmyndari af Guðs náð, stundaði sjósund allan ársins hring og árið 2008 stofnaði hún Salvation Riders, MC Iceland, mótorhjólaklúbb Hjálpræðishersins og var þar virkur félagi. Ísland stóð hjarta hennar afar nærri og talaði hún lýtalausa íslensku. Major Anne Marie Færøykavlen Reinholdtsen var minnst í Dómkirkjunni í Reykjavík 22. júní síðastliðinn. Útför hennar verður gerð frá Oslo 3. korps í dag, 29. júní 2010. Jarðsett verður í Vestre Gravlund.


Orð verða svo fátækleg og lítil þegar sorgin fyllir huga okkar og söknuðurinn er svo yfirþyrmandi. En samt viljum við setja á blað nokkur orð til að minnast vinkonu okkar, Hjálpræðishersfélaga og yfirmanns, sem svo skyndilega var kölluð héðan laugardaginn 19. júní sl.
Við áttum því láni að fagna að fá að kynnast Anne Marie og eiginmanni hennar, Harold, fyrir rúmum þremur áratugum. Þau voru nýgift og nýútskrifuð sem foringjar í Hjálpræðishernum og höfðu fengið það verkefni að veita starfi Hersins á Akureyri forstöðu. Á þeim tíma var þar rekið lítið gesta- og sjómannaheimili og safnaðarstarf var mjög fjölbreytt fyrir bæði börn og fullorðna.
Það hafði gengið á ýmsu í starfi Hjálpræðishersins á Akureyri fram að þessu og þeir foringjar sem sendir voru til starfa hingað stoppuðu yfirleitt stutt við. Það var því mikill fengur að fá unga og hæfileikaríka foringja sem gáfu það berlega í skyn að þau sóttust eftir að fá að vera mörg ár á Akureyri. Þess vegna var því mótmælt harðlega þegar senda átti þau burtu að ári liðnu og mótmælin tekin til greina við mikinn fögnuð heimamanna. Anne Marie og Harold höfðu þegar unnið hug og hjörtu Akureyringa.
Í hönd fór blómlegur tími í starfi Hjálpræðishersins á Akureyri. Fljótlega var rekstri gesta- og sjómannaheimilisins hætt og því gátu þau einbeitt sér að safnaðarstarfinu. Sjaldan eða aldrei hafa fleiri krakkar klæðst búningi yngriliðsmanna en undir stjórn þeirra hjóna. Barna- og unglingasamkomur voru vel sóttar, gefnar voru út hljóðsnældur með söng yngriliðsmanna og fullorðnir samkomugestir fengu einnig að njóta söng- og tónlistarhæfileika Anne Marie og Harold.
Anne Marie lagði sig alla fram við að læra íslenskuna og var hún sérstökum gáfum gædd á því sviði. Svo góðum tökum náði hún á málinu að sumir töldu hana vera Íslending sem legði kapp á að tala skýrt og rétt mál.
Anne Marie var tíður gestur á heimili okkar við Strandgötuna sem var aðeins steinsnar frá Hjálpræðishernum. Þar upphófst vinátta sem haldist hefur æ síðan. Okkur þótti sérstaklega vænt um að fá að fylgjast með þessum yndislegu hjónum þegar þau eignuðust frumburðinn sinn, Håkon, árið 1980. Þar sem foreldrar þeirra bjuggu víðs fjarri vorum við boðin og búin til að styðja við bakið á þeim með ráðum og dáð sem þau þáðu. Okkur fannst við verða eins konar vara amma og afi fyrir Håkon og Birgitte sem fæddist tveimur árum síðar. Krakkarnir okkar höfðu líka unun af því að passa og leika við krakkana.
Eftir fimm ára dvöl og farsælt starf á Akureyri var komið að kveðjustund og sú stund var erfið bæði stórum og smáum. En árangurinn af starfi þeirra var greinilegur. Hjálpræðisherinn var kominn í gott og hentugt húsnæði við Hvannavelli og aðsókn hafði aukist á samkomur, ekki síst barnasamkomurnar. En árangurinn sem ekki er sýnilegur er þó dýrmætastur, því hann hefur eilífðargildi. Þau frjókorn Guðs orð sem sáð var í hjörtu barna, unglinga og fullorðinna. Árangurinn af því fáum við ekki að sjá til fullnustu hér á jörðu, en við erum sannfærð um að hann er mikill. Ekki síst vegna mikilla hæfileika Anne Marie að veita kærleika, umhyggju og hlýju og undirbúa þannig jarðveginn fyrir boðskapinn sem gefur fyrirheiti um fyrirgefningu afbrota okkar og eilíft líf.
Hjálpræðisherinn átti því láni að fagna að fá Anne Marie og Harold aftur til starfa aðeins tveimur árum síðar, en þá var hlutverk þeirra að veita forstöðu söfnuðinum í Reykjavík. Einnig þá áttu þau gott tímabil sem varði í sjö ár.
Árið 2003 var Anne Marie skipuð yfirforingi yfir starfi Hjálpræðishersins á Íslandi. Þetta voru góð ár fyrir Hjálpræðisherinn, en einnig fyrir þau hjónin sem undu hag sínum vel á Íslandi. Það var því óskiljanleg ákvörðun yfirstjórnar Hjálpræðishersins að kalla þau af landi brott nú í sumar, en í þetta sinn dugði ekki að mótmæla.
Sú ákvörðun er þó bara hjóm miðað við ákvörðun hins alvalda að dagar Anne Marie skyldu taldir laugardaginn 19. júní. Heldur ekki í þetta sinn dugir að mótmæla. En við syrgjum. Og sorgin segir okkur hve ríkt pláss Anne Marie átti í hjörtum okkar.
En við þökkum um leið. Fyrir það lán að hafa fengið að kynnast Anne Marie og hafa fengið að starfa með henni. Fyrir að fá að njóta kærleika hennar, velvildar, leiðsagnar og hvatningar gegnum árin. Fyrir það fordæmi sem hún gaf í þjónustu.
Elsku Harold, Håkon, Birgitte, Jørgen og tengdabörn. Missir ykkar er svo ólýsanlega mikill. Við biðjum að algóður Guð styrki ykkur í sorginni og leiði ykkur áfram og gefi ykkur náð til að geta glaðst þegar þið dveljið við ótal minningar sem þið eigið um ástríka eiginkonu, móður og tengdamóður.


Hermina Jónsdóttir, Níels Jakob Erlingsson og börn.