21. apríl 1994 | Íþróttir | 420 orð

BLAK HK Íslandsmeistari

BLAK HK Íslandsmeistari HK tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn í blaki karla í annað sinn á jafnmörgum árum þegar liðið skellti Reykjavíkur-Þrótti 3:0 í þriðja og síðasta leik liðanna í gærkvöldi. eikmenn HK mættu vel stemmdir til leiksins í gærkvöldi, og...

BLAK HK Íslandsmeistari

HK tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn í blaki karla í annað sinn á jafnmörgum árum þegar liðið skellti Reykjavíkur-Þrótti 3:0 í þriðja og síðasta leik liðanna í gærkvöldi.

eikmenn HK mættu vel stemmdir til leiksins í gærkvöldi, og það var greinilegt frá fyrstu mínútu að þeir ætluðu ekki að hleypa Þrótturum inn í leikinn, en Þróttarar voru varla komnir úr startholunum þegar HK hafði innbyrt vinninginn í fyrstu hrinunni, 15:4.

Þróttarar náðu sér hins vegar vel á strik í annari hrinunni og þeir höfðu forystu, 11:3, en heilladísirnar voru víðs fjarri. Eftir að vera með yfirburðarstöðu komu mistökin á færibandi hjá Þrótti á meðan HK-ingar kroppuðu inn eitt og eitt stig. Þróttarar létu gullið tækifæri renna sér greipum, þeir voru með yfirburðarstöðu en HK hafði kjarkinn til þess að sækja og það dugði í annari hrinunni sem endaði 16:14 fyrir þá.

Þó svo að þriðja hrinan hafi verið jöfn framan af þá hafði maður á tilfinningunni að HK myndi klára dæmið því það virtist vanta einhvern neista í leik Þróttara, eins og leikmenn tryðu því að þetta væri búið, enda fór svo að HK vann hrinuna 15:12 eftir að jafnt hafði verið 12:12.

Hjá HK var Mark Andrew Hancock bestur hann skilaði nánast öllu í sókninni ásamt því að vera lykilmaður í móttökunni með Karli Sigurðssyni sem var öryggið uppmálað á köflum.

Þróttarar geta nagað sig í handarbökin eftir þennan leik því þeir áttu möguleika á að komast inn í leikinn en gáfu það frá sér. Leikmenn liðsins virtust aldrei ná sér almennilega í gang nema þá helst Guðjón Valsson.

Andrew hættir með HK

Bandaríkjamaðurinn Andrew Hancock, þjálfari og leikmaður HK, var ánægður með sigur sinna manna og sagði eftir leikinn að hann hefði alltaf trúað því að þetta myndi ganga upp þó svo að hafa lent undir 11:3 í annari hrinunni. "Við sýndum það að við erum með besta lið landsins í dag og við áttum svör við öllum aðgerðum Þróttara í þessari úrslitakeppni. Það kom aldrei til mála að gefa frá sér Íslandsmeistaratitilinn, sérstaklega eftir að hafa tapað fyrir Þrótti í bikarnum. Þetta hefur verið skemmtilegur vetur hérna á Íslandi en ég verð líklega ekki annan vetur hérna, að minnsta kosti ekki eins og staðan er í dag. Ég er að skoða tilboð um atvinnumennsku í Tyrklandi og Austurríki," sagði þessi litríki leikmaður að lokum.

Guðmundur H.

Þorsteinsson

skrifar

Morgunblaðið/Sverrir

Meistaratitlinum fagnað

GUÐBERGUR Egill Eyjólfsson fyrirliði Íslandsmeistara HK fagnar meistaratitlinum af mikilli innlifun eftir að hafa tekið við Íslandsbikarnum.

Fletta í greinum frá þessum degi

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.