Melkorka Mjöll Kristinsdóttir og Skúli Skúlason maður hennar eru í ríkari mæli farin að njóta aðstoðar annarra við uppeldi sonanna Jóns Ara sem er á öðru ári og Guðmundar sem er á því fjórða.
Melkorka Mjöll Kristinsdóttir og Skúli Skúlason maður hennar eru í ríkari mæli farin að njóta aðstoðar annarra við uppeldi sonanna Jóns Ara sem er á öðru ári og Guðmundar sem er á því fjórða. — Morgunblaðið/RAX
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Annars staðar á hnettinum finnst fólki það vera hreinasta brjálæði að ætla foreldrum að sjá hjálparlaust um uppeldi barna sinna, segir bandaríski barnasálfræðingurinn dr. Harvey Karp.

Annars staðar á hnettinum finnst fólki það vera hreinasta brjálæði að ætla foreldrum að sjá hjálparlaust um uppeldi barna sinna, segir bandaríski barnasálfræðingurinn dr. Harvey Karp. Melkorka Mjöll Kristinsdóttir hefur kynnt sér kenningar hans en hún er móðir tveggja drengja. Bergþóra Njála Guðmundsdóttir ben@mbl.is

Það þarf heilt þorp til að ala upp barn, ku vera málsháttur upprunninn frá Afríku. Þótt Vesturlandabúar grípi gjarnan til þessara orða á tyllidögum má deila um hversu mikið þeir fara eftir þeim í daglegu lífi – í öllu falli hefur áherslan á kjarnafjölskylduna stöðugt aukist undanfarna öld í hinum vestræna heimi. Sú skoðun hefur orðið æ almennari að ekkert komi í staðinn fyrir samveru barna með foreldrum sínum og því er ekki að undra að margir þeirra glíma við stöðugt samviskubit – ef ekki yfir því að hafa ekki nægan tíma með börnunum sínum þá jafnvel yfir því að vilja ekki vera jafn mikið með börnunum sínum og raun ber vitni.

Ein þeirra síðarnefndu er Melkorka Mjöll Kristinsdóttir, sem er heimspekimenntaður bóndi og bústýra að Keldum í Rangárþingi. Hún var með nokkuð ákveðnar hugmyndir um barnauppeldi þegar hún átti eldri son sinn fyrir tæplega fjórum árum. „Ég ætlaði að vera heimavinnandi og var mjög á móti leikskólum enda var ég alveg hörð á því að svona lítil börn þyrftu ekki menntun heldur fyrst og fremst ást og umhyggju. Þar fyrir utan hef ég alltaf verið heimakær og fundist gaman að eldamennsku og slíku þannig að mér fannst mjög eftirsóknarvert hlutskipti að vera húsmóðir.“

Þetta viðhorf breyttist nokkuð eftir að sonur hennar kom í heiminn. „Drengurinn var lagður á brjóst við minnsta kvart. Hann sofnaði þegar hann var orðinn þreyttur og var borinn um heimilið nánast eins og hann væri hluti af mjöðmum móður sinnar,“ segir hún og bætir því við að hún hafi verið mjög sannfærð um ágæti slíkra aðferða, að minnsta kosti til að byrja með. Málin vönduðust þó þegar á leið. „Ég fékk tennisolnboga af öllum burðinum en verra þótti mér að geta örsjaldan farið ein á klósettið, fyrst vegna þess að ég gat ekki skilið barnið eitt eftir frammi en síðar vegna óbilandi áhuga hans á að koma með. Og eftir því sem drengurinn stækkaði urðu næðisstundirnar sífellt færri.“

Vildi meira en Bóbó bangsa

Að auki upplifði Melkorka mikla einangrun af því að vera ein á heimilinu yfir daginn með barnið. „Allur dagurinn fór í að kubba og horfa á Bóbó bangsa og ég hreinlega nennti því ekki. Mig vantaði félagsskap og verkefni við hæfi.“ Hún segir að vissulega sé frábært að hafa tækifæri til að vera mikið með barninu sínu, en öllu megi ofgera. „Maður heyrir oft að fólk vildi óska þess að það gæti eytt meiri tíma með fjölskyldunni sinni. Á tímabili var minn draumur hins vegar að vera minna með fjölskyldunni.“

Að lokum ákvað Melkorka að setja drenginn á leikskóla hálfan daginn, en þá var hann orðinn 19 mánaða. „Ég lenti í svolitlu stríði við sjálfa mig um það hvort mér væri stætt á því að vera ekki úti á vinnumarkaðinum þótt barnið væri á leikskólanum. Ég fann líka fyrir því að fólk spurði hvort ég væri ekki að fara að vinna. Þá varð ég fyrst í stað svolítið vandræðaleg og fann fyrir samviskubiti en á endanum komst ég að þeirri niðurstöðu að ég væri ekki hætt að vera heimavinnandi þó barnið væri í leikskóla hluta úr degi. Auk þess trúi ég því að hlutverk foreldra sé fullt starf og einmitt þess vegna þurfi foreldrar frí frá því á einn eða annan hátt. Sumir foreldrar fara t.d. að líta á vinnuna sína sem tímabundið frí frá heimilinu og ég sýni því fullan skilning.“

„Fá þú þér bara kaffi“

Efasemdir um þetta fyrirkomulag létu Melkorku þó ekki í friði fyrr en hún kynntist hugmyndum bandaríska barnasálfræðingsins dr. Harveys Karp. „Ég var að horfa á Dr. Phil í sjónvarpinu þar sem hann var gestur og skyndilega upplifði ég skilning á aðstæðum mínum sem ég fékk ekki hjá vinkonum mínum sem áttu eldri börn en ég.“

Í þættinum ræddi dr. Karp um að einangrun kjarnafjölskyldunnar væri bundin við Vesturlönd. „Hann benti t.d. á að það væri nýlegt og mjög ónáttúrulegt fyrirbæri að kjarnafjölskyldan byggi svona út af fyrir sig. Áður bjó stórfjölskyldan saman og deildi bæði vinnunni og gleðinni sem fylgir börnunum og ef maður horfir enn lengra aftur í tímann þá bjuggu nokkrar fjölskyldur saman. Í öðrum heimsálfum er kjarnafjölskyldan enn hluti af stærri heild þar sem ekki eru bara afar og ömmur heldur frænkur, frændur og jafnvel fólkið í þorpinu. Í einum þjóðflokk í Afríku ganga ungabörnin t.d. á milli nánast eins og poppkorn í bíó svo stundum halda yfir 20 manns á litlu barni á einum degi. Annars staðar hjálpast systur móðurinnar að við að hugsa um börn hennar.“

Sjálf hefur Melkorka kynnst slíku viðhorfi á eigin skinni. „Ég kynntist fólki frá Filippseyjum í messu sem við fjöskyldan sóttum. Í messukaffinu var viðbúið að ég myndi þurfa að halda á yngri stráknum okkar sem var þá 14 mánaða á meðan ég reyndi að fá mér kökubita með annarri hendinni. Þá kom til mín þessi filippeyska kona sem ég hafði aldrei hitt áður og sagði mér að fara bara að fá mér kaffi, hún skyldi halda á barninu. Hún tók við honum og hann var alveg til í að fara með henni, sem við vorum steinhissa á því hann fer yfirleitt að gráta þegar einhver ókunnugur tekur hann. Þegar við fórum að huga að honum stuttu síðar var hann kominn í hendurnar á annarri asískri konu og gekk þannig á milli. Á meðan gátum við drukkið kaffi í ró og næði, sem var bara æðislegt.“

Kenningar Karps höfðuðu það vel til Melkorku að hún ákvað að verða sér úti um bók hans, The Happiest Toddler on the Block. „Þar lýsir hann m.a. því umhverfi sem mætir börnum þegar þau koma í heiminn. Þau búast ekki við því að lifa innan fjögurra veggja með mömmu sinni allan daginn. Þau eiga von á náttúrulegra umhverfi þar sem fólk býr útivið innan um fullt af dýrum, öðrum börnum og fullorðnu fólki og heyrir vindinn gnauða í trjánum. Eins konar ævintýraveröld.“

Pössun af litlu tilefni

„Eftir að ég las þetta fór ég að hugsa um leikskólana á annan hátt: þar er fullt af börnum og margir fullorðnir, tré og garður og kisur bæjarins koma þar við. Leikskólar eru því síður en svo ónáttúrulegir eða einhver geymslustaður, heldur líkjast einmitt á margan hátt eðlilegu umhverfi fyrir börn. Í dag er ég sannfærð um að leikskólar séu góðir fyrir börn og foreldra í ákveðnum mæli.“

Hún tekur undir að kenningar sem leggja ofuráherslu á mikla samveru og nánd barns og foreldra geti orðið til þess að ýta undir samviskubit foreldra. ,,Ég held að um sé að ræða ákveðinn misskilning. Það er mikilvægt fyrir börn að tengjast sínum nánustu traustum böndum en það vinnuumhverfi sem heimavinnandi konum síðastliðin 60–100 ár hefur verið boðið upp á er mjög ólíkt því umhverfi sem kynsystur okkar frá upphafi hinna fyrstu nútímamanna bjuggu við. Þær eru einar og þær búa innan fjögurra veggja heimilisins. Harvey Karp segir að verkefni foreldra í dag sé að koma í stað hinna barnanna, hins fullorðna fólksins, trjánna, dýranna og vindsins svo eitthvað sé nefnt. Og það er auðvitað óraunhæft.“

Melkorka bætir því við að leikskólar séu ekki fullkomið úrræði fyrir fjölskyldur. „En við verðum að spila úr því sem við höfum og ég held að stórfjölskyldan muni ekki taka við af kjarnafjölskyldunni á næstunni.“

Drengirnir eru í dag orðnir tveir og sá yngri fer á leikskóla í ágúst. „Við hjónin skiptumst líka á um að vera með börnin eða vera í útiverkunum. Eldri strákurinn er farinn að geta verið í fjósinu með okkur og sá yngri er svo rólegur að hann er bara sáttur að sitja í kerrunni sinni og fylgjast með. Á hinn bóginn erum við líka farin að nýta okkur meira pössun hjá ömmum, án þess að fá samviskubit. Og það þarf ekki að vera neitt merkilegt sem við ætlum að gera, stundum bara að taka til, hvíla okkur eða fara saman í verslunarferð. Ég neita að taka þátt í því að eina leiðin til að fá aðstoð liggi í vinnuna.“

Glaðasti krakkinn í hverfinu

Eftirfarandi textabrot eru úr bók Karps, The Happiest Toddler on the block:

*,,Vissir þú að kjarnafjölskyldan (heimili sem samanstendur aðeins af

foreldrum og börnum þeirra) er nýleg uppfinning? Í raun er þetta ein

stærsta og ónáttúrulegasta tilraun mannsins frá upphafi!“

*,,Nútíma vestræn menning kennir að það sé ,,eðlilegt“ að við sjáum um

börnin okkar án nokkurrar hjálpar...“ ,,Annars staðar á hnettinum

finnst fólki þetta vera hreinasta brjálæði.“

*,,Að hugsa um ungt barn er mikil vinna. Ef við höldum að við getum –

eða ættum – að sjá um alla vinnuna sjálf þá erum við orðin firrt og

algerlega úr takti við sögu mannsins.“

*Að ala upp barn er sannarlega verkefni fyrir heilt þorp – en hvar getur

þú fundið slíkt þorp ef þú býrð á Manhattan (eða hvar svo sem þú býrð

í hinum vestræna heimi)? Opnaðu augun, það er allt í kringum þig:

– Vingastu við einhvern sem á barn á svipuðum aldri.

– Vingastu við nágrannana.

– Skráðu barnið þitt í leikskóla. (Tveggja ára börn eru ekki of ung.)

– Taktu þátt í líkamsrækt eða félagi þar sem foreldrar og börn hittast.

– Taktu þátt í eða stofnaðu leikjahóp eða félag mæðra sem passa hver

fyrir aðra.

– Bjóddu eldri nágranna að heimsækja barnið þitt.

– Taktu þátt í kirkjustarfi eða öðru starfi trúfélaga.

– Flyttu nær skyldmennum þínum eða flyttu þau nær þér.

Sveigjanleikinn mikilvægur

Það er engin ein uppskrift að góðu uppeldi,“ segir Guðrún Hannesdóttir, MA í uppeldis- og menntunarfræði, „ekki frekar en að öðru í lífinu.“ Fyrir nokkrum árum, nánar tiltekið árið 2003, gerði hún rannsókn þar sem hún ræddi við foreldra um hvernig þeim gengi að samræma fjölskyldulíf og atvinnuþátttöku.

Niðurstöður hennar sýndu meðal annars að fólki þótti það erfitt verkefni að samræma fjölskyldulíf vinnunni en jafnframt að almennt voru foreldrar ekki mjög þjakaðir af samviskubiti gagnvart börnum sínum. „Þá voru svolítið aðrir tímar en nú en mín niðurstaða var að fólk sefaði samviskubitið með ýmsum rökum, s.s. að krakkarnir væru svo ánægðir, eða að þeir keyptu hluti eða aðstoð til heimilisins til að draga úr álaginu á það. Eftir á að hyggja finnst mér mikil synd að það hafi þurft að róa þetta samviskubit. Það er greinilega eitthvað í þjóðfélaginu sem kemur þessu samviskubiti inn hjá foreldrum, og þá sérstaklega mæðrum.“

Fámennið í kjarnafjölskyldunni

Eitt af því sem ýtir undir samviskubit foreldra er án efa umtal um að leikskólar séu eins konar geymslustaðir fyrir börn. „Ég skil ekki hvað það er lífseigt viðhorf,“ segir Guðrún. „Vissulega geta þetta verið langir dagar fyrir litla krakka og því finnst mér muna miklu hvort barn er sótt klukkan þrjú eða fjögur – eða þá ekki fyrr en um sexleytið. Ef leikskólinn er góður og barnið heilbrigt ætti maður ekki að hafa áhyggjur. Það skiptir mestu máli að það sé gott fólk sem er með barnið.“

Guðrún segir þvert á móti mikilvægt fyrir barnið að alast upp í stærra samfélagi, en bara hjá kjarnafjölskyldunni, ekki síst þar sem nútíma kjarnafjölskyldur eru flestar fámennar. „Í dag eru bara eitt til tvö börn í kjarnafjölskyldunni – þrjú börn þykja bara mikið. Og þegar börnin umgangast bara eitt eða tvö foreldri, e.t.v. eitt systkin auk afa og ömmu sem koma kannski fyrst og fremst til að dekra við þau, geta þau ekki lært að taka tillit til annarra eins og æskilegt er. Ég held að það sé ekki gott upp á félagsþroska. Það reynir allt öðruvísi á þegar systkinahópurinn er svona lítill, þau þurfa minna að taka tillit til annarra og á móti eru árekstrarnir meiri því það getur farið meira púður í hvert atvik.“

Og það er fleira sem börnin læra í stærri hópum. „Krakkar í stærri systkinahópum eru oftar látnir gera meira á heimilinu, en þegar systkini eru bara tvö því þá er oft fljótlegra fyrir foreldrana að gera hlutina sjálfir í stað þess að fá börnin til að taka þátt. Í góðærinu, þegar fólk var gjarnan að vinna á daginn og í skóla á kvöldin, var líka algengt að fá einhvern inn á heimilið til að þrífa svo verkálag á krakka var ekkert. Þau þurftu ekkert frekar að aðstoða við heimilisstörfin.“

Púsluspilið erfitt

Rannsókn Guðrúnar leiddi í ljós að foreldrar upplifa almennt mikið púsluspil í því að láta vinnudaginn og barnauppeldi fara saman. „Það er einfaldlega erfitt að vera með heimili og börn og vinna frá átta til fimm. Það eru ákveðnir hlutir sem þarf að gera, eins og að þrífa, sjá um þvottinn, kaupa inn, fara til tannlæknis og klippingu og þetta allt saman. Þetta er mikið álag. Svo þegar krakkarnir eru komnir í íþróttir bætist við að skutla þeim fram og til baka eftir vinnu, eða jafnvel að fá að skjótast frá í vinnutímanum til að sinna þessu skutli, sem bætir enn á stressið,“ segir hún og tekur undir að skutl í tómstundir sé einmitt dæmi um verk sem samfélagið – þorpið – gæti reynt að annast í sameiningu. „Reyndar virðist oft vera vilji til þess hjá fólki að hjálpast að við þetta skutl en stundum verður það einhvern veginn of flókið í framkvæmd. Og svona er þetta búið að vera í mörg ár og virðist ekkert vera að breytast. Furðulegt það.“

Sveigjanlegur vinnutími er gott tæki til að vinna á móti því álagi sem fylgir slíku amstri. „Þegar ég gerði rannsóknina var hugmyndin um „Hið gullna jafnvægi“ mikið í tísku. Þá var farið að koma til móts við fólk í vinnu þannig að það mátti fara með góðri samvisku úr vinnunni ef það þurfti og vinna það upp á öðrum tímum og slíkt fyrirkomulag varð nokkuð algengt. Núna þegar þrengst hefur um á vinnumarkaði er maður hræddur um að þetta fari í handbremsu og fólk þori ekki að biðja um þennan sveigjanleika. En það er ákaflega mikilvægt að hafa hann engu að síður.“