Flottir feðgar Bræðurnir Hávarr Hrafn Jónsson (fremstur) og Kristinn Vikar Jónsson ásamt föður sínum Jóni Arnari Jónssyni á góðum degi.
Flottir feðgar Bræðurnir Hávarr Hrafn Jónsson (fremstur) og Kristinn Vikar Jónsson ásamt föður sínum Jóni Arnari Jónssyni á góðum degi.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Gunnþórunn Jónsdóttir gunnthorunn@mbl.is Deilur við mannanafnanefnd vegna nafnsins Hávarr hafa staðið yfir í nokkur ár en nefndin synjaði lengi beiðnum um að nafnið yrði samþykkt í þjóðskrá.
Gunnþórunn Jónsdóttir

gunnthorunn@mbl.is

Deilur við mannanafnanefnd vegna nafnsins Hávarr hafa staðið yfir í nokkur ár en nefndin synjaði lengi beiðnum um að nafnið yrði samþykkt í þjóðskrá. Á hinn bóginn hafa nöfn á borð við Ísarr, Sævarr, Gnarr og fleiri verið samþykkt. Nafnið Hávarr hefur nú verið samþykkt af mannanafnanefnd

Málið á sér langan aðdraganda.

Jón Arnar Jónsson hefur ásamt konu sinni átt í baráttu við mannanafnanefnd vegna nafnsins Hávarr en þau vildu skíra drenginn sinn Hávarr Hrafn Jónsson árið 2007. Jón taldi ekkert athugavert við nafnið og presturinn sem skírði var á sama máli og sagði að það yrði örugglega samþykkt ef það væri ekki nú þegar á skrá. Nokkru síðar fékk Jón bréf þar sem kom fram að nafnið væri ekki á skrá og yrði því að sækja um það ef þau hjónin vildu halda því. Fyrir vikið var Hávarr litli nefndur drengur Jónsson í þjóðskrá á meðan unnið var í málinu.

Vinnubrögðin ófullnægjandi

„Við biðjum mannanafnanefnd um að taka þetta mál upp og komumst þá að því að þeir hafi nú fjallað um þetta mál áður, a.m.k. tvisvar eða þrisvar og hafnað því í öll skiptin. Við vissum ekkert um það,“ segir Jón. Hann segir að formaður nefndarinnar hafi hringt í sig og gefið sér nokkurs konar vilyrði fyrir nafninu. Nefndin hafnaði þó nafninu aftur en sendi ekki úrskurðinn til Jóns.

„Við sáum síðan að strákurinn okkar var ekki drengur Jónsson í þjóðskrá lengur heldur Hrafn Jónsson,“ segir Jón en þá hafði einhver á vegum þjóðskrár tekið þá ákvörðun. Jón spurðist fyrir hvaðan þessi ákvörðun kæmi en kveðst engin svör eða skýringar hafa fengið á því.

Hjónin fóru fram á endurupptöku tvisvar í viðbót. „Við fáum rök og náum að hrekja þau, en alltaf koma ný rök,“ segir Jón. Eftir að hafa ekki heyrt í nefndinni í 3-4 mánuði kærði Jón málið til umboðsmanns Alþingis. „Hann fer í málið og er kominn úrskurður á vef umboðsmanns og í kjölfarið fæ ég loksins úrskurðinn sem mannanafnanefnd síðan falsar aftur í tímann þannig að úrskurðurinn er núna kominn á netið. Þeim hafði láðst að útfylla pappíra sem eru nú allt í einu orðnir sýnilegir á vefnum.“ Jón er ósáttur við þessi vinnubrögð og segir þau undarleg. „Nefndin fær miklar ákúrur fyrir vinnubrögðin og kemur í ljós að það er ekki bara í okkar tilfelli sem nefndin virðist hreinlega hafa hunsað að hafa samskipti við þá sem voru að biðja um nöfn, t.d. fólk sem hefur margoft sótt um sama nafnið eins og við.“

Nafnið var loksins samþykkt, en lögfræðingur nýrrar nefndar hefði tilkynnt honum það símleiðis, en ekki á formlegum nótum, að nafnið hefði verið samþykkt.

SVOLÍTIÐ SKUGGALEGT

Hávarr loksins samþykkt

Jón Arnar Jónsson hefur staðið í ströngu við mannanafnanefnd undanfarin þrjú ár. Honum finnst reglur um nöfn vera loðnar og óskýrar og hefur gagnrýnt vinnubrögð nefndarinnar sem hann telur ófagmannleg. Hann hefur kynnt sér reglurnar vel í baráttu sinni við hana og segir auðvelt að komast framhjá reglunum. „Ef við hefðum farið með drenginn okkar út og skírt hann t.d. í Danmörku, þá hefðum við getað skírt hann Hávarr, af því að ef Íslendingur fær nafn erlendis og snýr síðan heim og að því kemur að skrá nafnið í þjóðskrá, þá er ekki athugað hvort nafnið sé á nafnaskrá. Það er bara ef barnið fær nafn á Íslandi,“ segir Jón.

Hávar Hermóðsson, 17 ára, hefur einnig barist fyrir að fá nafnið stafsett Hávarr. Hann hefur fengið ófullnægjandi svör frá nefndinni og finnst skrítið að Hávarr hafi ekki fengið samþykki en önnur nöfn á borð við Sævarr, Gnarr og fleiri hafi verið samþykkt. „Það er búið að samþykkja þetta, allavega eins vel og ég veit, þannig að ég ætti að geta sótt um nafnið og fengið að heita þetta núna,“ segir Hávar. „Jón fór að standa í alls konar bréfaskriftum og kærði síðan til umboðsmanns Alþingis. Mannanafnanefnd hefur því séð nýjan flöt á málinu,“ segir hann. „En þetta var allt svolítið skuggalegt“.