Björn H. Jónsson
Björn H. Jónsson
Eftir Björn H. Jónsson: "Þar sem Guð er hér þátttakandi í sköpun þá hljótum við að biðja Hann að blessa þann ávöxt sem skapaður er í Hans mynd og biðja um Hans blessun með framhaldi."
Í frumkristni báðu lærisveinar Jesú hann um bæn til halds og trausts. Gaf hann þeim „Faðirvor“ og varð það haldreipi kynslóðanna gegnum aldirnar meira og minna.

Löngu síðar yrkir svo séra Hallgrímur Pétursson Passíusálma sína er glæddu stórum trúarlíf þjóðanna og ekki síst íslensku kynslóðanna. Trúarauðmýkt hans var slík að naumast er hægt að hugsa sér aðra slíka nema hjá þeim sem lausir eru við umbúðir líkamans um sálina. Þannig háttaði um séra Hallgrím að verulegu leyti vegna veikinda hans.

Okkur væri þarft að fylgja fordæmi hans því við gleymum oft í smæð okkar að sýna þá auðmýkt og sjálfsvirðingu er okkur ber í samskiptum við Guð, og því er í dag meðal annars stór hluti þjóðarinnar svo fjárhagslega illa kominn.

Þjóðin hafði gleymt þeim andlega styrk sem forfeðurnir margir höfðu stutt sig með bæninni og Guði. Þess vegna hafa neikvæðar hvatir leikið meir lausum hala og valdið því umgengnisslysi er nú blasir við þjóðinni.

Þó að kreppan hefði farið hjá hefði þjóðin þrátt fyrir það átt við nóga erfiðleika að stríða.

Grimmir sjúkdómar hafa á okkur herjað og hygg ég krabbameinið þar illskeyttast. Það fellir menn og konur á öllum aldri, allt niður í börn. Læknavísindin vinna stórvirki gegn þessu böli. Barátta hinna sjúku er hörð og oft þjáningarfull og langvinn áður en dauði eða líf sigrar. Óttalegust er sú uppgötvun lækna að gen hafi fundist í mönnum sem beri í sér krabbameinsfrumu og skili henni yfir í annan einstakling með einhverskonar erfðafestu ferli og tengist jafnvel einstökum ættum. Ekki deili ég á niðurstöðu læknanna. Mér finnst þessi niðurstaða skelfileg.

Ég trúi því ekki upp á Guð minn að hann skapi sitt eigið listaverk með slíkum fæðingargalla. Það getur ekki verið okkar Guð sem Jesús hefur frætt okkur um.

Í skjóli þess ætla ég að leyfa mér að sýna hér nokkrar vangaveltur yfir sjúkdómnum. Ég get hugsað mér að þessi litla lífvera, vísir til manneskju, verði fyrir hnjaski, áfalli eða fyrir einhverju slæmu er móðirin verður fyrir: Falli úr tröppu, verði fyrir ofbeldi eða ofraun af einhverju tagi. Sýkill gæti sest að í fóstrinu og borist með því út úr fyrstu vöggustofunni í fyllingu tímans út í nýja tilvist, lífið sjálft framtíðin enn óviss og óræð. Nú vildi ég gjarnan sjá Guð í meiri nánd sem hjálparhellu í vitund okkar því það er samfélagsvænt.

Við þekkjum flest þessa setningu: „Guð skapaði manninn í sinni mynd“. Þá er eðlilegt að gera ráð fyrir návist hans og aðkomu þegar maður og kona maka sig í þeim tilgangi að skapa manneskju. En til þess að sköpunarverkið sé fullkomnað þarf Guð að gefa því sína mynd með virkri útgeislun í samvisku, réttlæti og kærleika og svo lífsandann sjálfan.

Þegar maður og kona maka sig til að leggja drög að nýrri persónu sem á að verða eining í þeim mannauði sem nú er mikið talað um og eigi að erfa landið, eru þau hér í stóru hlutverki. Þau eru að hlýðnast boði Guðs að viðhalda mannlífi á jörðunni. Þau fá að taka þátt í sköpun. Skapa manneskju. Hvernig á hún að vera? Svarið er einfalt. Í Guðsmynd. Guð er kærleikur og hann leggur henni til kærleika og kallar eftir hinu sama af hálfu gerenda.

Við mökun þarf hugur beggja að vera gagntekinn af kærleika, ástúð. Sál og líkami sátt við hvort annað.

Mikill gæðamunur er á verkum þar sem hugur fylgir máli og þeirra er kastað er til höndum. Hér þarf að gilda fyrra verklagið.

Þar sem Guð er hér þátttakandi í sköpun þá hljótum við að biðja Hann að blessa þann ávöxt sem skapaður er í Hans mynd og biðja um Hans blessun með framhaldi. Er hér ekki um tilgang lífsins að ræða? Spyr sá er ekki veit. En ég trúi því.

Þá verður það að teljast mikill níðingsskapur þegar konum er nauðgað það er bæði ruddaskapur gagnvart þeim og Guði.

Allir þessir þrír skapendur þurfa að standa vörð um öryggi ávaxtarins í móðurvöggunni og fagna nýliðanum við komuna í þennan heim. Það er einmitt þá sem allt of margir sofna á verðinum. Við höldum við séum komin með afburða leikfang í hendur til að njóta áhyggjulausra gleðistunda. Það er ekki svo.

Við skulum reyna að eiga gleðistundirnar, hlýjar og hljóðlátar. Ró og frið þarf barnið. Það þarf líka vernd fyrir óþægilegum uppákomum svo að það finni að umhverfið er traust og öðlist sjálft yfirvegun og rósemi í fasi og viðmóti í framrás tímans.

Við skapendurnir megum ekki gleyma því að við þurfum að standa um þau vörð fram yfir táningsárin og vera þeim fyrirmyndir samstilltar svo tilvera okkar, samstarf og samferð verði samfélagsvæn, samstarfsvæn og umferðarvæn.

Okkur er bent á veginn sem við eigum að fylgja, það er Jesús Kristur. Hann er vegurinn, sannleikurinn og lífið. Friðurinn er hann veitir og návist Guðs geta stórlega fækkað sjúkdómstilfellunum.

Við fáum meiri von til að vinna sigra gegn krabbameini og öðrum friðarspillandi vágestum. Stressið minnkar og spennan og líkurnar aukast að veikindatilfellum fækki.

Sú unga kynslóð er nýtur þeirra uppeldiskjara sem hér er á minnst yrði vissulega sá mannauður er þjóðin hefði gagn af og þörf fyrir öðru fremur.

Hin lifandi kristna trú kallar á notkun bænar sem forvörn neikvæðum uppákomum veikindum og slysum.

Ef einlæg bæn er borin fram kvölds og morgna til Guðs um blessun og varðveislu þá höfum við lagt fram okkar tilraun til forvarnar. En alltaf gerist þó eitthvað sem þroskaferli. Þá getum við í fullri sæmd leitað til Guðs af einlægni í kirkjurnar okkar ef stórslys og náttúruhamfarir verða sem valda manndauða.

En við hin stóru sem höfnum návist Guðs í hversdagslegu lífi eigum erfiðara með að leita til Guðs á slíkum stundum.

Lykillinn til lausnar mörgu er þessi:

Bænin má aldrei bresta þig

búin er freisting ýmislig.

Þá líf og sál er lúð og þjáð

lykill er hún að Drottins náð.

mbl.is/greinar

Höfundur er fyrrverandi sóknarprestur.