4. júlí 2010 | Sunnudagsmoggi | 2037 orð | 1 mynd

Þú getur ekki verið ósammála ein hverju nema þú skiljir það fyrst!

„Það er mikill misskilningur og þröngsýn nálgun hjá stjórnmálamönnum að líta bara á stofnkostnað og reglulegan rekstrarkostnað við millidómstig, sem mér skilst að sé á annað hundrað milljónir króna á ári, þegar lagt er mat á þennan valkost,“ segir Róbert R. Spanó.
„Það er mikill misskilningur og þröngsýn nálgun hjá stjórnmálamönnum að líta bara á stofnkostnað og reglulegan rekstrarkostnað við millidómstig, sem mér skilst að sé á annað hundrað milljónir króna á ári, þegar lagt er mat á þennan valkost,“ segir Róbert R. Spanó. — Morgunblaðið/Eggert
Staða lagadeildar Háskóla Íslands hefur aldrei verið sterkari en nú en finna þarf flöt á samstarfi við aðrar lagadeildir. Háskólakennarar á sviði lögfræði þurfa að vera aðgengilegri fyrir þegna þessa lands og koma þarf á fót millidómstigi.
Staða lagadeildar Háskóla Íslands hefur aldrei verið sterkari en nú en finna þarf flöt á samstarfi við aðrar lagadeildir. Háskólakennarar á sviði lögfræði þurfa að vera aðgengilegri fyrir þegna þessa lands og koma þarf á fót millidómstigi. Þetta kemur fram í samtali við nýjan forseta lagadeildar HÍ, Róbert R. Spanó. Orri Páll Ormarsson orri@mbl.is

Róbert R. Spanó lagaprófessor söðlaði um í vikunni. Tók við stöðu forseta lagadeildar Háskóla Íslands en undanfarið hálft annað ár hefur hann verið settur umboðsmaður Alþingis í fjarveru Tryggva Gunnarssonar. Nýja starfið, sem hann mun gegna næstu tvö árin, leggst vel í Róbert enda er hann öllum hnútum kunnugur í deildinni, hefur verið þar prófessor frá 2006 og varaforseti frá 2007.

Lagadeild HÍ þurfti á sínum tíma að takast á við aukna samkeppni, eins og svo margar aðrar deildir skólans. Að dómi Róberts hefur sú reynsla verið mjög jákvæð fyrir deildina, eflt hana og styrkt. „Ástæðan er sú að deildin þurfti að horfa inn á við, taka sig í gegn, endurmeta uppbyggingu náms og svo framvegis,“ segir hann, þegar við höfum komið okkur fyrir á skrifstofu hans í Lögbergi fyrsta vinnudaginn.

„Deildin stendur núna frammi fyrir því að það er ásókn frá laganemum annarra deilda, sem hafa lokið BA-námi í lögfræði og vilja koma til okkar í meistaranám,“ heldur Róbert áfram. „Við höfum þurft að taka á þeirri ásókn með því að meta að hvaða marki okkur er heimilt að taka við nemendum frá öðrum lagadeildum. Deildin hefur lagt það til grundvallar að nemendur þurfi að hafa að minnsta kosti sambærilegt grunnpróf og okkar nemendur.“

Róbert segir forvera sinn í starfi, Björgu Thorarensen, hafa sett fram hugmyndir um það hvernig koma megi til móts við nemendur annarra deilda. „Mér skilst að þær hugmyndir hafi ekki hlotið hljómgrunn hjá forsvarsmönnum hinna deildanna. Hvað sem því líður erum við nú að vinna að tillögum um það hvernig við getum leyst þetta mál enda hlýtur það að vera hagsmunamál að laganemar eigi þess kost að sækja nám í öðrum lagadeildum, ekki síst á meistarastiginu. Við erum öll af vilja gerð til að efla þetta samstarf.“

Hann segir vandamálið á hinn bóginn eiga sér dýpri rætur. „Vandamálið lýtur að stefnumótun á sviði háskólanáms, á þessu sviði sem öðrum. Það skortir að einhverju leyti hinn pólitíska útgangspunkt. Það er með öðrum orðum mjög erfitt að halda áfram að gera tillögur um lausn á vandamáli ef maður áttar sig ekki á því hver endapunkturinn er af hálfu stjórnvalda. Það dugar ekki að mínu áliti að orða hlutina á þann veg að auka eigi samstarf og samþætta. Þetta eru of almenn viðmið til þess að á þeim sé byggjandi. Fyrir vikið verða þeir sem fara með fjármunina að taka skýrari afstöðu til þess hvernig framtíðin á að líta út.“

Núverandi ástand gengur ekki til lengdar

Það er skoðun Róberts að stjórnvöld eigi fyrst og fremst að leitast við að styrkja grunnnám við ríkisháskólann, þ.e. Háskóla Íslands. Það standi á gömlum merg, hundrað ára gamalt, og sé gott með hliðsjón af öðrum deildum. „Staða lagadeildar HÍ hefur ekki í annan tíma verið eins sterk og ég hef sannfærst um að það grunnnámsmódel sem við byggjum á hér við lagadeild HÍ, með mikla áherslu á aðferðafræðilega þjálfun, sé það rétta og standi öðrum útfærslum framar. Á móti kemur að alls ekki á að útiloka valkosti í laganámi. Það er hins vegar alveg ljóst að núverandi ástand gengur ekki til lengdar, hvorki hvað varðar fjármuni né uppbyggingu, með hliðsjón af þeim niðurskurði sem átt hefur sér stað. Í þessu sambandi er nóg að vísa til stöðu laganáms í nágrannalöndum okkar. Við erum hlutfallslega með alltof stórt kerfi til að það gangi til lengdar.“

Róbert viðurkennir að lagadeild HÍ hafi ekki farið varhluta af umræðunni og upp að vissu marki gagnrýninni sem fram hefur komið eftir bankahrunið. „Það er eðlilegt að háskóladeild sem þessi fari í ákveðna naflaskoðun í kjölfar umbrota eins og þeirra sem átt hafa sér stað hér á landi og velti fyrir sér hvernig hún getur brugðist við til að varðveita grundvallargildi þeirrar fræðigreinar sem hún er að fást við,“ segir hann.

Í því sambandi er einkum tvennt sem Róbert hyggst beita sér fyrir í starfi. „Það eru hæg heimatökin með fyrra atriðið sem snýr að kennslu í almennri lögfræði, sem er aðferðafræði lögfræðinnar sem kennd er á fyrsta ári, en á þeirri grein ber ég ábyrgð. Það er mikið mótunarár fyrir laganema enda brýnt að fyrsta sýn þeirra á námið sé með þeim hætti að þeir upplifi grundvallarhugsun lögfræðinnar. Fyrir vikið erum við nú með til skoðunar að gera ákveðnar breytingar á laganáminu á fyrsta ári, það er leggja meiri áherslu á réttarheimspekilegar kenningar og leitast við að draga inn umfjöllun um það sem kalla má réttarsiðfræði. Þó er mikilvægt að hafa í huga að alfa og omega laganáms og starfs lögfræðinga er djúp þekking á þeim aðferðum sem þeir nota til að leysa úr álitamálum. Þar er lagadeild HÍ sterkust að mínu áliti.“

Hitt atriðið sem Róbert nefnir lýtur beint að þeim boðskap sem ráða má af skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um störf lögfræðinga og athugasemdunum sem settar eru fram um stjórnsýsluna. „Eitt af því sem skýrslan kennir okkur er að stjórnvöldum er falinn mjög mikilvægur eftirlitsþáttur, það er hlutverk við að gæta almannahagsmuna með eftirlitsheimildum. Þær eru hins vegar oft mjög matskenndar og veita stjórnvöldum oft mikið val um valkostina sem þau hafa til að fylgja eftirlitinu og ná markmiði laganna. Eitt af því sem ég held að á skorti í laganámi, sérstaklega á sviði stjórnsýslu og stjórnsýsluréttar, er að kenna lögfræðingum að hugsa „pró-aktíft“ um það hvernig stefnumótunarvinna á að eiga sér stað á vettvangi stjórnvalda til að leggja grunn að beitingu matskenndra lagaheimilda. Þannig verður auðveldara að beita þeim.“

Róbert veltir fyrir sér hvort háskólakennarar á sviði lögfræði hafi sinnt nægilega skyldum sínum í opinberri umræðu um lögfræðileg viðfangsefni.

„Það er núna verkefni Háskóla Íslands, eins og annarra háskóla, og þeirra akademísku starfsmanna sem þar starfa, að velta fyrir sér hver hlutur þeirra var í því ástandi sem hér skapaðist, því gagnrýnis- og aðhaldsleysi á kerfislæga aðila, annars vegar stjórnvöld og hins vegar einkaaðila, sérstaklega fjármálastofnanir, sem var auðvitað ein meginorsök bankahrunsins.

Ég leyfi mér að segja að við háskólakennarar á sviði lögfræði, ég þar með talinn, höfum ekki staðið okkar vakt nægilega vel í því að vera aðgengilegir fyrir borgara þessa lands og fulltrúa þeirra, fjölmiðla og aðra sem eru að miðla upplýsingum um lögfræðileg viðfangsefni. Það er eðlilegt að háskólakennarar gefi sér tóm, svigrúm og tíma, til þess að leitast við að fjalla um lögfræðileg málefni líðandi stundar sem brenna á þjóðinni og reyna að útskýra á mannamáli, ekki bara hver álitamálin eru hverju sinni heldur líka af hverju lögfræðileg niðurstaða kann að vera svona mikið álitaefni. Ég held að það komi borgurum þessa lands oft spánskt fyrir sjónir hvers vegna svona mikill ágreiningur getur verið uppi um einstök mál. Þá þurfum við sérfræðingarnir að útskýra hvað það er við fræðigreinina sem gerir það að verkum að þetta er svona. Það er ekkert óeðlilegt að lögfræðinga greini á um hver eigi að vera niðurstaða um gildandi rétt. Meginatriðið í því sambandi er að umræðan sé upplýst, það er að lögfræðingar taki ekki til máls án þess að hafa rannsakað viðfangsefnið og skoðað allar hliðar þess. Ófaglegar upphrópanir eru aðeins til þess fallnar að draga úr trausti almennings á lögfræðinni sem fræðigrein. Þarna á hið sígilda við: Þú getur ekki verið ósammála einhverju nema þú skiljir það fyrst!“

Að þessu sögðu upplýsir Róbert að hann muni leitast við, meðan hann gegnir stöðu deildarforseta, að skapa svigrúm fyrir sitt fólk til að efna til upplýstari og faglegri umræðu um lögfræðileg álitamál og þjónusta þjóðina gegnum fjölmiðla, ráðstefnur og aðrar leiðir.

Vaxandi álag á dómskerfið hefur verið til umfjöllunar. Hvernig skyldi Róbert álíta að það sé í stakk búið að leysa úr þeim ágreiningsmálum sem við blasa?

„Strax og bankahrunið átti sér stað taldi ég, sem ritstjóri Tímarits lögfræðinga, mjög mikilvægt að fjalla um afleiðingar þess fyrir störf lögfræðinga og ekki síst fyrir íslenska dómskerfið. Það er nefnilega alveg ljóst að dómskerfið verður einn meginvettvangur uppgjörs bankahrunsins. Niðurstöður dómstóla munu hafa mikla þýðingu um það hvernig við komumst út úr því ástandi sem nú ríkir.“

Róbert hefur jafnframt lagt á það áherslu að dómskerfið verði vettvangur faglegrar umfjöllunar um ágreiningsmál líðandi stundar. „Dómarar mega ekki láta vinda sem blása hverju sinni í samfélaginu hafa áhrif á störf sín. Þeirra hlutverk er að leysa úr málum á grundvelli reglna sem liggja fyrir óháð því hverjir eru aðilar málsins. Þar er gríðarlega mikilvægt að dómarar setji í úrlausnum sínum fram gegnsæjar, faglegar og málefnalegar röksemdir fyrir niðurstöðu sinni, þannig að traust skapist um hana, sama hver niðurstaðan er. Ég hef fulla trú á íslenska dómskerfinu, enda mikið af hæfileikaríku fólki sem þar starfar.“ Hann segir menn þegar farna að bregðast við álaginu, búið er að bæta fimm dómurum við á héraðsdómsstiginu. „Mín skoðun er hins vegar sú, og henni hef ég áður lýst á vettvangi Tímarits lögfræðinga, að það gangi ekki til lengdar að efla ekki æðsta dómstigið, sem er Hæstiréttur. Langskynsamlegasti valkosturinn er að setja upp millidómstig, bæði í einkamálum og sakamálum.“

– En það eru ekki til peningar, að sögn dómsmálaráðherra.

„Það er mikill misskilningur og þröngsýn nálgun hjá stjórnmálamönnum að líta bara á stofnkostnað og reglulegan rekstrarkostnað við millidómstig, sem mér skilst að sé á annað hundrað milljónir króna á ári, þegar lagt er mat á þennan valkost. Það þarf líka að líta á kostnaðinn fyrir borgara þessa lands við það að leggja mál fyrir dómstóla. Til lengdar kann millidómstig því í reynd að vera tiltölulega hagkvæmur valkostur með því að draga úr heildarmálafjölda fyrir dómstólum. Þannig tækist að klára mikinn fjölda af ágreiningsmálum áður en kæmi til kasta Hæstaréttar og hann næði fyrir vikið betur að sinna stærri málum og fordæmishlutverkinu sem hann hefur, þ.e. að varpa ljósi á gildandi rétt í miklu fleiri tilvikum en bara einstökum dómsmálum.“

Fjölga þarf hæstaréttardómurum

Sé staðan hins vegar sú að stjórnmálamenn telji ríkissjóð ekki hafa fjárhagslegt bolmagn til að standa undir millidómstigi segir Róbert ótvírætt að fjölga þurfi hæstaréttardómurum. „Ég setti fram þá skoðun í ritstjórnargrein í fyrsta hefti Tímarits lögfræðinga 2010 að hæstaréttardómurum yrði fjölgað um þrjá og tel það lágmark til þess að takast á við þá tíma sem framundan eru. En samhliða því þarf einnig að huga að verklagi og skipulagningu mála innan Hæstaréttar, meðal annars hvernig dómarar eru valdir saman og skipað í ákveðnar deildir.“

Róbert er til dæmis þeirrar skoðunar að það sé athugunarvert að Hæstiréttur skyldi bara vera skipaður fimm dómurum í þeim gengistryggingarmálum sem flutt voru í réttinum í byrjun sumars. „Færa má sterk rök fyrir því að þarna hefði dómurinn átt að vera skipaður sjö dómurum vegna þess að um var að ræða sérlega mikilvæg mál í merkingu dómstólalaga eins og alþjóð veit og fordæmisgildi dóma af þessu tagi þarf að vera hafið yfir allan vafa. Það að þetta hafi ekki verið gert í þessu tilviki er staðfesting á álaginu sem Hæstiréttur stendur frammi fyrir,“ segir Róbert en tekur þó skýrt fram að með þessu sé hann ekki að taka afstöðu til efnislegrar niðurstöðu í málinu.

Róbert segir það hlutverk dómsvaldsins að gæta sjálfstæðis síns enda er það einn af þremur handhöfum ríkisvaldsins. „Varðveisla á þessu sjálfstæði er tvíþætt. Annars vegar endurspeglast sjálfstæðið í skipunar- og hæfisreglum dómara. Hins vegar varðar sjálfstæðið líka fjármuni og aðstöðu dómsvaldsins gagnvart hinum handhöfum ríkisvaldsins. Það er ljóst að dómsvaldið hefur ekkert fjárveitingarvald og verður því að sækja fjármuni sína til löggjafarvaldsins. Það gengur ekki að mínu áliti að dómsvaldið treysti alfarið á hagsmunagæslu um sjálfstæði sitt hjá dómsmálaráðherra. Dómsvaldið þarf þvert á móti að vera þannig upp byggt að það hafi kost á því að gæta að sjálfstæði sínu og varðveita það hverju sinni, til dæmis með því að forsvarsmenn dómstólanna setji fram beint og milliliðalaust kröfur um fjárveitingar til dómstólanna og eftir atvikum tillögur um breytingar á þeirri aðstöðu sem dómstólarnir búa við.“

Róbert segir að lokum ljóst að samhliða niðurskurði fjárveitinga til dómskerfisins og launalækkun dómara, líkt og nýlega var gert í Hæstarétti og héraðsdómi, sé verið að draga úr möguleikum dómsvaldsins til að sinna starfi sínu. „Og þetta gerist á tímum þegar álagið er að aukast. Það er mikið áhyggjuefni.“

Fjögurra barna faðir, hlaupari og bókaormur

Róbert R. Spanó er 37 ára gamall. Hann nam lögfræði við Háskóla Íslands og lauk meistaranámi frá Oxford-háskóla árið 2000 og hlaut þá sérstök verðlaun fyrir framúrskarandi námsárangur. Hann var um tíma aðstoðarmaður umboðsmanns Alþingis og hefur verið prófessor við lagadeild HÍ frá árinu 2006. Í rannsóknum sínum undanfarin ár hefur hann lagt megináherslu á lögskýringarfræði, þ.e.a.s. þær reglur og sjónarmið sem ríkja um túlkun á lögum sem Alþingi hefur sett. „Það er mitt helsta áhuga- og rannsóknasvið og langar mig að einblína enn meira á það í framtíðinni.“

Á árunum 2003 til 2008 var Róbert formaður refsiréttarnefndar og frá árinu 2007 hefur Róbert jafnframt sinnt formennsku í svokallaðri vistheimilisnefnd, sem sett var á laggirnar til að rannsaka vist- og meðferðarheimili fyrir börn sem voru starfrækt á árum áður. Nefndin hefur, sem kunnugt er, lokið tveimur skýrslum, annars vegar skýrslu um Breiðavíkurheimilið 2008 og áfangaskýrslu eitt af tveimur á árinu 2009 en hún laut að starfsemi Heyrnleysingjaskólans, skólaheimilisins Bjargs og vistheimilisins Kumbaravogs. „Við munum fljótlega ljúka við áfangaskýrslu tvö sem lýtur að Silungapolli, heimavistarskólanum að Jaðri og vistheimilinu Reykjahlíð.“

Róbert hefur verið ritstjóri Tímarits lögfræðinga frá árinu 2005. Árið 2007 var hann kjörinn varaforseti lagadeildar Háskóla Íslands og á deildarfundi í febrúar síðastliðnum kjörinn forseti deildarinnar frá og með 1. júlí. Í lok árs 2008 var hann beðinn að taka að sér setningu í embætti umboðsmanns Alþingis vegna leyfis Tryggva Gunnarssonar kjörins umboðsmanns og setu hans í rannsóknarnefnd Alþingis. Fékk hann þá leyfi frá störfum sínum við HÍ og sinnti hann daglegum störfum umboðsmanns í eitt og hálft ár.

Róbert er giftur Örnu Gná Gunnarsdóttur, myndlistarmanni og kennara við Norðlingaskóla og eiga þau fjögur börn, tvær stelpur og tvo stráka á aldrinum eins til fjórtán ára.

– Eru ekki örugglega 24 tímar í sólarhringnum hjá þér?

„Jú, jú,“ svarar Róbert hlæjandi, „en þeir mættu vera fleiri.“ Helstu áhugamál Róberts eru fjölskyldan, vinafólkið, líkamsrækt og bækur. Hann er mikill hlaupari og spilar golf. „Ég les mikið af lögfræðibókmenntum og sagnfræðiritum en minna af skáldsögum. Ég er samt mjög hrifinn af lögfræðitengdum reyfurum. Les þá til að slaka á.“

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.